Og þá koma lopapeysurnar í Bretlandi sér vel...

Björgum BretunumFramtak þeirra Heimis og Kollu á Bylgjunni með lopapeysusöfnuninni hefur vakið óskipta athygli sem náði hámarki þegar þau afhentu peysurnar og annan lopavarning í Hull nú í vikunni.

Svo virðist sem þessi hjálp héðan af Íslandi hafi komið á hárréttum tíma, því nú er spáð miklu vetrarveðri á Bretlandseyjum.  Á síðu Bresku Veðurstofunnar mátti í kvöld sjá svohljóðandi veðurspá í hnotskurn:

Headline:

Very wintry with snow in many places.

Picture 74Ekki nóg með það á morgun mánudag að gripið sé til svo vetrarlegra orða heldur líka það að sé skoðað kort af svæðum þar sem sérstakar viðvaranir eru í gildi (sjá mynd) spá þeir bresku að í Suður- Englandi, á rauðlituðu svæðunum, skulu menn viðhafa alveg sérstaka aðgæslu.  Spáð er á þessum svæðum hálfgerðri hríð og allt að 15 sm snjó í fyrramálið, m.a. í London.  Á Enskan mælikvarða þykir þetta fannfergi mikið með meirháttar umferðartöfum óhöppum og vandræðagangi.  Á BBC er talað um mestu snjókomu á landsvísu í 6 ár.

Annars er spáð frosti í Englandi og Skotlandi á morgun, sums staðar þónokkru.  Austrænt loft sem komið er alla leið frá Rússlandi hefur borist til vesturs síðustu dægrin og á leið sinni m.a. yfir Norðursjó drukkið í sig raka.  Úrkoma fellur síðan á Englandi.  Vari þetta ástand í nokkra daga, sem er reyndar fátítt getur kyngt niður mjög miklum snjó á þessum slóðum eins og gerðist í febrúar 1947 (sjá umfjöllun).

Þeir sem hafa verið í Bretlandi yfir vetrartímann vita hvað híbýli manna eru illa úr garði gerð til að þola kulda.  Að mínu mati jaðrar það við ástand vanþróaðs ríkis hversu hús eru illa einangruð og kynding oft slæm í breskum borgum.  En Bretar eru líka nískir þegar kemur að upphitun húsa sinni og halda sumir að fituríkur morgunverður nægi til að halda á mönnum hita yfir daginn.  

En íslenski lopinn mun klárlega halda á mörgum hita næstu dagana á Humbersvæðinu á meðan kuldakastið gengur yfir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Spá bresku veðurstofunnar Met Office frá því haust virðist ekki ætla að rætast. Á vef Met Office hér stendur m.a.:

"25 September 2008

The Met Office forecast for the coming winter suggests it is, once again, likely to be milder than average. It is also likely that the coming winter will be drier than last year....   The forecast of another mild winter across the UK has been welcomed by Help the Aged, who work with other agencies to support older people.

Dr. James Goodwin, Head of Research at Help the Aged, said: "The onset of winter causes significant anxiety among many older people. This forecast will assist policy makers to adapt their strategies to ensure that the negative effects of winter weather are reduced as far as possible."..."

30. janúar stendur þar aftur á móti:  "So far, the UK winter has been the coldest for over a decade. The last time winter temperatures were lower was in 1996/97.

Met Office forecasters expect the cold theme to the weather to continue well into next week with the chance of further snow".

Þar sem ég þekki til í Englandi (hluti fjölskyldunnar býr þar) eru hús víða mjög gömul, þ.e. frá tímum þegar góð einangrunarefni voru ekki til. Sjálfsagt er ekki auðvelt að einangra gólf og útveggi í þessum gömlu húsum. Tvöfalt gler er þó víða komið í þessi hús. Húsin eru víða kynt með gasi og rafmagni og er það miklu dýrara en kynding með okkar hitaveituvarni. Það er líklega ástæða þess hve menn kynda lítið.

Ágúst H Bjarnason, 2.2.2009 kl. 06:41

2 identicon

Já, eins og hann Ágúst kemur svo skemmtilega inn á, þá virðist kolabretanum margt betur til lista lagt en einangra og kynda hús. Ég fór nokkrum sinnum til UK í desembermánuði á yngri árum til að kíkja á búvélasýningar. Þá varð maður var við að upphitun á hótelherbergjum var víða með því móti, að maður þurfti að setja pening í einhverskonar "sjálfsala" til að fá yl á rafmagnsofn í herberginu. Það dugði yfirleitt rétt meðan maður var að tína af sér spjarirnar og koma sér undir þessar teppadruslur, sem þeir nota þar sem við höfum sæng. En einn kunningi minn var að velta því fyrir sér, hvort það mætti ekki bjóða þeim bresku að taka af þeim gamlingjana til vetrardvalar hér á Íslandi - gegn gjaldi auðvitað. Hann benti á fjölda heimavistarskóla, sem stæðu ónotaðir en upphitaðir yfir veturinn. Auk þess væri áreiðanlega ansi mikið um ónotað, venjulegt íbúðarhúsnæði, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, sem kannski mætti koma í notkun og fá svolitlar tekjur inn á með þessu móti. Kannski er þetta óframkvæmanlegt, en hugmyndinni er hér með komið á framfæri.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 08:44

3 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ágúst !

Breska Veðurstofan hefur, nokkuð djarflega verð ég að segja, gefið út sínar vetrarspár síðla sumars. Byggðar að mestu á sjávarhita Atlantshafsins aðallega útir fyrir ströndum N-Ameríku og frávikadreifingu hitans.  Rannsóknir hafa bent til þess að tölfræðilegt samband sé á milli frávikana að sumri (aðallega þó í maí) og hitafars á Bretlandseyjum veturinn á eftir.  Tengslin eru þau að hitafrávikin "geymist" og þau hafi mikil áhrif á stöðu meginhæðarinnar yfir Atlantshafinu sem aftur stýrir lægðgagninum austur eftir að verulegu leyti.  En það er svo margt annað sem getur haft áhrif á meginhringrás loftsins, s.s. áhrifasvæði köldu háloftahvirflanna á norðurslóðum og það hvernig stóru meginlöndin kólna og í hve miklum mæli kalt loft við yfirborð streymir til hlýrri landssvæða (A-átt í Evrópu).  Einnig truflanir og fyrirstöður í meginstreyminu, nokkuð sem er óreiðukennt og illa fyrirséð til langs tíma.  Þannig mætti áfram telja svo ekki sé talað um sammögnun tveggja eða fleiri þessara þátta.

Ef mig misminnir ekki þá spáði MetOffice des-feb  um eða undir meðallagi á Bretlandseyjumum miðjan nóvember út frá hefðbundinni keyrslu 3 mán. spáa.  Það getur getur líka vel verið að það hefi verið í desember og þá fyrir jan-mars.   

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 2.2.2009 kl. 08:52

4 Smámynd: SigrúnSveitó

Sæll Einar,

ég bara má til að miðla reynslu minni af köldu bresku húsi... Ég var au-pair í Englandi janúar-ágúst 1992 og ég man að ég svaf í ullarsokkum, síðbrók og rúllukragabol þessa vetrarmánuði. Eina kyndingin í húsinu var kolaeldavélin, sem var staðsett á neðri hæð hússins, svo var arinn í stofunni - sem sjaldan var notaður. Og reyndar höfðu hjónin haft rænu á að setja ofn í herbergi ungabarnsins sem svaf 2. hæð hússins, sömu hæð og ég.

Þetta voru ansi kaldir mánuðir.

Síðar bjó ég, ásamt fjölskyldu minni, í 9 ár í Danmörku. Þar eru líka ansi illa einangruð hús..en ég upplifði þó aldrei eins mikinn kulda, enda kyntum við sjálf húsið...og þá nánast að *íslenskum sið*

SigrúnSveitó, 2.2.2009 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 1786861

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband