Önnur nálgun á hlýnun vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda

stephen

Senn líður að því að Stephen E. Schwartz birti nú þegar umtalaða grein í tímariti þar sem færð eru fyrir því rök að áhrif tvöföldunar á magni CO2 í lofthjúpi séu minni en áður hefur verið talið.

Schwartz þessi (sjá mynd) er enginn aukvisi og þaðan af síður einhver loftslags-skeptíker, heldur er hann virtur vísindamaður til margra ára við Brookhaven National Laboratory.  Hann ásamt samstarfsmönnum sínum hafa lagt til mikla þekkingu á áhrifum agna (aerosols) í lofthjúpi og einkum þá hvernig geislunarjafnvægið tekur breytingum við agnamengun. Hann ritstýrði einum af köflum síðustu IPCC vísindaskýrslunnar árið 2001.

Niðurstöður Schwartz nú eru einkum af tvennum toga.  Í fyrsta lagi að áhrif gróðurhúsalofttegunda almennt séð eru minni á geislunarjafnvægið en almennt er álitið og þar með á hitastig lofthjúps. Í öðru lagi að tregða vegna uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda er lítil þannig að áhrif þess sem sleppur út nú koma fljótlega fram.  Þessar tvær niðurstöður jaðra við byltingu í þessum fræðum eins og nærri má láta.

Nýstárlegar kenningar Schwartz byggja á ofur einföldu líkani, en sú einföldum á almennt séð flóknum ferlum mun líkast til verða helsta röksemd gagnrýnanda Schwartz.  

Kenningin byggir á þeirri einföldu líkingu að næmi veðurfarsins (climate sensitivity) ráðist eingöngu af varmarýmd lofts og lagar í heild sinni og þeim fasta tíma sem breyting gengur yfir.  Aukning gróðurhúsalofttegunda hefur einmitt áhrif á varmarýmd loftsins.  Tímafastann reiknar Schwartz síðan út með tölfræðilegum aðferðum út frá veðurfarsgögnum sem liggja fyrir.  Sem sagt engir flóknir "dýnamískir" útreikningar til framtíðar með endalausum nálgunum og randskilyrðum eins og þau kallast í loftslagsspáheiminum. 

Næmi veðurfarsins með aðferð Schwarz er 0,3°C fyrir hvert W/m^2 (wött á fermetra geislunar).  Þetta þýðir með öðrum orðum að tvöföldun á CO2 leiðir til hitastigshækkunar á bilinu 0,6 - 1,6°C í stað þeirrar 2,0 - 4,5 stiga hækkunar hita sem almennt hefur verið miðað við síðustu árin

Næmi einstakra gastegunda og fleiri þátta í breytingum á geislunarmætti (climating forcing)  er gjarnan sýnd með neðangreindri mynd sem m.a. er sýnd í stutta yfirliti IPCC frá því fyrr á þessu ári.

Picture 72

Þó svo að þessi merka grein Stephen E. Schwarz hafi enn ekki verið birt formlega er hún engu síður aðgengileg á Real Climate, en þaðan er efni þessarar færslu fengið að mestu.  Greinin er nokkuð löng en sæmilega aðgengileg engu að síður.

Frekari upplýsingar um kallinn og rannsóknir hans má síðan lesa um hér.  

 

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Noh!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.9.2007 kl. 01:03

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég held að þetta sé á svipuðum nótum og danska nefndin sem er búinn að reyna fræða pólítukusa og aðra á að það eru sólarstormsáhrif eða geimgeislar sem mynda skýinn og gufuna en ekki CO2

Valdimar Samúelsson, 19.9.2007 kl. 08:24

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég spyr líka því megum við norðurhjara búar ekki upplifa okkar hlýskeið eins og var hér fyrst þegar land byggðist og þá var hægt var að ganga frá breiðamerkurlóni yfir á austurland. Allaveganna áfram með baráttu gegn CO2 ofsatrúarmönnum.

Valdimar Samúelsson, 19.9.2007 kl. 08:30

4 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Svona til glöggvunar: Það er þetta með að gera sér grein fyrir eðli

málsins (málana). Það er fáránlegt að halda því fram að lofttegundir

myndi gróðuhúsa þak yfir jörðinni, ef svo er hefur jörðin alltaf verið unir

áhrifum gróðhúsþaks. En málið er, að ef ekki kæmi til lofthjúpur jarðar

væri hitastig jarðar "óþolandi" að degi til og hörku frost að nóttu, eins

og nú er á tunglinu. Það sem gerir CO2 sérstætt er að efnið hefur mjög

háan hitastuðul, 158 cal (þ.e.það þarf 158 cal til að hita það upp um 1

gráðu cels.) svo CO2 hefur þann eiginleika að geta geymt mikla hitaorku.

og miðla henni aftur þegar kólnar, ekki það að það endurkasti IR geislum

heldur gleypir þá og sendir frá sér hita þegar hitasti fer lækandi. En að

halda því fram að 0.038-0,04% sem er það mesta magn sem að meðaltali

fynnst af CO2 í lofthjúpnum hafi afgerandi áhrif á hitamiðlun lofthjúpsins

er hálf skondið.

Þessi mikli hita gleypir sem CO2 er, hefur verið ástæða fyrir notkun þess

í ýmsri tækni m.a. sem slökkvi efni og sem kæli efni.

Vatn hefur næst hæsta hitastuðul þeirra efna sem mynda lofthjúpinn eða

80, cal sem sagt rúmlega hálfdrættingur á við CO2. Vatn er auðveldara að

fást við í tækninni enda mikið notað til að flytja hitaorku fá einum stað í

annan, sem allir þekkja sem búa í upphituðum húsum.

Og svo er CO2 og vatn aðal undirstaða lífs eins og við þekkjum það.

Leifur Þorsteinsson, 19.9.2007 kl. 10:26

5 identicon

Hér sitja greinilega miklir spekingar að spjalli.

"Ég spyr líka því megum við norðurhjara búar ekki upplifa okkar hlýskeið eins og var hér fyrst þegar land byggðist og þá var hægt var að ganga frá breiðamerkurlóni yfir á austurland. Allaveganna áfram með baráttu gegn CO2 ofsatrúarmönnum."

-Kannski vegna þess að hlýindaskeið af völdum gróðurhúsaáhrifa hér á Norðurhjara, hefur í för með sér að stór hluti jarðarinnar verður að eyðimörk. Ég trúi því nú tæplega að Valdimar Samúelsson telji það bara allt í lagi að heilu þjóðirnar þjáist svo hann sjálfur komist í sólbað án þess að kaupa flugmiða.

Væri Leifur Þorsteinsson kannski til að upplýsa okkur um það hvaða menntun það er sem gerir hann færan um að hrekja rök helstu loftlagssérfræðinga veraldar og hvaðan hann hefur þær upplýsingar að það sé fáránlegt að halda því fram að lofttegundir myndi gróðuhúsa þak yfir jörðinni? Staðreyndin er sú að það er alls ekkert umdeilt að loftegundir mynda gróðurhúsaþak yfir jörðinni. Það er hinsvegar umdeilt hversu mikil áhrif það hefur og hvort og hvernig eigi að bregðast við því.  Hin margtuggnu rök "CO2 og vatn aðal undirstaða lífs" eru jafn fáránleg og að segja að þar sem sólin sé meginundirstaða lífs (sem hún er) þá sé húðkrabbi ekkert annað en goðsögn og í raun engin ástæða til að hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum hennar.

Það er auðvitað gott mál ef rétt er að gróðurhúsaáhrif séu minni en áður var talið. Það er þó ekki afsökun fyrir því að halda áfram að dæla kolefnum út í andrúmsloftið.  

 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 10:51

6 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Gróðurhús loka inni loftmassa sem auvelt er að hita upp og

halda hitanu þegar ekki verður dreifing á loftinu en ef hætt

verður að tilfæra hita, geisla hin venjulegu gróður hús út hitanum

í formi IR geisla sem gler heldur ekki inni. Lofthjúpur jarðar má

frekar líkja við kápu um jörðina sem heldur sólarhitanum jöfnum

sú kápa fær sem sagt hitan utanfrá í formi orku frá sólu en kápur

sem menn klæðast fá hitan innanfrá í formi líkamshita sem myndast

við að maðurinn snæðir kolvetni sem hann brennir og myndar hans

líkamshita, frummyndun kolvetnis fer fram í grænum plöntum úr

CO2 og er þannig undirstaða lífs. Vatn hefur eigileika sem ekki er

þektur hjá öðrum efnum (Byggist á rafrænni uppbyggingu vatns

sameindarinnar) fastur fasi flýtur á fljótandi fasa, vær ekki svo

væri aðeins fastur fasi þ.e. allt vatn á jörðinni frosið þrátt fyrir að

Sólin vermdi jörðina. Svo ekki væri hægt að sóla sig á Evu klæðum

og því eingi hætta á húðkrbba. Einnig orsakar þessi gerð vatns sam-

eindarinnar að alskonar efnasambönd leysast upp í vatni og nýtas

þannig lífverum.

Leifur Þorsteinsson, 19.9.2007 kl. 12:39

7 identicon

Ég átta mig ekki alveg á því hvað þú ert að fara Leifur. Eru að reyna að halda því fram að aukið magn koldíoxíðs í lofthjúpnum stuðli ekki að hlýnun jarðar? Ef svo er þyrftirðu að vísa í einhvern þér viturri máli þínu til stuðnings.

Það er mjög auðvelt að nálgast lesefni um gróðurhúsaáhrif og ber langflestum sérfræðingum saman um gróðurhúsaáhrifin. Á þessari slóð http://visindavefur.hi.is/?id=4686. er t.d. mjög aðgengileg grein sem er byggð á vísindum en ekki bara getgátum. 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 14:44

8 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Eva það sem ég er að segja, stendur hér að ofan í greininni!

"Aukning gróðurhúsalofttegunda hefur einmitt áhrif á varmarýmd loftsins"

Kápu kenningin í hnotskurn. Þetta eru engi gerfi vísind, eins og þau sem

notuð eru til að mála skrattan á veggin til að safna fjárframlögum.

Það sem kallað er gróðurhúsaloft eru þær lofttegundir sem hafa

háa hitarýmd.

Leifur Þorsteinsson, 19.9.2007 kl. 15:26

9 identicon

Þú verður að athuga það Eva Hauksdóttir mín að kenningar um gróðurhúsaáhrifin eru upp-poppuðustu vísindi samtímans. Og eru reyndar ekki lengur vísindi heldur trúarbrögð. Einar Sveinbjörnsson er að benda á það að einn virtasti vísindamaður heims á sviði loftlagsfræða heldur því fram að áhrif gróðurhúsalofttegunda eru a.m.k. helmingi minni en áður hefur verið talið.

Þótt CO2 hafi helmingi hætti hitastuðul en vatn þá verður að taka með í reikninginn að af magni gróðurhúsalofttegunda í hverjum rúmmetra lofts að þá er CO2 1/10.000 en vatn 9500/10.000. Vatn er sem sagt lang stærsta gróðurhúsalofttegundin eða 95%. Af hverju þeir sem trúa á gróðurhúsaáhrifin berjast ekki gegn vatni veit ég ekki? Það er sjálfsagt af því að erfiðara er að fá fólk til að trúa að vatn sé slæmt heldur en hið framandi efni, en þó jafn nauðsinlegt lífríkinu, CO2 er!

Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 16:17

10 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Ég spurði Einar S. einu sinni að því hver hin raunverulega hætta væri af hlýnun veðurs, sannast sagna þvælist spurningin fyrir honum ekki síður en öðrum, ég trúi veðurfræðingum best til að svara þessu. Mér hefur fundist að menn hafi mestar áhyggjur breytingu á úrkomu eftir heimshlutum eins og þú Eva, (verður að eyðimörk). ekkert styður þessa skoðun eftir því sem ég best veit. það rignir bæði við heitar og kaldar aðstæður. Samkvæmt nýjustu veðurlíkunum eykst úrkoma í Afríku og þar hlýnar líka minnst eins og annars staðar í hitabeltinu.

Ég spyr aftur: Hvert er vandamálið? feginn er ég að landsins forni fjandi hverifi, hver er það ekki? 

Guðmundur Geir Sigurðsson, 19.9.2007 kl. 16:40

11 identicon

Eins og ég sagði áður þá er gott mál ef áhrifin eru minni en áður var talið. Ég mæli þó með því að þeir sem telja virta fræðimenn standa fyrir trúboði fremur en vísindum, bendi á einhverjar rannsóknir sem sýna fram á að þessir menn séu bara að bulla. Eftir því sem ég hef lært mun hitinn hækka mest á hæstu breiddargráðunum. Mér þykja það góðar fréttir ef það reynist rangt svo ég vildi gjarnan fá einhverjar upplýsingar um þessi nýjustu veðurlíkön sem þú talar um Guðmundir Geir.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 18:07

12 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Einar S. þekkir þær og getur sett þær upp hér á þennan þráð

Guðmundur Geir Sigurðsson, 20.9.2007 kl. 08:31

13 identicon

Tugir ef ekki hundruð vísindagreinar varðandi loftlagsvísindi eru birtar í hverjum mánuði. Það eru mörg vísindatímarit tileinkuð þessari grein. En engin grein er yfir gagnrýni hafin, og engin ein þeirra er til þess fallin að fella kenningar um gróðurhúsaáhrif og hnattræna hlýnun.
Niðurstöður Schwartz eru vissulega mjög áhugaverðar og það er vonandi að frekari rannsóknir á þessu efni verði gerðar í framtíðinni.

Schwartz hefur þó sjálfur efast um að líkan byggt á einföldum nálgunum um næmni lofthjúpsins og er ekki dynamiskt sé til þess fallið að bylta vísindunum, því tvennt er víst - lofthjúpurinn ER dynamiskur, og loftnæmni lofthjúps og "climate feetback" eru mjög flókin vísindi:

Finally, as the present analysis rests on a simple single-compartment energy balance model, the question must inevitably arise whether the rather obdurate climate system might be amenable to determination of its key properties through empirical analysis based on such a simple model. In response to that question it might have to be said that it remains to be seen. In this context it is hoped that the present study might stimulate further work along these lines with more complex models.

Hvað áhrif hnattrænnar hlýnunar varðar er eitt nokkuð ljóst, það er ekki hægt að velja og hafna. Ef úrkoma eykst á ákveðnum breiddargráðum er alveg ljóst að aukningin verður ekki eingöngu bundin við þau svæði sem hingað til hefur vantar úrkomu, heldur verður líka aukning á þeim svæðum þar sem úrkoma - oft árstíðarbundin - veldur miklu tjóni á hverju einasta ári.  Þar liggur vandinn.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.

Elín Björk Jónasdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 12:57

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Því hefur lengi ferið haldið fram með rökum af "efasemdarmönnum" að næmi lofhjúpsins sé um 1 °C fyrir tvöföldun í styrk CO2 og að sambandið sé logarithmitskt en hvorki línulegt né exponential. Að sambandið sé því sem næst logarithmiskt þýðir að ef hitastigshækkun er um 1 °C ( eða á sama róli og Swartz heldur fram) fyrir tvöföldun CO2, þá er hækkunin aðeins um 2 °C fyrir fjórföldun í styrk. Sem sagt, engin ástæða til að óttast ef þetta er rétt.

Sjá til dæmis "Well, how much does carbon dioxide heat the Earth?" sem er á miðri þessari síðu.

Það verður mjög fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða við grein Stephen E. Schwartz.

Þett á allt eftir að koma í ljós....    Gaman að pæla aðeins í þessu...


Ágúst H Bjarnason, 21.9.2007 kl. 11:53

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 77
  • Frá upphafi: 1786662

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband