Koltvísýringur og ísaldir - Stóra loftslagssvindlið, hluti III

Swindle

 

"Í borkjörnum kemur í ljós að hitastig virðist taka breytingum áður en sveiflur koma fram í CO2 en ekki öfugt eins og ætla mætti."

Í myndinni var gefið í skyn að rannsóknir á fornloftslagi hafi leitt í ljós að aukning koltvísýrings og hækkandi hitastig fylgdist ekki að og sérstaklega væri áberandi í ískjörnum að við upphaf hlýskeiða í loftslagssögunni væri ekki vart við aukningu á CO2 fyrr en um 800 árum síðar.  Þetta sýnir með öðrum orðum að þær viðteknu kenningar að aukning koltvísýrings í lofti leiddi til hækkandi hitastigs væru bull og reginfirra.  En lítum betur á málið.

Vostok-ice-core-petitAð minnsta kosti þrjár ískjarnarannsóknir  á Suðurskautslandinu hafa gefið til kynna að  aukning  á CO2 verður um 800 árum (600-1000) eftir að hlýskeið hefst að lokinni ísöld, en þær  vara  í u.þ.b.100 þús ár í hvert sinn.  Hún tekur um 5000 ár umbreytingin frá ísöld yfir í hlýskeið.  Rétt er  að fyrstu 800 árin eða svo eykst ekki koltvísýtingur í lofti, en í um 4200 ár þar á eftir benda rannsóknir til að hröð aukning eigi sér stað í koltvísýri lofthjúpsins.  Þessi staðreynd getur hins vegar engan veginn afsannað tilgátuna um tengsl CO2 við hnattræna hlýnun.

Hér til hliðar eru línurit  sem nær yfir 5 hlýskeið og 4 ísaldir frá Vostok ískjarnanum.  Sú bláa er hiti, græna CO2 og rauða rykagnir. 

En veðurfarssveiflur eru vitanalega líka af öðrum toga en þeim sem tengjast hluta gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi er rétt að nefna langtímasveiflurnar á braut jarðar um sólu.  Inngeislun sólar er breytileg af þessum völdum og lengi hafa menn haft vitneskju um að sveifla á sporbaug jarðar sem tekur 21.000 ár hefur áhrif á tilurð ísalda og hvernig þær vara. (sjá nánar t.d. hér)  Breytingar á inngeislun sólar valda því að það hægir á straumakerfi Atlantshafsins og í kjölfarið hlýnar, einnig á Suðurskautslandinu þaðan sem "sýnin" eða loftslagsvitnin eru fengin.     

Rannsóknarniðurstöður úr mörgum áttum benda því til þess að sveiflurnar á sporbaug jarðar valdi hækkandi hitastigi andrúmsloftsins og hægt og bítandi verður einnig vart hlýnunar heimshafanna a.m.k. sumra þeirra.  Um leið og það gerist losnar uppleyst CO2 úr hafinu út í loftið og við það eykst hlýnuninn enn frekar. Með öðrum orðum keðjuverkun hefst og nýtt jafnvægi næst á nokkur þúsund árum.  Það er því ekki koltvísýringurinn sem hefur komið jörðinni út úr ísaldarham, en hann hefur vissulega jákvæða verkun (feedback).

Að samanlögðu benda líkanareikningar til þess að aukin gróðurhúsaáhrif af völdum CO2, en einnig CH4 (metan) og N2O skýra  um helming þeirrar hlýnunar sem verður frá ísöldum til hlýskeiða. Í því sambandi er minnkandi endurkast sólarljóss um leið og ísaldarjökullinn hörfar er ekki svo lítill þáttur.


Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mér þykja rök þessarar myndar ekki beisin. Það er ekki margt sem stendur uppi þegar rökin hafa verið skoðuð. Það verður fróðlegt að fylgjast með þegar þáttur Attenboroughs verður tekin fyrir, ég mun fylgjast með. Missti reyndar af stórum hluta seinni þáttarins. Takk fyrir að halda úti svona fróðlegri blogsíðu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.6.2007 kl. 19:51

2 Smámynd: Birna M

Þakka fyrir fróðleikinn. Ég horfði á þáttinn og fannst hann mjög fróðlegur - þannig. Það er gott að hafa báðar hliðar málsins.

Birna M, 22.6.2007 kl. 20:50

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Nafni ertu sem sagt að segja að virkni sólar hafi ekkert að segja???

Einar Þór Strand, 22.6.2007 kl. 21:10

4 identicon

Takk fyrir þessar upplýsingar. Ég féll einmitt í þessa gildru að álykta að þó að CO2 magn aukist með hækkandi hitastigi að þá getur það líka eitt og sér auðvitað hækkað hitastig jarðar.

Eysteinn (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 23:01

5 identicon

""umbreytingin frá ísöld yfir í hlýskeið.  Rétt er  að fyrstu 800 árin eða svo eykst ekki koltvísýtingur í lofti, en í um 4200 ár þar á eftir benda rannsóknir til að hröð aukning eigi sér stað í koltvísýri lofthjúpsins.  Þessi staðreynd getur hins vegar engan veginn afsannað tilgátuna um tengsl CO2 við hnattræna hlýnun" "

Það er rétt að sú hlðýnun varð ekki af völdum co2. En aukningoin þarna 800 árum síðar á co2 virðist ekki hafa haft nein áhrif til hlýnunar.

Málið þarna er ekki það að co2 orsaki hlýnun eða aukist og minki eftir hitastigi. Heldur það að við aukningu co2 hækkaði hitastig ekki,,, enda ekki af manna völdum.

Þegar við horfum á hitabreytingar gegnum árþúsundin þá segjum við þær stafa af sveiflum á sporbaug jarðar, eða sólarblettum o.s.frv. Náttúrulegar sveiflur til að ná hinu gullna jafnvægi.

Í dag virðist sporbaugurinn vera kominn í jafnvægi og sólin hætt að fá óreglulega bletti sem hafa áhrif á veðurfar. Það eina sem getur raskað þessu fullkomna jafnvægi er mannskepnan. Ef hún bara gæti hætt að anda. (Kýr mættu líka hætta að prumpa).

Sigurjon Kjartansson (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 03:37

6 Smámynd: Sigurjón

Ég efast stórkostlega að mannskepnan muni raska hinu náttúrulega jafnvægi í veðurfari heimsins.  Náttúran mun að öllum líkindum ekki leyfa það.

Sigurjón, 23.6.2007 kl. 04:14

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér sýnist að rannsóknir á borkjörnum gefi til kynna það eitt að hitastig jarðar hefur bæði verið hærra og lægra en nú er. Það segir okkur jafnframt að maðurinn hafi ekki haft áhrif á það fyrir iðnvæðingu á nokkurn hátt.

Skv. þessu held ég að heiðarlegt sé að segja að við getum hvorki sannað né afsannað áhrif mannsins og því ekki rétt að fá móðursýkiskast án frekari rannsókna. Hafa menn í alvöru reiknað mengunarmagn í vænu eldgosi á við St. Helens, Heklu 1947 eða Lakagíga?

Ég hef fylgst vel með þessari umræðu og væri ég dómari fyrir rétti myndi ég sýkna manninn af mengunarákæru vegna skorts á sönnunargögnum.

Haukur Nikulásson, 23.6.2007 kl. 12:10

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk, Einar, fyrir góðan fróðleik.  Þessi mynd, eins og gögn, sem ég benti á í bloggi mínu í gær, sýnir að náttúrulegar hitasveiflur Jarðar eru mikla og öfgakenndar.  Hún sýnir líka hitastig Jarðar um þessar mundir er ennþá talsvert frá því að ná hitatoppum fyrri tíma, en jafnframt að hitabreytingin frá lægsta hita til mesta hita er mjög snörp. (Er ekki rétt skilið að nútíminn er lengst til vinstri?)  Þannig að hlýnun á sér stað mjög hratt, en kólnunin smátt og smátt.

Marinó G. Njálsson, 23.6.2007 kl. 12:26

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála Hauki N.

Allir virðast sammála um gróðurhúsaáhrif ýmissa lofttegunda, þ.á.m. vatnsgufu sem mun vera mesti gróðurhúsavaldurinn. Er vitað hve hátt hlutfall co2 í andrúmsloftinu er af mannavöldum? Það held ég sé afar erfitt að sanna því eins og Einar Sveinbjörnsson bendir á þá veldur hlýnunin sem slík keðjuverkun í losun co2 út í andrúmsloftið, bæði frá hafi og landi. T.d. er talið að umtalverðar gróðurhúsalofttegundir losni þegar sífreri bráðnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.6.2007 kl. 05:48

10 Smámynd: halkatla

ég hlýt að vera einhverskonar snillingur því einmitt þegar ég horfði á þessa mynd þá fannst mér sumt í henni alveg fínt, semsagt eitthvað sem maður þurfti að vita, en gengdarlausar fullyrðingar um fortíðina og þessi sveiflu-línurit voru akkúrat það sem ég efaðist um

halkatla, 26.6.2007 kl. 12:58

11 Smámynd: halkatla

það er samt vitað að mengun hefur gríðarlega mikil áhrif á ýmis vistkerfi og mikið hefur verið eyðilagt vegna umsvifa mannsins, ég segi það vegna þess sem Haukur N segir, því ef ég væri dómari myndi maðurinn fara á gálgann fyrir það sem hann hefur gert regnskógunum, dýrunum, hafinu, kóralrifunum og fl og fl, en það er sem betur fer bara ég. 

halkatla, 26.6.2007 kl. 13:00

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 1786850

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband