Stóra loftslagssvindlið, hluti II

Swindle

 

"Veðrahvolfið ætti að hlýna hraðar en yfirborð jarðar eins og reiknilíkönin gera ráð fyrir, en mælingar sýna annað."

Haldið var fram í myndinni The great global warming Swindle að eðlisfræði hlýnunar af völdum auknum gróðurhúsaáhrifum stangaðist á við raunverulega hitamælingar.  Þessi gagnrýni á fullkomlega rétt á sér, eða öllu heldur átti rétt á sér.  Upp á síðkastið hafa fundist réttmætar skýringar á þessari þversögn.

Það var árið 1992 sem John Christy við háskólann í Alabama birti niðurstöður rannsókna sinna á hitamælingum jarðar með gögnum frá veðurtunglum frá því fyrir 1980.  Hann komst að því að veðrahvolfið eða neðstu 10 km lofthjúpsins höfðu kólnað í samanburði við yfirborð jarðar. Þessar niðurstöður voru síðan studdar beinum mælingum háloftamælitækja í veðurathugunakerfi heimsins á jörðu niðri. Þversögnin olli vísindamönnum talsverðum heilabrotum lengi vel, því ef veðurtunglagögnin voru rétt þýddi það að veðurfarslíkönin voru ekki að virka eins og til var ætlast af þeim. Og það gekk vitanlega ekki upp að yfirborð jarðar væri að hlýna á sama tíma og hitalækkunar varð vart í neðsta hluta lofthjúpsins.  Varmaflæði yfirborðs og lægstu loftlaganna haldast vitanlega í hendur.

Það var ekki fyrr en árið 2005 að nokkrar vísindagreinar birtust m.a. í Science.  M.a. kom í ljós að formerki (plús og mínus) leiðréttinga sem gera þarf á veðurtunglagögnunum vegna dægursveiflu höfðu víxlast og eins líka það að veðurtunglin höfði hægt á sér og sú staðreynd hafði áhrif á mælingar til lækkunar. Hvað háloftaathuganirnar áhrærir komust menn að því að nauðsynlegar og eðlilegar leiðréttingar sem gera þarf á hitatölum vegna þess að sjálf mælitækin drekka í sig geislun frá sólinni voru ekki rétt gerðar eftir leiðbeiningum framleiðenda sem tókst sífellt betur og betur að einangra hitaskynjara frá þessum þætti.  Því urðu mælingar í háloftum sífellt "kaldari" eftir því sem mælitækin urðu betri.

Satellite_TemperaturesHér er ágæt mynd sem sýnir þennan hausverk vel.  Rauða línan er sú sem Christy fékk út eða öllu heldur með hans aðferð á meðan sú bláa eru mælingarnar (sýnir breytingu 1982 til 2004). Sú græna er síðan annað gagnasett sem ekki er hér til umfjöllunar.


Á síðasta ári var gefin út mikil skýrsla í Bandaríkjunum af US Climate Change Science (Bandaríska loftslagsbreytingaráðið ??)  þar sem fjallað er um þróun hitastigs í neðri lofthjúp og ólíkar aðferðir til mælinga.

14 síðna vel læsilegt ágrip er hér:     http://www.climatescience.gov/Library/sap/sap1-1/finalreport/default.htm


Athugasemdir

1 identicon

Ég sá ekki myndina í sjónvarpinu en horfði á hana á netinu fyrir margt löngu. Það er auðvitað gott og blessað ef staðreyndavillur hafa verið lagaðar í þessari útgáfu, og Wunsh klipptur út, en að slíkar villur séu í heimildamynd sem er sýnd á BBC og ekki lagaðar fyrr en eftir frumsýningu í sjónvarpi frekar en í "post production" finnast mér furðuleg vinnubrögð. Það sem stendur líka í mér er staðhæfingin að Kyoto bókunin ásamt þeim aðgerðum sem miða að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda séu til þess fallandi að standa í vegi fyrir þróun í þróunarríkjunum. Hið rétta er að Þróunarríkin eru einmitt undanskilin , loftlagssáttmálum hvort sem átt er við Montreal- eða Kyoto sáttmálana , - og því er staðhæfingin röng. Svona vinnubrögð framleiðanda heimildamynda eru ekki viðunandi og því frekar tæpt að ætla að notast við þessa mynd sem sönnun þess að hnattræn hlýnun af mannavöldum sé bara bull og vitleysa. 

 -Elín Björk. 

Elín Björk Jónasdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 09:55

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar og hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum.  Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.  (Sjá nánar blogg mitt í dag - Stóra loftlagssvindlið - sjónarhorn leikmanns

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 10:59

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Elín

Vandamálið er að það hefur ekki verið sýnt framá að minnkun á losun CO2 muni hafa nokkur áhrif á hlýnun jarðar, menn eru í raun bara að giska, og það er málið frá a til ö.  Auðvitað þarf að ganga betur um jörðina, en að gera CO2 að söluvöru það gerir ekkert gagn og spurning hvort kolefnisjöfnun sbr Kolviður sé ekki í bestafalli svindl í verstafalli þjófnaður.

Einar Þór Strand, 22.6.2007 kl. 13:42

4 identicon

Eitt sinn sögðu þeir sem töluðu gegn kenningunni um gróðurhúsaáhrifin að mælingarnar væru vitlausar þar væri engin hlýnun. Nú hafa þeir snúið við blaðinu og viðurkenna að um hlýnun sé að ræða en óljóst sé um ástæður.

Nú hefur þetta snúist við, nú segja fylgjendur kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin að mælingarnar séu vitlausar !! Ég efast uma að það sé rétt, reynslan hefur kennt okkur að mælingar séu réttar.

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 15:06

5 identicon

Thorsteinn.

Maelingarnar voru ekki rangar heldur var ekki rett unnid ur theim. Plus verdur ekki minus jafnvel thott monnum takist ad birta rannsoknir sinar i virtum timaritum med slikum villum. Mikid vaeri annars agaett ef allt vaeri satt og rett i thessari mynd en hun er thvi midur byggd ad miklu leyti a visindarannsoknum sem nu thegar er buid ad hrekja. Myndir med sem a moti grodurhusahrifunum thurfa ad byggja a bestu faanlegu upplysingum sem til er i dag. Thad gerir thessi mynd alls ekki og thad er thvi sorglegt ad sja hvad menn eru tilbunir ad gripa hana a lofti sem hinn eina sanna sannleika (tek thad fram ad eg hef komist yfir mynd Davids Attenborough og ekki getad myndad mer skodun a henni).

Eyjolfur Magnusson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 17:15

6 identicon

Þarna seinast átti að standa að ég hef ekki komist yfir mynd Davids Attenborough....

Eyjolfur Magnusson (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 18:18

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er fróðlegt að skoða söguleg gögn um hitastig víða í heiminum, sem er m.a. að finna á vefnum World Data for Paleoclimatology og siðan Wikipedia undir Temperature record of the past 100 years.  Báðar þessar síður sýna að þó svo að hitahækkun síðustu áratuga, sé komin í hærri hæðir en síðustu 2000 ár, þá eiga þær fordæmi frá fyrri tímum.  En þessi gögn sýna líka að hitabreytingar eru tíðar og snarpar.  Þannig getur meðalhiti sveiflast til og frá um 0,5 gráður á örfáum árum/áratugum, sem er álíka og gerst hefur undanfarin 50 ár eða svo.  Við verðum að hafa í huga að kuldaskeiðum miðalda lauk ekki fyrr en um 1850, þannig að það einhver hluti hitahækkunar síðustu 150 ára er tilkominn vegna þess.  Á grafi sem sjá má með að smella hér, kemur t.d. í ljós að meðalhitastig er aðeins 0,2 gráðum hærra árið 2004 en þegar það var hæst í kringum 1000 (blágræn lína).  Þar má líka sjá að hitaækkunin frá um 1000 fram til um 1350 var tæplega 1 gráða.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2007 kl. 19:46

8 identicon

Sæll Einar Þór, - og aðrir sem þetta lesa.

Megin uppistaðan í rifrildum á milli þessara tveggja fylkinga virðist alls ekki snúast um það hvort minnkun á losun CO2 frá núverandi losun breyti nokkru, rifrildið hefur aðallega staðið um það hvort túlkun hinna og þessa rannsókna sé rétt eða röng. Ég var hins vegar eingögnu að benda á að vinnubrögðin við þessa "heimildamynd" eru þannig að það ber að taka þær staðhæfingar sem þar koma fram með miklum fyrirvara. Það er vissulega þörf á hlutlausri gangrýni á allar vísindarannsóknir, og efnið um aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum og afleiðingar þeirra er efni sem sárlega vantar hlutlausa gagnrýni. Þessi mynd var langt frá því að vera hlutlaus, og langt frá því að vera nógu vönduð til þess að eiga tilkall til þess að falla í flokk heimildamynda. Það má svo auðvitað deila um það hvort An Inconvenient Truth eigi heima þar líka.

Elín Björk.

Elín Björk Jónasdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 23:31

9 identicon

Marínó: Rétt væri að túlka þessa mynd (þessa sem þú vísar í síðast) með meðaltali þeirra rannsókna sem eru á baki þeim, ekki með því að skoða eingöngu hæstu línuna sem byggð er á trjáhringarannsóknum. Ég hef ekki skoðað þessa trjáhringarannsókn og veit því ekki hvað er á bakvið hana, svo ég get ekki kommentað almennilega um hana, en hver segir að hún sé réttari en allar hinar línurnar?

Höskuldur (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 08:43

10 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Þegar ég skoðaði USCCS skýrsluna sem Einar vitnar til varð ég hissa að sjá nefndan John Christy einn af aðalhöfundum skýrslunnar.

Einnig var nefndur sem aðalhöfundur Benjamin Santer sem kom til Íslands fyrir ca. 2 árum og var svo ósvífinn að halda því fram í Kastljósþætti að enginn ágreiningur væri lengur á milli vísindamanna um manngerða hlýnun.

Þegar lesinn er inngangur samantektar skýrslunnar er helst að sjá að skýringar hafi fundist á öllu misræmi milli gervihnattamælinga hita í veðrahvolfinu og loftslagslíkana. Þegar lesið er aðeins lengra má sjá að enn sé óútskýrður munur á hitaþróun í hitabeltinu þar sem gervihnettirnir mæli minni hlýnun en líkönin segja fyrir um. Skýringin sem þeir gefa er að það séu líklegast einhverjar óþekktar skekkjur í úrvinnslu mæligagnanna frá gervihnöttunum. Sjá neðst á bls. 3 í 14 bls. samantektinni. Aðrir telja að skýringanna sé frekar að leita í gölluðum líkönum.

John Christy hefur uppfært gagnasafn sitt sbr. ábendingar um villur, sem hefur leitt til hækkunar á mati hlýnunar en samt er niðurstaðan minni hlýnun í veðrahvolfinu við miðbaug en mælist á jörðu niðri. Á bls. 63 í USCCS skýrslunni má sjá UAH gagnasafnið frá Christy o.fl. gefur 0,05 gráðu hlýnun í veðrahvolfinu á áratug við miðbaug en RSS gagnasafn frá öðrum rannsóknahóp gefur 0,15 gráðu hlýnun. Bæði gagnasöfnin byggja á sömu grunngögnum en mismunandi aðferðir eru notaðar við úrvinnslu, sérstaklega hvernig unnið er úr misræmi milli mælinga á milli gervihnatta.

Hlýnun á jörðu niðri er hins vegar 0,13 gráður á áratug á sama svæði. Nánast öll gróðurhúsalíkön gera ráð fyrir meiri hlýnun (ca. 50%) í veðrahvolfinu heldur en á jörðu niðri við miðbaug. Til að ná samræmi þyrftu gervihnettirnir að mæla ca. 0,19 gráðu hlýnun.

Fyrir þá sem hafa ekki tíma til að lesa allar 180 bls. í USCCS skýrslunni má benda á þessa siðu á Wikipedia http://en.wikipedia.org/wiki/Satellite_temperature_measurements þar sem lesa má að langt er frá því að þetta umrædda misræmi hafi verið útskýrt.

Þessi grein http://www.techcentralstation.com/081105RS.html eftir Roy Spencer samstarfsmann Christys er líka fróðlega samantekt um það sem hefur verið að gerast þessum rannsóknum undanfarið.

Finnur Hrafn Jónsson, 24.6.2007 kl. 01:14

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband