Veðurfarsbreytingar á norðurslóðum og tengsl við Golfstrauminn

Hinar þrjár meginkvíslar Norður-Atlantshafsstraumsins

Seinni grein mín um veðurfarsbreytingar og samhengi þeirra við ástandið í hafinu á norðurslóðum birtist í Morgunblaðinu í dag.  Hina fyrri má nálgast hér. Rétt eins og áður myndskreyti ég hér sem ekki var unnt að gera í blaðinu.

Veðurfarsbreytingar á norðurslóðum og tengsl við Golfstrauminn

Í fyrri grein minni um óyggjandi vísbendingar um veðurfarsbreytingar gerði ég að umtalsefni minnkandi hafísútbreiðslu í Norður-Íshafinu. Aðrar skýrar breytingar í svipaða veru eru mælingar á styrk og hitastigi Norður-Atlantshafsstraumsins (Golfstraumsins) í þeirri höfuðkvísl straumsins sem beljar norður eftir á milli Hjaltlands og Færeyja.  Í erindi Boga Hansen frá Færeysku hafrannsóknarstofnunni hér á landi í liðnum mánuði kom fram að mælingar sýndu merkjanlega hlýnun í straumnum við Færeyjar síðustu 30 árin.  Einnig hefur seltan aukist, sérstaklega allra síðustu árin. Mælingar á hraða straumsins ná yfir styttra tímabil og þær eru að auki ekki nægjanlega nákvæmar til þess að hægt sé að slá nokkru föstu um það hvort styrkur meginkvísla Norður-Atlantssjávarins hafi verið að breytast.  Það má þó slá því föstu að ekki hefur dregið úr innstreymi hlýsjávar norðureftir þessi síðustu ár.  Golfstraumurinn er því við hestaheilsu um þessar mundir þrátt fyrir ýmsar vangaveltur og jafnvel hrakspár um annað.

 Dramtískar kenningar um ísöld

Ísaldarskjöldurinn eins og hann var í hámarki á síðustu ísöld.Kenningin um stöðvun Golfstraumsins vegna mikillar hlýnunar andrúmslofts á norðurslóðum  heyrist oft nefnd þegar veðurfarsbreytingar ber á góma.  Hún gengur í stuttu máli út á það að samfara mikilli hlýnun bráðni verulegur hluti Grænlandsíssins. Gríðarmikið ferksvatn frá bráðnandi ísnum hefur þá áhrif á lagskiptingu sjávar og hægði á eða stöðvaði hita- og seltuhringrásina sem knýr “hitaveitu” sjávarins norður undir Svalbarða.  Ef hringrásin stöðvaðist bærist ekki hlýsjór hingað norðureftir ísmyndun í seltuminni sjónum mundi þá aukast hröðum skrefum og ísöld væri því vart óumflúin.  Mér sjálfum hefur ætíð þótt þessar kenningar heldur dramatískar og bent á móti að þó ferskvatnsbirgðir Grænlandsjökuls séu gríðarmiklar mundu þær bráðna á áratugum eða frekar öldum og ná að blandst saman við heimshöfin á löngum tíma.  Mikil og óvenjuleg útbreiðsla í norðurhöfum á lítt söltum sjó í þunnu lagi ofan á þeim selturíkari er það ástand sem getur breytt því jafnvægisástandi sem nú ríkir.  Yfirgnæfandi líkur eru á því að slíkur fersksjór komi norðan úr Íshafi í nægjanlega miklum mæli frekar en sem bráðnandi ís frá Grænlandsjökli.

Aukið rennsli ferskvatns til N-Íshafsins

Íshafið, árlegt heildarrennsli vatnsfalla til ÍshafsinsÍ nýrri grein Bandarískra vísindamanna sem birtist í Science í ágúst sl. eru færð fyrir því rök að á síðustu árum hafi orðið uppsöfnun á ferskvatni í Norður-Íshafinu. Stjórfljót í Rússlandi og Síberíu renna til Norður-Ísshafsins og eins frá Kanada.  Eins munar um þá úrkomu sem fellur til sjávar í Íshafinu, því uppgufun á móti er þar með minnsta móti. Með hlýnandi veðri á norðurslóðum hefur úrkoma aukist og rennsli stórfljótanna af þessum sökum um 10% undangengin ár. Útsreymi ferskvatns úr Íshafinu er nær eingöngu um Framsund á milli Svalbarða og Grænlands.  Hinn svellkaldi Austur-Grænlandsstraumur gegnir þessu hlutverki yfirfalls N-Íshafsin og heilmikill hafís ásamt seltulitlum sjó berst suður á bóginn með strönd Grænlands.  Þessi ferskvatnsflutningur úr N-Íshafinu er 10-15 sinnum meiri í magni talið en það vatn sem bráðnun Grænlandsíssins að austanverðu kann að leggja til. Síðustu árin hefur seltuminnsti hluti sjávar N-Íshafsins borist í minna mæli suður á bóginn en venja er til. Því ráða ríkjandi vindar og rek íssins umfram annað. Fyrr en síðar mun þessi seltulitli sjór berast til útfalls Framsundsins .  Bandaríkjamennirnir álíta að það muni gerast næst þegar hin svokallaða norðuratlantshafssveifla (NAO) verði öflug og með jákvæðum formerkjum líkt og var um og fyrir 1990. Norðuratlantshafssveiflan gefur einfaldlega til kynna stöðu ríkjandi hæða og lægða og þar með algengustu vindáttir.  Slíkt útstreymi eða yfirfall þarf ekki að þýða breytingar á lagskiptingu sjávar í norðurhöfum svo fremi að lítt salti sjórinn ásamt hafísnum haldi sig í mjórri lænu suður með Grænlandsströnd.  NA og A-áttir halda Austur-Grænlandsstraumnum þétt upp að Grænlandi, en þær vindáttir eru einmitt ríkjandi í hafinu norður af Íslandi og Jan Mayen. Aldrei þó eins og einmitt þegar norðuratlandshafssveiflan er með jákvæðum formerkjum.  Þ.e. þegar hvað mest berst af seltulitlum sjó úr N-Íshafinu.  Fari hins vegar svo að V-læg átt verði ríkjandi um skeið berst seltulítill sjórinn yfir hlýsjóinn og hita- og seltuhringrásin getur þá hæglega hikstað, færst til eða  í versta falli stöðvast.Framsund, straumar

 Bráðnun Grænlandsjökuls í aukahlutverki

Það er því ekki bráðnun Grænlandsjökuls sem mögulega hægir á Golfstraumnum, heldur miklu frekar ferskvatnsfrávik úr N-Íshafinu sem mögulega fer á flakk yfir á slóðir hlýsjávarins en aðeins ef vindar verða afbrigðilegir í vikur eða mánuði. Hins vegar virðist það vera rauninn að með hlýnandi veðurfari berst hlutfallslega meiri raki og úrkoma með loftstraumum norður á bóginn og hafnar að veruleg leyti í N-Íshafinu. Þar hefur hins vegar dregið úr ísmynduninni  allra síðstu árin vegna hlýnunar. Sjórinn er engu síður seltulítill þarna norðurfrá og þeir eðliseiginleikar varðveitast þegar hann berst á endanum suður á bóginn.   

 

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hverju á almennningur að trúa með Golfstrauminn? Bogi Hansen segir að hann sé að sækja í sig veðrið, hitann vildi ég sagt hafa, en þessi Breti sem er orðinn fastagestur hjá Helga H. Jónssyni í RÚV sjónvarpsfréttum sagði í gærkvöldi að hann hafi veikst um 30%.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.10.2006 kl. 10:16

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Það er rétt hjá þér Sigurður Þór að þetta rekst hvað á annars horn. Meric Srokosz var hér á réðstefnunni í síðasta mánuði og er viðtal Helga H. Jónssonar þaðan. Srokosz sagði sjálfur í sínu erindi að þessar niðurstöður um veikingu straumsins vestur undir Ameríkuströndum, byggðist á aðeins þremur punktmælingum, þeirri fyrstu frá 1957. Dró hann sjálfur í efa að þessi aðferð dygði ein og sér til þess að sýna fram á að einhverjar breytingar hefðu átt sér stað. Srokosz er við háskólann í Southamton líkt og félagi hans Bryden sem fór fyrir hópi með grein í Science í fyrra þar sem svipuð sjónarmið voru höfð uppi. Varð uppi talsvert fjaðrafok og nokkrar athugasemdir komu í kjölfarið þar sem aðferðafræði þeirra var dreginn í efa. Ég að að finna til þessar greinar, m.a. frá Richard Kerr til að geta gert betur grein fyrir þessum vísindaágreiningi hér á veðurblogginu.

Einar Sveinbjörnsson, 9.10.2006 kl. 10:55

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 1786849

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband