Lífdísel eykur frekar á gróðurhúsavandann

covermedÍ nýjasta hefti Science, 17.ágúst sl eru þrjár athyglisverðar greinar sem tengjast veðurfarsbreytingum. Í einni þeirra eftir tvo breska vísindamenn er fjallað um lífdísel og  hvaða afleiðingar það kunni að hafa á orkubúskap jarðar eða þann hluta sem stendur fyrir brennslu á lífrænu eldsneyti. Og þar með einnig á losun gróðurhúsalofttegunda.  

Lífdísel, etanól og annað eldsneyti sem fæst með einhverjum hætti við ræktun jarðargróðurs er ein þeirra tískulausna sem mikið hefur verið látið með upp á síðkastið sem ein þeirra leiða sem dregið gæti úr losun á koltvísýringi.  Nokkur ríki hafa nú þegar sett stefnuna á aukin hlut lífræns eldsneytis, m.a. ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen í Danmörku ákveðið að í árslok 2007 skuli 2 % alls eldsneytis vera lífdísel o.þ.h.  og árið 2010 skuli þetta hlutfalla vera komið upp í 6% (Mbl. 5. jan 2007).

Lífdísel er einkum framleitt með ræktun á repju, maís og sykurreyr.  Ekkert óeðlilegt er við það að aukaafurðir í þessari matvælaræktun, hratið eða hvað við viljum kalla það sé nýtt m.a. til gerðar eldsneytis eða til íblöndunar í eldsneyti. Slíkt flokkast undir góða nýtingu. Stóraukin eftirspurn kallar hins vegar á að ræktað verði nær einvörðungu til eldsneytisgerðar gefu hún meira af sér en sú ræktun sem fyrir var.

LífdíselBretarnir tveir hafa reiknað út og birt í Science að verði aðeins 10% af bensín og díselnotkuninni í Bandaríkjunum og Evrópu skipt út fyrir lífdísel og etanól mun það eitt krefja um 43% alls ræktarlands í Bandaríkjunum og 38% í Evrópu !  Það sem verið er að draga fram er að eldsneytisframleiðslan muni m.ö.o. keppa um jarðnæði við matvælaframleiðsluna og einnig þær plantekrur sem nýttar eru til baðmullarræktunar. Slík samkeppni um ræktarland muni á endanum leiða til þess að skógar verða ruddir og önnur sambærileg svæði sem í dag geyma mikinn kolefnisforða m.a. í jarðvegi.  Sá kolefnisforði sem þannig tapast við ræktun landsins sé meiri en sem nemur ávinningnum af lífræna eldsneytinu.

Höfundar greinarinnar Righelato og Spreclen gefa þessi ráð til stjórnmálamanna heimsins  sem fást við aðgerðir til að stemma stigu við losun GHL:

Ef markmiðið með lífrænu eldsneyti (bíodísel) er það að hægja á hlýnun lofthjúps jarðar væri það meira virði til skemmri tíma (30 ár) að auka nýtni hefðbundins eldneytis, varðveita skóglendi og steppur á jöðrum hitabeltisins ásamt því að rækta skóg og endurheimta landgæði á þeim svæðum sem ekki eru nýtt til matvælaframleiðslu, beinnar og óbeinnar. 

 

Þessi ádrepa er afar þörf að mínu mati inn í umræðuna um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Smá neðanmálsviðbót.  Lífrænt eldsneyti er safnheiti fyrir æði margt.  Bensín, olía og gas er lífrænt eldsneyti. Þar er um ævafornar umbreyttar gróðurleifar að ræða.  Metan er líka lífrænt eldsneyti en hafa ber í huga að það verður til við niðurbrot lífrænna efna, m.a. í úrgangi.  Metan fellur því ekki undir það eldsneyti sem fjallað er umi hér að ofan, enda er Metan upplögð gastegund til brennslu og þar með sem orkugjafi, enda er Metan sé því sleppt lausu mun áhrifaríkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. 


Athugasemdir

1 identicon

Sæll Einar. Hef mikinn áhuga á því sem þú skrifar um og les reglulega.

Mig langar til að koma með annan pól í þessi skrif. Er ekki komið upplagt tækifæri til þess að hvetja bændur til að hætta matvælaræktun og fara í þessa ræktun? Tvennt ávinnst: Ef þetta er jafnábatasamt og gert er ráð fyrir geta bæði Bandaríkin og ESB hætt þessum svakalegu niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum þar sem allflestir bændur myndu sjá sér hag í að flytjast yfir í lífdíselræktun.

Í öðru lagi væri loks komið tækifæri til þess bjóða þriðja heims þjóðirnar velkomnar inn á áður vel innmúraða vesturlandamarkaði með sína matvöru og baðmull, og þannig skapa þeim, sem það geta, lífsviðurværi?

Bara spurning frá leikmanni.

Kveðja,

Karl Óskar

Karl Óskar Þráinsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 15:49

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Einar, les reglulega þínar fróðlegu færslur. Mig langar til að spyrja þig hreint út, ert þú algerlega sannfærður um að hlýnun jarðar er af mannavöldum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2007 kl. 16:09

3 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sæll Gunnar !

Spurning um það hvort ég sé algerlega sannfærður um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum að þá var ég það ekki lengi vel.  Afstaða til loftslagshlýnunnar snýst ekki um það hvort maður trúi eða ekki, heldur snýst um vísindalega röksemdfærslu og kenningar studdar af almennum sannindum í eðlisfræði.  Á síðustu áratugum hefur komið fram órækur vitnisburður um hlýnun sem er erfitt að skýra nema út frá sambandi magns gróðurhúsalofftegunda og geislurnarjafnvægis jarðar og þar með hitastigi við yfirborð.  Marktækast er hlýnunin á norðurhjaranum og hún hfur verið upp á síðkastið talsvert utan þess náttúrulega breytileika síðustu áratuga og aldar og menn þekkja þarna orðið nokkuð vel.

Engu að síður eru til þeir menn, líka vísindamenn sem berja höfðinu við steininn og leita logandi ljósi að einhverjum öðrum ástæðum þeirrar hlýnunar sem orðin er, sumir af hálfgerðum trúarhita.  Ef menn eru sannfærðir um að heimurinn sé svona og svona ekki ekki hinseginn eru þeir hinir sömu reiðbúnir að grípa hvaða hálmstrá sem býðst, hvort heldur það eru geimgeislar, eldgos, virkni sólar eða sá grátbroslegi málflutningur um samantekin ráð vísindamanna vegna þess hve auðvelt sé að nálgast fjármuni til rannsókna á þessum sviðum.

Það er ágætt að efast og velta fyrir sér hlutunum. Sjálfur er ég búinn að ganga í gegn um það ferli hvað varðar samhengi aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og hækkunar hitastigs jarðar. Ég var og er sumpart enn þeirrar skoðunar að hluti þeirrar hlýnunar sem átt hefur sér stað síðustu öld eða svo sé eðlileg uppsveifla að lokinni Litlu Ísöldinni svokölluðu frá ca 1300 til ca. 1850 sérstaklega hér við N-Atlantshafið.  Breytingarnar eru svo örar þessi árin að slík hægfara langtímahækkun hita getur vart ein og sér skýrt það sem er að gerast þessi árin.    Enn er þó mörgum spurningum ósvarað um innbirðis samhengi ferla í veðráttunni, þ.e. hvernig breytingar á einum hefur áhrif á annan og svo koll af kolli. 

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 24.8.2007 kl. 08:42

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir gott svar. Þú segir að sumir leiti að öðrum ástæðum hlýnunnarinnar sem orðin er af hálfgerðum trúarhita. Mér finnst það reyndar líka hjá hinum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2007 kl. 13:38

5 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ég er ekki vísindamaður en er trúlega samt að berja höfðinu við steininn. Mér finnst merkilegt að þú nefnir helst mikla hlýnun á norðurslóðum til sannindamerkis um hlýnun sem erfitt sé að skýra nema hún sé af mannavöldum.

Eftirfarandi texta fann ég á vef Veðurstofunnar:
 " Á meðfylgjandi mynd er sýnd þróun hitafars í Stykkishólmi og Reykjavík síðan um miðja 19. öld. Þar sést bæði að hlýnað hefur verulega hér á landi síðustu rúma öldina og einnig að nokkurn veginn jafn hlýtt var á fjórða áratug síðustu aldar og nú, um sjötíu árum síðar. "  Sjá tilvitnun og mynd hér: http://vedur.is/um-vi/frettir/2007/bigimg/821?ListID=0

Í grein Trausta Jónssonar um veðurfar (slóð: http://vedur.is/loftslag/breytingar/fra1800 )
má sjá:

" Á þriðja áratug 20. aldar gerðist það nefnilega að veðurfar hlýnaði meira en menn höfðu séð dæmi um eftir að hitamælingar hófust. Fyrst meðalhiti gat hækkað hér á landi um nærri eina og hálfa gráðu á tíu árum (1920 til 1930) gat hann þá ekki hafa lækkað að minnsta kosti svipað á síðmiðöldum? "

Miðað við það að losun koltvísýrings fyrir 70 árum var einungis brot af því sem nú er finnst mér langsótt að telja hlýnunina þá stafa af mannavöldum. Það að við séum loksins aftur búin að ná þessum hita sem var fyrir 70 árum finnst mér heldur ekki vera sterk vísbending um mikla hlýnun sem ekki eigi sér fordæmi. A.m.k. ekki hlýnun sem styðji kenningar um manngerða hlýnun.

Finnur Hrafn Jónsson, 25.8.2007 kl. 19:15

6 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Finnur Hrafn !

Spálikön um dreifingu hnattrænnar hlýnunar gefa flest til kynna að ekki sé endilega víst að um markverða hlýnun verði að ræða á okkar slóðum og hafinu hér suðvesturundan. Í það minnsta má reikna með henni síðar en víðast annars staðar.  Það gæti komið heim og saman við þá staðreynd að hér er hnattræn hlýnun "falin" á bak við  hinar miklu náttúrulegu sveiflur sem einkenna veðráttuna á okkar svæði. 

 Þegar ég tala um norðurslóðir á ég við landsvæðin næst N-Ísahafinu, en þar hafa hitabreytingar, þ.e. hlýnun verið stórtækari á síðustu árum en annars staðar á jörðinni. Enda gera þessi sömu líkön ráð fyrir að hvergi verði breytingarnar áþreyfanlegri en einmitt þar.  

Einar Sveinbjörnsson, 25.8.2007 kl. 21:28

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 1786849

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband