Snjókoman í gær syðst á landinu heyrir til mikill tíðinda

Mýrdalur_mbl.is_Jónas ErlendssonÍ gær laugardag var suðaustanáttin svo köld um miðjan daginn að það náði að snjóa talsvert í Mýrdal og þar í grennd. Eins austur í Skaftártungu, á Síðu og ef til vill víðar.

Það að snjó festi á þessum slóðum um miðja september er allt að því einsdæmi og því um mjög merkilegan veðurviðburð að ræða.

Sé rýnt í veðurmetatöflur Sigurðar Þórs Guðjónssonar má sjá að á mjög mörgun athuganastöðvum á þessum slóðum er ekki skráð neinn alhvítur dagur í september. Á Kirkjubæjarklaustri, en athuganir þar ná allt aftur til ársins 1926, hefur einu sinni mælst snjódýpt í september, en það var þ.11 árið 1940.  Þá var uppgefin snjódýpt 0,5 sm.

Í morgun var hins vegar uppgefin 5 sm snjódýpt á Klaustri,  Að sjálfsögðu met í lok sumars eða byrjun hausts eftir því hvernig á það er litið.  

Alls þrjár stöðvar gáfu upp snjódýpt í morgun, en auk Klausturs voru það úrkomuathugunarstöðvarnar Snæbýli í Skaftártungu með 10 sm og Kvísker í Öræfasveit með 3 sm.  Þar var einnig gefun upp snjóföl í fyrradag.  

Það þarf vart að taka fram að ofankoman í gær á láglendi í hlýjustu sveitum landsins að jafnaði kom öllum í opna skjöldu ! Það gerði líka hálkan sem olli umferðaróhöppum og bílveltum.

Ljósm:  Úr Mýrdal í gær.  mbl.is/Jónas Erlendsson 


Athugasemdir

1 identicon

Sæll Einar. Eru þetta örugglega réttar heimildir? Ég sem bóndaskarfur þykist muna eftir að hafa lent í hríðarbyl í fyrstu leitum á Landbrotsafrétti í kringum 20 sept. Man ekki ártalið en trúlega á tímabilinu "75 til "80. Í því veðri fenti töluvert af fé í afrétti sem kom ekki í ljós fyrr en í næstu leitum. Ætla að voga mér að halda því fram að minni mitt sé betra enn heimildir þínar

Kjartan Magg (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 17:45

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Langar til að benda þér á þessa færslu varðandi septembersnjóinn á suðurlandi. Það getur svo auðvitað vel verið að snjói á afréttum þó ekki sé talinn hvítur dagur á veðurstöðvum sem eru yfirleitt á laglendi og meta bara snjódýptina á sín u túni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.9.2007 kl. 19:22

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Er þetta ekki bara þörf áminning, við búum jú ansi norðarlega í gráðum talið og hér getur snjóað nánast í öllum mánuðum ársins þó að líkurnar séu kanski ekki miklar í júlí og ágúst, en það gerist reglulega í júní og sept.

Eiður Ragnarsson, 16.9.2007 kl. 21:22

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ágætt Sigurður Þór og ég sé að þú ert nú þegar búinn að uppfæra töfluna þína.  Ég veit vel af þessu misræmi í snjódýptartöflunum í mánaðar- og ársyfirlitum Veðráttunnar.  Ársyfirlitin hafa reyndar ekki komið út hartnær síðustu 10 árin eða svo.  Fletti í morgun í gegn um nokkra septembermánuði í Veðráttunni í leit að kuldaköstum og fór einkum yfir dálkinn fjöldi alauðra daga fyrir Kirkjubæjarklaustur. Vildi svona tvítékka eins og hægt væri þó svo að best sé ævinlega í þessum stöðum að geta sett inn fyrirspurn á gagnagrunninn á VÍ, en ég var ekki í stöðu til þess.  Snjókoman síðustu tvo dagana í sept 1969 er jú vel þekkt í veðurminni, en hana gerði var alveg undir mánaðarmótin.  En mín reynsla Sigurður Þór er að metatöflurnar þínar séu áreiðanlegar.

Það sem Kjartan Magg "bóndaskarfur" vísar í hér að ofan er líkast til mikið hret sem gerði um miðjan september 1979.  Fé drapst þá fyrir norðan þegar það fennti í kaf og gangnamenn lentu víða í vandræðum og ógöngum segir Veðráttan.  Þó svo að fennt hafi á afréttinum, féll úrkoman á Klaustri sem rigning og allir 30 dagar mánaðarins voru alauðir, þó svo að meðalhitinn hafi verið um tveimur til þremur stigum undir meðallagi sunnanlands.

ESv  

Einar Sveinbjörnsson, 16.9.2007 kl. 21:48

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, þetta er einkennilegt með ársryfirlitin. Hver svo sem ástæðan er þá er bagalegt að þau séu orðin svona á eftir tímanum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.9.2007 kl. 00:08

6 identicon

Það vetrar snemma í ár.  Þetta sýnir bara að hugtakið "global warming" er þvílík endemis vitleysa, að það á einfaldlega að banna fólki að halda slíku fram.   Slíkt fólk er bara lýðskrumarar og lygarar úr verstu skúffu sem vill bara hræða fólk til að hafa af því fé.  Veturin í ár verður bara eins og vetur undanfarin ár, snjór og kuldi með skúrum af og til. 

Ps. Það er nú með ólíkindum havð það hefur ringt mikið undanfarið, Sigurður.  Þetta er bara að verða eins og í Englandi nú fyrr í sumar.   Þetta hlýtur að fara að slá öll met hér á landi.   Það þarf engin að segja mér að þetta sé einhver "normal" úrkoma.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 22:41

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 89
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 81
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband