Rökleysa þingmanns

Sigurður Kári Kristjánsson var einn þingmanna sem þektist boð um að hlýða á Al Gore.  Í langri bloggfærslu lýsir hann upplifun sinni og segist svo sem ekkert hafa fallið í stafi.  Sigurður Kári klikkir síðan út með eftirfarandi veðurlýsingum sem rétt er að fjalla aðeins betur um:

Sigurður Kári Kristjánsson

 

"..Að lokum vil ég nefna að þó svo að framsetning Al Gore á kenningum sínum um hlýnun jarðar hafi verið áhrifaríkar í Háskólabíói í dag, þá er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort þær séu réttar, enda held ég að almennt finni fólk ekki fyrir þessum hitabreytingum á eigin skinni í sínu daglega lífi.

Sem dæmi um þetta má nefna að janúarmánuður þessa árs var sá kaldasti á Grænlandi í 20 ár.

Um daginn voru sagðar fréttir af gríðarlegu fannfergi í héruðum Þýskalands þar sem undir venjulegum kringumstæðum væri farið að vora.

Snjóþyngsli hér á Íslandi þennan veturinn hafa verið með mesta móti.  Öll skíðasvæði standa landsmönnum opin og Austfirðingar eru meira að segja farnir að kvarta undan of miklum snjó.

Ég var sjálfur í París nú um helgina og þar sjóaði á sunnudaginn.

Og er það ekki kaldhæðni örlaganna að nú að kvöldi þess dags sem Al Gore hélt fyrirlestur sinn um hlýnun jarðar í Háskólabíói snjóar sem aldrei fyrr hér í Vesturbænum?

Og það þrátt fyrir að það sé kominn 8. apríl!

Sigurður Kári. "

Þingmaðurinn fellur í sama fúla pytt og margir aðrir að úr því að kalt og snjókomusamt sé þessar vikurnar hingað og þangað um Evrópu geti sko ekki verið að hlýna.  Þetta er svona álíka að segja að úr því að Ögmundur Jónasson tók ekki til máls á Alþingi í dag og heldur ekki í gær hlýtur hann að vera hættur að tala.  Allir vita að það er ekki rétt.  Suma dagana fer hann oft upp í ræðustól og aðra er hann hlédrægur og talar ekki neitt.  Eins er með veðráttuna,  þegar við fáum loks nokkuð eðlilegan vetur hvað snjóalög varðar eftir fjóra til fimm fremur snjólétta gefur það nákvæmlega enga vísbendingu um framtíðarveðurfarið. Sama þegar heimskautaloft síðla vetrar beinist yfir Evrópu í skamma stund (nóg er af því í apríl á norðursóðum).  Þá gerir stundum él alveg suður að Miðjarðarhafi, jafnvel þó gróður sé almennt farinn að taka ágætlega við sér.  Allt saman innan þeirra eðlilegra marka veðurbreytileikans frá degi til dags, rétt eins og ætti við um ca. 26°C í París þetta snemma árs.

Svo er það annað mál að sveiflurnar í veðurfari eru það miklar hér á landi, þ.e. náttúrulegur breytileiki að flestum tekst ekki að finna markverðar breytingar í langtímavísu á eigin skinni.  Til þess er ævi okkar flestra einfaldlega of stutt.   

Það er hins vegar réttmæt hjá Sigurði Kára að veturinn í ár er sá kaldasti á V- Grænlandi í allmörg ár, en þó fyllilega sambærilegur við flesta vetur á tímabilinu frá því um 1965 og fram yfir 1985.  Segir það ekki einmitt dálitla sögu hvernig vetrarhitinn hefur verið að þróast þar eftir ca. 1985 ? 

Læt liggja á milli hluta að Sigurður Kári titlar sig sem formann menntamálanefndar Alþingis og hann sem slíkur sér ástæðu til þess að hnýta í Háskóla Íslands fyrir gagnrýnislausa hugsun !

.... en svo lærir sem lifir segir einhvers staðar og á það jafnt við um þingmenn sem aðra. 


Athugasemdir

1 identicon

Verðum við ekki að vona að Sigurður Kári læri eins og aðrir, blessaður maðurinn.  Hvort  sú von okkar  er raunsæ veit ég ekki.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 22:58

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Nafni reyndar er það rétt að það hefur verið að kólna hratt undanfarna 15 mánuði en hvort það heldur áfram eða ekki er svo annað mál.  En það breytir því ekki að Gore er stjórnmálamaður og þar af leiðandi maður sem segir ósatt af ástríðu.

Einar Þór Strand, 9.4.2008 kl. 23:07

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Einar, þessi umræða litast af afstöðu íhaldsins að halda með Bush (vini Davíðs) en alls ekki með Al Gore (vini Ólafs Ragnars). Það er steinhætt að koma mér á óvart að óbreyttir íhaldsþingmenn hafa aldrei aðrar skoðanir en foringinn á hverjum tíma sbr. "Innrásin í Írak var réttlætanleg í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir". Hér gildir þá einu hvort málefnið eða maðurinn sem um ræðir skiptir einhverju máli eða ekki.

Haukur Nikulásson, 9.4.2008 kl. 23:36

4 Smámynd: Stefanía

Shit !.....hvað sumir eru mikið anti íhald !.........svo eru 2 k í þekktist.

Stefanía, 10.4.2008 kl. 00:50

5 Smámynd: Morten Lange

Mjög ánægður með þetta blogg hjá þér, Einar.  Þú  og fleiri ( meðal annars undir bloggfærslu Sigurðar Kára) benda á rökleysuna hjá honum og að þetta komi á óvart miðað við þeirri stöðu sem hann er í sem formann menntamálanefndar Alþingis

Mér fannst ekki síður dapurlegt hvernig RÚV sé að draga fram bullukolla sem lítið vit hafa á hlutunum miðað við heildarmyndinni og ekki virðist leita sannlekans heldur eru í kappræðum. Fyrst Glúmur í Spegli Egils s.l. sunnudag, og svo vitnað rækilega í Nigel Lawson í sjónvarpsfréttum í kvöld.  Ég er ekki frá því að  sjónvarpið, og sérstaklega í þessu tilteknu máli og sérstaklega Ríkissjónvarpið, beri mikla  ábyrgð á vandaðri blaðamennsku.  Mér finnst eiginlega að Alþingið ætti að láta kanna hvernig stóð á þessari lélegri fagmennsku.  Ekki síst til að skerpa almennt á gagnrýnni blaðamennsku og miðlun upplýsinga sem byggja á eða tengjast vísindum.

Morten Lange, 10.4.2008 kl. 01:27

6 identicon

Takk fyrir þennan pistil Einar. Ég hef undanfarið einnig fjallað um vanþekkingu íhaldsmanna á vísindalegum málum. Það er ótrúlegt að formaður menntamálanefndar alþingis leyfi sér að fara fram með svona bölvaða vitleysu í fjölmiðlum.

 http://skodun.is/2008/04/09/visindakennsla-fyrir-haegrimenn/

http://skodun.is/2008/04/08/hannes-holmsteinn-og-visindaleg-vinnubrogd/ 

Sigurður Hólm Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 07:17

7 Smámynd: Steinarr Kr.

Eins og vanalega, þeir sem ekki trúa á "The Great Global Warming Swindle" eru fífl.

Steinarr Kr. , 10.4.2008 kl. 08:34

8 identicon

Það er greinilegt að það kemur hressilega við kaunin á váhyggjumönnum að pólitísk rétthugsun skuli vera á undanhaldi í umræðunni um loftslagsmál. Váhyggjumenn hafa verið manna duglegastir að taka dæmi um staðbundnar veðursveiflur eða fyrirbæri sem óyggjandi sannanir fyrir hlýnun jarðar.

Í vetur hefur til dæmis mikil áhersla verið lögð á að allur ís væri horfin af Svalbarða. Það er hann að sjálfsögðu ekki. Eins og sést á þessum ískortum Norsku veðurstofunnar: http://retro.met.no/kyst_og_hav/iskart.html

Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 08:53

9 identicon

hahaha...

Vá hvernig fannstu út árás á "hlýnun af mannavöldum" í þessu ágripi hans Sigurðs Kára.  Það má varla segja að það sé kalt, þá er maður bara Neo fasisti. 

Já, það er hlýnun.  Meiri hlýnun en hefur verið áður? örugglega ekki.  En nú erum við mennirnir komnir á kopp svo að við þurfum að lifa áfram.  Því jörðin gerir það burt séð frá okkur.  Og þó að ég sé meira og meira trúandi á hlýnun af mannavöldum, finnst mér mjög gott að til eru efamenn.  Annars væri þetta tómt rugl og menn myndu ana áfram í blindni.  En hafið það gott í andmælalausum heimi.  Hlýtur samt að vera djöfulli leiðinlegt.

Skál, Hvalfjarðar-komminn

Johnny (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 09:39

10 identicon

Ég er sammála formanni Menntamálanefndar Alþingis: þar sem ég bý er kaldara í morgun en í var gærmorgun, allt þetta tal um hlýnun jarðar hlýtur bara að vera tóm tjara!

Gore-tex (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 09:58

11 identicon

Ég er bara sammála Sigurðir Kára í megin dráttum.  Ég held að hlýnun Jarðar sé ofmetið fyrirbrigði.  Reyndar hefur farið kólnandi síðan 2003, svo etv. erum við á leið inn í kuldaskeið líkt því sem ríkti 1965-1985.  Þetta virðast vera svona 20 ára sveiflur sem koma og fara.

Veturinn í ár hefur verið í kaldara lagi og ekkert bendir til að hlýna sé í veðri hér á landi.  Við höfum haft mjög langt kuldaskeið (sem etv. verður leyst af löngu vætuskeiði fram eftir sumri).  Kuldaskeið þetta hefur ríkt hér svo að segja látlaust frá því um áramót. 

Það virðist sem að veðrið hér á landi hafi breyst undanfarið.  Hér áður fyrr voru veðurbreytingar tíðari og engin sérstök veðrakerfi ríkjandi.  Núna virðist sem að sömu veðrakerfi ríki í mjög langan tíma.  Nýleg dæmi er góðviðriskaflinn sl. sumar, rigningarkaflinn frá ágústlokum til síðustu jóla, og loks núverandi kuldakafli frá síðustu jólum og sem enn stendur yfir.

Höskuldur Arnarson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 10:00

12 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Einar:
Var Sigirður Kári að hnýta í Háskóla Íslands? Hann spurði einfaldlega í færslu sinni (sem þú tengir ekki á af einhverjum ástæðum) hvort háskólinn, sem einn af aðstandendum fundarins með Al Gorei, væri tilbúinn að skrifa upp á það sjónarmið hans að ekki þyrfti að ræða frekar um það hvað valdi hlýnun jarðar. Málið sé bara afgreitt og engin þörf á frekari umræðu um það mál. Þrátt fyrir að margir vísindamenn hafi efasemdir um ríkjandi kenningar. Þetta hljóti að vera í hrópandi mótsögn við öll eðlileg vísindalegan vinnubrögð. Hvar værum við í dag ef enginn hefði nokkurn tímann gagnrýnt viðteknar skoðanir? Fyrir fáum áratugum spáðu vísindamenn því að lítil ísöld væri framundan í heiminum. Þeir sem andmæltu því væru gjarnan litnir hornauga. Nú má hins vegar ekki efast um að maðurinn beri fyrst og fremst ábyrgð á hlýnun jarðar. Kaþólska kirkjan á miðöldum kemur óþægilega upp í hugann.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.4.2008 kl. 10:33

13 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Smá leiðrétting Einar. Ég sé nú að þú tengir á færslu Sigurðar Kára. Mér yfirsást það áðan.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.4.2008 kl. 10:35

14 Smámynd: Guðmundur Geir Sigurðsson

Hér er verið að rífast um af hvaða völdum hlýnuninn stafar, sjálfsagt á atgervi mannsins einhvern þátt í því en það sem máli skiptir finnst mér hvort þessi þróun er góð eða slæm fyrir jarðarbúa og um það eru skiptar skoðanir. Ég hef aldrei heyrt dæmi um það í sögubókum að hlýrra veðurfar hafi leitt til hörmunga fyrir nokkurn mann eða skepnu en nóg er af þannig dæmum þegar kólnað hefur í veðri. Þá spyr ég hvers vegna það sé öðruvísi núna þegar hlýnar?

Af hverju megum við ekki hér á skerinu njóta betra veðurfars án þess að fá einhverja nagandi sektarkennd yfir því. Alla vega er fólki sem býr við hlýrra veður nákvæmlega sama hvort hér sé kalt og hráslagalegt, vill ekki skipta. Vonandi svarar þessu einhver á málefnalegan hátt.

Guðmundur Geir Sigurðsson, 10.4.2008 kl. 13:22

15 identicon

Ég held að það sé ekki óvarlegt álykta sem svo að með þessum grínrökum - um kuldann sem fylgi Gore, "óvænta" snjókomu í apríl á Íslandi etc. - séu "afneitunarsinnarnir" að reyna að halda andliti í umræðunni um leið og þeir hárfínt gefa í skyn viðurkenningu á málefnalegum veikleika afstöðu sinnar með því að slá á létta strengi og slá þessu öllu saman upp í grín. Fyrir utan náttúrulega HHG, sem líkt og fyrri daginn lætur pólitísk sjónarmið byrgja sér sýn yfir staðreyndir málsins.

Gore-tex (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 13:26

16 identicon

Síðasta sumar var mikið gert úr hitabylgju sem gekk yfir Grikkland. Hún var að sjálfsögðu ótvíræð staðfesting á kenningunni um gróðurhúsaáhrifin. Það hefur sjálfsagt aldrei áður skeð í sögu jarðar að loftmassinn yfir Sahara taki sig upp og ferðist yfir Miðjarðahafið til Grikklands? Váhyggjumennirnir í Ríkisútvarpinu gerðu gríðarlega mikið úr þessu.

Það hlýtur því að vera í lagi að tala um kuldakast á Grænlandi. Hvað váhyggjumenn sjá óeðlilegt við það að það sé heitt í Grikklandi og kalt á Grænlandi veit ég ekki. En það er greinilegt að það má tala um annað en á að þegja yfir hinu!

Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 15:14

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En ýmsar villur héldu sér í fyrirlestrinum, þrátt fyrir ítrekaðar ádrepur. 7m. vitleysan, ekki haft orð á því að ekki hafi hlýnað á jörðinni síðan 1998, o.fl.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 15:41

18 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

ég er nú ekki sérfróður um veður en víst verðum við að taka því sem að höndum kemur þegar náttúruöflin eru annars vegar. En hvaða skoðun sem víð kjósum að hafa á kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum, með eða á móti, þá ættu allir að geta verið sammála um að við getum ekki brennt olíu og kolum gengdarlaust. Loftmengunin er staðreynd. Við hljótum að þurfa að staldra þar við og leita annarra leiða.

GG

Guðmundur Gunnarsson, 10.4.2008 kl. 17:26

19 Smámynd: Sigurjón

Ekkert er fjarri mér en að fara að segja þér til um hvað þú skrifar á eigin vefbók Einar, en mér þykir skrýtið að þú skulir vera farinn að blanda pólitík saman við veðurfræðina.  Það er ekki góð blanda...

Sigurjón, 10.4.2008 kl. 17:51

20 Smámynd: corvus corax

Ég hef það fyrir satt eftir öruggum heimildum að það sé hvorki gróðurhúsahlýnun né frystihúsakólnun á Akureyri því þar sé veðrið yfirleitt gott og að minnsta kosti alltaf betra en annars staðar á hverjum tíma.

Auk þess legg ég til að snjóhretið núna í aprílbyrjun og alltaf síðan verði kallað Gore-hretið til aðgreiningar frá páskahretum, KEA-aðalfundarhretum og öllum öðrum hretum í nútíð og þátíð.

corvus corax, 10.4.2008 kl. 17:55

21 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Eina "pólitíska rétthugsunin" í þessu sambandi er hjá íhaldinu. Síðan bíta þeir höfuðið af skömminni með því að ásaka þá sem benda á augljósar staðreyndir um "pólitískan rétttrúnað". Þarna beita þeir aðferðum sem þeir hafa lært af stríðsbræðrum sínum vestanhafs í baráttu sinni gegn vísindunum. Þar þykir sumum það vera pólitískur rétttrúnaður að efast um sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar.

Elías Halldór Ágústsson, 10.4.2008 kl. 18:18

22 identicon

Ég er sammála bloggvini mínum Hirti. Það er í góðu lagi, að menn hafi efasemdir! Ég er alfarið á móti því að kalla menn ónöfnum, þótt þeir séu frjálshyggjumenn. Frjálshyggjan hefur sínar góðu hliðar og hefur komið mörgu góðu til leiðar, en við hinir hófsömu verðum að passa þá vel, svo að þeir fari sér ekki að voða. Vonandi ber vini okkar, Bandaríkjamenn, gæfu til að losa sig við Bush og hans nóta í komandi forsetakosningum í nóvember. Kannski verður Al Gore næsti forseti þar vestra og ekki er verra, að Ólafur Ragnar Grímsson sé góður vinur hans !

Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján Pétur Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 18:26

23 Smámynd: Dunni

Umræðan um loftslagsmálin, hlýnunina, er góðra gjalda verð. En fólk verður þó að gæta aðeins að sér í umræðunni því enginn stóri sannleikur er kominn fram. Við vitum nokkuð örugglega að það stefnir í hlýindi en engin vissa er fyrir af hverju. Náttúrulegt eða ónáttúrulegt.

Það sem vekur þó áhyggjur í þessari bloggfærslu er að "formaður menntamálanefndar Alþingis" eins og hann eðlilega titlar sig, skuli setja mál sitt fram eins og nemandi í 8. bekk grunnskóla.  Þó svo að hafi snjóað í París þegar formaðurinn var þar þá segir það ekkert um hvort loftslagið í heiminum fer hlýnandi eða ekki.  Sigurður Kári getur ekki verið svona vitlaus eins og þessi tilvitnun í hann sýnir.

http://orangetours.no/

Dunni, 10.4.2008 kl. 21:24

24 identicon

Svo maður prófi þessa skammsýnu fábjánalógík, þá var heitt í dag, því hlýtur jörðin að bráðna af völdum gróðurhúsaáhrifa. Sjáum til hvernig veðrið verður á morgun áður en ég breyti heimsendaspánni.

 

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 22:43

25 identicon

Þingmaður og svarið er:jájájá,Þingmaður og svarið er:neineinei,Sigurður Kári veit allt,enda rétt tengdur.

jensen (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 23:32

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það væri nú slæmt ef hann væri vitlaust tengdur

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2008 kl. 00:07

27 identicon

Mér fannst þessi fyrirlestur hjá honum Al Gore ekki nógu góður. Hann er ekki búin að bæta staðreyndarvillur sem urðu til þess að það er bannað að sýna myndina hans í skólum í bretlandi. Mér finnst þessi mynd bara vera áróður sem byggir ekki á bestu vísindalegu staðreyndum sem hægt er að finna hverju sinni, eins og Al hamrði oft á í Háskólabíói.

En vitiði hvað mér fannst fyndnast, þegra ég mætti á fyrirlesturinn þá fékk ég blað frá Háskóla Íslands. Í þessu samam blaði var grein um prófesor Ólaf Inga og rannsókn sem hann vann. Þar kemur fram að kenningum um afleiðingar hnattrænnar hlýnunar gæti hafa verið kollvarpað með fundi Ólafs á ísbjarnabeinum sem gefa til kynna að ísbirnir hafi lifað a norðurslóðum í gegnum mjög hlý og íslaus tímabil. Svo á fyrirlestrinum sýnir Gore myndir af ísbjörnum sem standa ofan á sökvandi ísjökum, líkt og um sökvandi skip væri að ræða og björnin væri að berjast fyrir lífi sínu.Svo segir hann að ísbyrnir séu í bráðri hættu út af hnattrænni hlýnun.

Trú manna á hnattræna hlýnun, orsakir og afleiðingar er farið að minna mig á trúarbrögð. Svona eins og hjá kristnum eða múslimum verðum við að haga okkur almennilega til að við lendum ekki í brennandi helvíti. Eini munurinn er að það er búið að færa helvíti frá því að vera staður sem við gætum lent á þegar við deyjum í það að vera staður sem við gætum lent á í lifandi lífi ef við högum okkr ekki skynsamlega. Það er lika bannað að efast um þessa hluti eða ræða og að spyrja spuringa er látið líta út eins og maður sé sendiboði djöfulsins(eða olíufélaga) ef maður vogar sér að setja spurningarmerki eitthverstaðar við málfluttning manna eins og Al Gore.

Ég er samt mjög hlyntur því að minnka losun co2 og reyna nýta endurnýjanlega orkugjafa eða vistvæna orkugjafa eins og jarðvarma eða sólarorku.  Ástand hafanna okkar, bæði vegna ofveiða og mengunnar, er að mínu mati miklu meir vá en global warming. Hafið og vatnið eru undirstaða alls líf á jörðinni.

Bjöggi (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 14:24

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hér logar allt í umræðu, af því að málið snertir pólitík og alþingismann. Mjög dæmigert fyrir umræðuna um loftslagsmál! Sigurður Kári talar úr sínum skammsýnis pytti eins og svo margir aðrir og það er einmitt þetta, algjör skammsýni um veðurfar og pólitíska at sem gerir umræðuna um loftslagsmálin svo ósköp lítið uppbyggjandi. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.4.2008 kl. 12:44

29 identicon

Ég er nokkuð viss um að ég hafi lesið grein í Morgunblaðinu fyrir nokkru síðan sem svipar til ummæla Sigurðar Kára. Höfundur þeirrar greinar var Hannes Hólmsteinn. Þetta er náttúrulega bara rökleysa. Ég er alveg sammála þér Einar að þessi umræða hefur farið of mikið fram á pólitískum grundvelli hingað til.

Örvar (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 23:11

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 88
  • Frá upphafi: 1786755

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 81
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband