Hitabeltisstormurinn Berta nálgast Ísland

Það er ekki oft sem leifar fellibylja gerast nærgöngular á okkar slóðum.  Á haustin, þ.e. í september kemur fyrir að úr sér gengnir fellibylir ganga í endurnýjun lífdaga ef þeir ná inn í vestanvindabeltið og í veg fyrir nýmyndaða lægð. Það er þó frekar fátítt, en afleiðingin gjarnan sú að hér gerir vitlaust veður. (sjá t.d. frásögn hér).  Það er heldur algengara að hitabeltisloft af einhverju tagi sem fylgir þá deyjandi fellibyl eða hitabeltisstormi reki á fjörur okkar.  Einkenni þess er áköf rigning með nokkuð háum lofthita án þess  að það blási að ráði.

Samsett tunglmynd af Brunni VÍNú bregður svo við að allar líkur eru til þess að restar fellibyljarins Bertu stefni beint á landið á morgun. Veðurfræðingum er nokkur vandi búinn vegna þessa.  Bæði er það svo að það er ekki hinn hefðbundni árstími slíkra veðurviðburða hér við land.  Það er hásumar, en ekki haust með tilheyrandi nýtilkomnu köldu lofti úr norðri sem getur spólað upp leifar fellibylja á norðurslóðum.  Hitt atriðið er það að Berta er enginn skólabókarfellibylur.  Hún hefur tórað í nærri þrjár vikur og engin dæmi eru til þess að hitabeltisstormur hafi verið svo langlífur á Atlantshafinu í júlí. Fyrst var stormurinn skráður á blað 3. júlí. Svo er það líka það að tiltölulega snemma náði Berta að verða 2. stigs fellibylur, áður en hún fór hjá Bermúdaeyjum.  Eftir það veiktist hún og flokkaðist þá sem hitabeltisstormur þar til hún tók upp á því að ná að nýju styrk fyllibyls nú fyrir helgina.  Vel má sjá á meðfylgjandi tunglmynd frá því í gær laugardag kl. 18 hvað Berta hefur fína lögun alvöru fellibyls þarnu úti af Nýfundnalandi með greinilegt auga að auki !.

025414W_smÁ þeirri spá hér til hægri frá fellibyljamiðstöðinni Bandarísku sést að Bertu er spáð beint á landið.  Er það í samræmi við flestar aðrar tölvureiknaðar veðurspár sem gera ráð fyrir að Berta nái á nýjan leik að dýpka dálítið, verði um 985 hPa við Reykjanes síðdegis á morgun, mánudag.  Þó er vissara að hafa allan vara á, því tölvulíkönin eru vís með að ná ekki fullkomlega að höndla  aðkomna varmaorku ættaða sunnan úr hitabeltinu þetta norðarlega hér yfir köldum sjónum.  Við fylgjumst að sjálfsögðu með... 

 

Spákort (HIRLAM-T, 20070000+42t) , gildir mánudag 21. júlí kl. 18. Lægðarmiðjan við Reykjanes.

Picture 44


Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Það gæti sumsé alveg blásið hressilega?

Birna M, 20.7.2008 kl. 10:00

2 identicon

Nei, ekki storm !!!

það er ekki komið haust ennþá, og við viljum hægviðri og blíðan blæ.

Mbk/SJS

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 10:47

3 identicon

Var Básendaveðrið ekki svipað veður ? Hverslags veður eða veðurkerfi var það ?

Ásta Davíðs (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 11:41

4 identicon

Það mun ekki verða neinn mikill vindur eins og sagt var í veðurfréttunum. En þá á sko eftir að rigna hressilega.

Hjörtur (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 13:47

5 identicon

Já, Básendaveðrið!

Ekki var talað um hlýnun jarðar þá, af mengun frá mönnunum, er það nokkuð?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 16:32

6 Smámynd: Bumba

Ó lofið honum að blása. Með beztu kveðju.

Bumba, 20.7.2008 kl. 23:24

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vona bara að bylurinn rífi upp góða hitabylgju í kjölfarið eins og gerðist í ágúst 2004.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.7.2008 kl. 10:40

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband