Engin hnattræn hlýnun síðustu 10 árin ?

picture_56.pngÁ fréttavefnum Eyjunni er í dag umfjöllun þar sem efni er sótt til skýringar í þýska tímaritið Spiegel um loftslagsbreytingar.  Umfjöllunarefnið er það að engin hnattræn hlýnun hafi átt sér stað síðustu 10 árin og vísindamenn séu ráðþrota við þessari ráðgátu eins og það er kallað.

Rétt er það að árið 1998 sker sig dálítið úr sem hlýjasta ár frá upphafi raunhæfs samanburðar og fram af því hafði hitinn á jörðinni farið hægt og bítandi hækkandi tvo áratugina þar á undan. 1998 var kröftugt El-Nino ár í Kyrrahafinu, en þá var álitið að um 15% flatarmáls jarðar hafi verið umtalsvert heitari en að jafnaði.  Það er líka rétt að hiti hafur haldið sig á nokkurs konar "hásléttu" mælinga allan þennan áratug og ekkert hlýnað.  Umfjöllun Spiegel fjallar að nokkru um ólíkar aðferðir til að meta meðalhita jarðar og að aðferð Breta við Hadley stofnunin sýni enga hitaaukningu síðasta áratuginn á meðan önnur gögn gefa til kynna 0,2°C.  

Hvað um það, slíkt er deila um keisarans skegg.  Eftir stendur að hægt hefur á hlýnuninni, en það er ekki ný uppgötvun og rangt að halda því fram að vísindamenn séu ráðþrota.  Skýringar hafa komið fram og nefni ég hér þrjár til sögunnar:

picture_58_934950.png1.  Meðalhiti jarðar er sveiflukenndur og innri breytileiki frá ári til árs þó nokkur.  Það eru líka til staðar sveiflur á áratuga fresti sem tengjast varmadreifingu lofthjúps aðallega með hafstraumum en líka með loftstraumum.  Ein þeirra er Kyrrahafssveiflan og myndin sem hér fylgir er fengin frá Emil Hannesi þar sem hann gerir að umtalsefni tengsl Kyrrahafssveiflunnar (PDO) við hita jarðar síðustu öldina og rúmlega það. (færsla Emils þess efnis hvort hlýnunin sé komin í pásu er hér).  Kyrrahafssveiflan hefur verið á leiðinni inn í kaldan fasa sem hefur áhrif á meðalhita jarðar í heild sinni.

2.  Varmarýmd hafsins er gríðarmikil. Hiti heimshafanna og lofthjúps er ekki alltaf í fasa, þó svo að jafnvægi náist yfir lengri tíma.  Hugsanlega "geymir" hafið þá hlýnun sem aukning gróðurhúsalofttegunda  síðustu árin veldur. Geislunarálag þess er vel þekkt og kemur fram sem línuleg hækkun hitans í veðurfarslíkönunum.  Varmarýmd hafsins tengist að hluta áratugasveiflunum í úthöfunum, sbr. PDO.  Þó ekki alfarið og er El-Nino birtingarmynd þess þegar hafið gefur frá sér mikinn varma á tilteknu svæði yfir afmarkað tímabil.

3.  Á það hefur verið bent að sú fyrri stöðvun á hnattrænu hlýnuninni sem varð á árunum eftir 1940 (sbr mynd Emils Hannesar) sé a.m.k. að hluta skýrð með aukinni agnamengun í lofthjúpi í kjölfar stóraukningar á brennslu eldsneytis, aðallega lélegra kola, án tilhlýðilegra mengunarvarna.  Þetta átti sér stað í Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og víðar. (Um áhrif agnamengunar eða armengunar fjallaði Trausti Jónsson á vísindavefnum fyrir nokkrum árum) Upp úr 1970 var komið skipulaga á fót vel heppnuðum mengunarvörnum til að draga úr staðbundinni loftmengun, súru regni o.þ.h.   Lofthjúpurinn varð í kjölfarið greinilega hreinni og um svipað leyti tók hitaferil jarðar kipp upp á við.  Um og eftir árið 2000 hefur sagan endurtekið sig að einhverju leyti og nú í nýju markaðsríkjunum í SA-Asíu. Talsverður hluti yfirborðs jarðar býr nú við skert sólskin af þessum völdum miðað við það sem var fyrir aðeins einum áratug.

picture_57_934949.pngAð lokum þetta:  Sveiflur eru eðlilegar og það getur hæglega kólnað um tíma.  Horfa verður á lengri tímabil hitafars jarðar í einu, 30 til 50 ár hið skemmsta. Jörðin er líka sjaldnast öll í fasa og þannig hefur t.a.m. hlýnað markverkt hér á landi þennan áratug (reyndar frá 1996-1997) á meðan heimshitinn hefur staðið í stað.  Svipuð tilhneiging hefur komið fram víða um N-Atlantshafssvæðið, allt norður í Íshafið.  Norðurhjarinn og svæðið hér í kringum og okkur er bara svo lítill hluti yfirborðs jarðar. Skoðið bara sjálf á hnattlíkani !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Er hægt að fullyrða að hægt hafi á hlýnuninni? Er ekki hægt að segja að hún hafi einfaldlega stöðvast? Og ef það eru svona miklar náttúrulegar sveiflur, jafnvel áratuga, getur þá ekki verið að þessi mikla sveifla sem byrjaði að koma kringum 1980  sé fyrst og fremst slík sveifla? Tíu ár eru drjúgur tími. Ef hlýnunin yfirleitt á að vera af völdum gróðurhúsaáhrifa sem hafa verið alveg villt og galin þessi tíu ár er soldið einkennilegt að hlýnunin hafi stöðvast eða því sem næst. Ef örugglega hefði hlýnað síðustu 10 ár hefði það án alls vafa verið skrifað á aukningu gróðurhúsaloftegunda en alls ekki náttúrulegrar sveiflu. En nú þar sem hlýnunin er EKKI eins og vænta mætti eftir gróðurhúsakenningunni þá er gripið til náttúrulegra skýringa. Og í talsverðum vandræðagangi. Vísindamenn eru meira ráðþráta en viðurkennt er held ég. Þetta eru nú bara upphátt hugsanir hjá mér, spurningar vakna, en ég hef að öðru leyti ekki rassgat vit á þessu.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.11.2009 kl. 23:09

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta eru meira að segja bara augnablikshugsanir hjá mér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.11.2009 kl. 23:22

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er góð færsla eftir Emil um þessar sveiflur á loftslag.is: Gestapistill: Eru loftslagsmálin einföld eða flókin?

Höskuldur Búi Jónsson, 21.11.2009 kl. 23:31

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Nafni er ekki málið að græðgin bar vísindin ofurliði í loftslagsvísindunum, menn fullyrtu að hlýnunin væri af mannavöldum vegna þess að þá mátti fá peninga til að rannsaka hvernig hægt færi að snúa þróuninni við, sem auðvitað er ekki hægt ef þetta er eitthvað sem við ráðum ekki yfir.

Í örðulagi þá fjölgaði "vísindamönnum" sem stunduðu ekki rannsóknir heldur lásu bara það sem aðrir höfðu skrifað og byggðu sín skrif á því sem þeir lásu, og á endanum varð þessi hópur ráðandi í geiranum og sannaði þannig með fjöldanum að þeir hefðu rétt fyrir sér, og þessir efasemdarmenn (sem voru að reyna að rannsaka) sem alltaf voru að segja já en og vildu í raun ekkert fullyrða væru bara "fífl" sem væri ekki hægt að hlusta á og reyndu að útiloka þá sem mest frá umræðunni.

Þannig að í dag þá er þessi umræða farin að minna á kirkjuna á miðöldum ef þú viðurkenndir ekki ríkjandi viðhorf þá varstu bannfærður, í dag er það þannig að þeir sem ekki trúa að loftlagsbreytingar séu ekki eins og IPCC segir bannfærðir í allri umræðu og ausnir auri.

Það er kannski kominn tími til að haldið verðir námskeið fyrir þá sem þessi vísindi stunda í umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra og í sjálfsgangrýni.

Og ef það er rétt sem hefur verið í fréttum undanfarna daga að stofnanir sem eru að vinna að vegum SÞ í vöktun loftlagsbreytinga hafi verið að stinga undir stól gögnum sem bentu til að umræðan sé á villigötum og kenningarnar rangar þá held ég að menn séu kannski á sama stað í  þessu máli og í okkar íslenska bankahruni, horfi blindum augum fram og sópi óþægilegum vísbendingum undir teppið.

Einar Þór Strand, 22.11.2009 kl. 11:40

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í framhaldi af þessu og hvað sem öllum umræðum líður um að menn hafi stungið einhverjum gögnum undir stól, þá standa öll frumgögn fyrir sínu sem sýna að talsverð hlýnun hefur átt sér stað síðustu 100 árin. Þessi hlýnun hefur ekki verið jöfn enda virðast náttúrulegar sveiflur vera innbyggðar í kerfið. Við erum kannski stödd í tímabundinni stöðnun á hlýnun, svipað og átti sér stað uppúr miðri síðustu öld. Ef svo er, þá er hætt við því að margir láti blekkjast og afskrifi hnattræna hlýnun. Kannski vaknar svo aftur upp sú umræða að ekkert nema kuldaskeið sé framundan og jafnvel nýtt ísaldarskeið handan við hornið eins og sumir vildu boða á 8. áratugnum.

Það verður svo að hafa í huga að ef við kennum náttúrunni um það að hlýnun stöðvist tímabundið, þá verður líka að horfa til náttúrunnar ef hlýnun magnast upp mjög hratt á einhverju tímabili. Langtímaþróunin er þó það sem gildir og því þurfum við eiginlega bíða í einhverja áratugi þangað til við sjáum á hvaða leið við erum akkúrat núna varðandi hlýnun af mannavöldum.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.11.2009 kl. 12:56

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það verður svo að hafa í huga að ef við kennum náttúrunni um það að hlýnun stöðvist tímabundið, þá verður líka að horfa til náttúrunnar ef hlýnun magnast upp mjög hratt á einhverju tímabili. Langtímaþróunin er þó það sem gildir og því þurfum við eiginlega bíða í einhverja áratugi þangað til við sjáum á hvaða leið við erum akkúrat núna varðandi hlýnun af mannavöldum.

Ef við tökum Emil þarna á orðinu blasir við að við getum ekki skrifað hlýnunina t.d. síðustu 30 árin fortakslaust á hlýnun á gróðurhúsalofttegundir af manna völdum. Og ef hlýnunin er að stöðvast af náttúrulegum ástæðum - við vitum ekki einu sinni enn hvort hún er tímabundin - þá virðist sem hlýnunin sjálf sé af náttúrulegum ástæðum. Það verður a.m.k. að finna þá áhrifavalda sem tefja hlýnunina þrátt fyrir það að útstreymi gróðurhúsalofttegunda, það sem á beinlínis að valda hlýnuninni, hefur verið að aukast öll þau ár sem hlýnunin hefur ekki aukist. Þetta tvennt á að haldast í hendur: Því meiri gróðurhúsalofttegudnir því meiri hlýnun. Því meiri gróðurhúsalofttegundir-  engin hlýnun í samræmi við það á hnattrænum forsendum hlýtur að vekja upp spurningar og þeim verða menn að svara sem ákafastir eru í hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Langtíma hlýnun með rykkjum og skrykkjum gæti reyndar líka verið að náttúrulegum ástæðum. Það er náttúrfræðilega alveg hugsanlegt að slík hlýnun væri í gangi, sérstaklega ef það gengur ekki upp sem nú er að koma á daginn að því meiri lofttegundir því meiri hlýnun. Er ekki eitthvað þarna sem ekki er hægt að skýra með gróurhúsakenningunni? 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2009 kl. 13:30

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gróðurhúsasinnar eru nú ekkert að bíða í neina áratugi. Þeir eru fyrir löngu  búnir að ákveða - með vísdinium sínum sem EKKI geta skýrt þetta hik í hlýnunni en menn eiga samt að beygja sig skilyrðislaust undir af því að þau viti hlutina - að hlýnun jarðar sé af völdum gróðurhúsalofttegunda en ekki af náttúrlegum ástæðum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2009 kl. 13:33

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Reyndar er hægt að skýra svona HIK í hlýnuninni, það er nú m.a. það sem Einar kemur inn á í pistlinum (og Emil einnig). Það eru náttúrulegar sveiflur, líka í þeirri hlýnun sem talin er vera af völdum aukningu gróðurhúsalofttegunda, nú sem áður. Eftirfarandi mynd sýnir t.d. einn mögulegan feril til framtíðar, tek það fram að þetta er EKKI spá. Það væri væntanlega eitthvað undarlegt við það ef náttúrulegar sveiflur væru ekki til staðar, nú sem áður.

 Skrikkjótt hlýnun

Skrikkjótt hlýnun, dæmi um hitaferil, tekið úr skýrslunni "Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi"

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.11.2009 kl. 13:41

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Svatli bara af því að þú nefnir Stykkishólm þá langar mig að benda á að síðasta færsla veðurstöðvar Veðurstofunnar er ámælisverð vegna þess hve miklar líkur á að mannvirki hafi áhrif á mælinguna (malbik, gangstétt og hús) miðað við fyrri staðsetningu.

Einar Þór Strand, 22.11.2009 kl. 15:04

10 identicon

Nú fyrir nokkrum dögum voru birtar fréttir um að vísindamenn hefðu komist að þeirri niðurstöðu með m.a. rannsóknum á borkjörnum að síðasta kuldaskeið yfirstandandi ísaldar hefði skollið á, á sex mánaða tímabili hið mesta. Það er ansi hratt. Tilgátur voru um að snögg breyting eða stöðvun á neðansjávarsístreymi (stundum kallað conveyor belt) hefði valdið þessu. Einnig voru menn að geta sér þess til að ein af orsökum þessa gæti verið mjög hröð bráðnun Grænlandsjökuls, sem skilaði miklu magni af köldu ferskvatni á yfirborð Íshafsins, sem hefði síðan farið saman við minnkandi útgeislun frá sólu.  Nú veit ég ekki fremur en aðrir hvað er til í þessu.  Það er hinsvegar nokkuð ljóst að það yfirstandandi hlýskeið ísaldar kemur til með að enda, við vitum bara ekki hvenær og hvernig. Þegar þeir fimbulkraftar sem því valda fara að láta til sín taka, er víst fátt sem við mannskepnurnar getum gert í því.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 16:14

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svo ég haldi áfram að hugsa upphátt í augnabliksæsingi: Aldrei hefur mér fundist þessi agnaskýring sannfærandi á því hvers vegna kólnaði á stríðsárunum og svo þessi sólarleysisskýring núna. Sú fyrri viðurkennir Einar að  sé bara að hluta til skýring. Það þýðir að stór hluti skýringarinar er óþekktur. Í mars 2009 var styrkur gróðurhúsalofttegunda um 387 ppm og hafði aukist held ég meira en 10 ppm á síðasta áratug. En hitaaukningin á sama tíma virðist engin vera. Það er engin smáræðis náttúruleg kuldasveifla sem þar vegur á móti og fjandi löng! Samt finna vísindin litlar skýringar. Þau vita sem sagt minna um orsakir hlýnuninnar eða hvort hún mun áfram halda en ýmsir vilja vera láta. Jafnvel gróðurhúsakenningin sem orsakavaldur þeirrar hlýnunar sem orðið hefur hlýtur jafnvel að vera í vafa, eitt ár líður af  öðru með rosa útblæstri en ekkert hlýnar, spár og kenningar eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Þetta er sá óþægilegi sannleikur sem nú er ekki hægt að líta fram hjá lengur og er að byrja að koma fram í umfjöllunum eins og þarna í Spiegel. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2009 kl. 17:37

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar að benda á, til fróðleiks, að yfirstandandi áratugur mun að öllu óbreyttu verða sá hlýjasti frá því mælingar hófust, sjá t.d. í eftirfarandi tengli þar sem farið er yfir 20 heitustu árin frá 1880. Þannig að þó metið frá 1998 (reyndar gera sumar hitaraðir ráð fyrir að 2005 hafi verið heitast) hafi ekki fallið, þá er hitastig síðasta áratugar hátt í samanburði við síðustu marga áratugi. Mér þykir það einföldun að gera ráð fyrir að hitastig verði að hækka línulega til að kenninginn um hlýnun jarðar af mannavöldum geti staðist, þú ættir að þekkja það í þínum pælingum Sigurður Þór að hitastig sveiflast á milli ára og tímabila. Vísindamenn reyna að útskýra hvað veldur og nefnir Einar nokkra punkta varðandi það í pistlinum.

PS. Einar Þór, í grafinu sem ég set inn í athugasemd 3, er hitastig á Stykkilshólmi á síðustu öld, notað til að útskýra náttúrulegar sveiflur sem hugsanlega gætu orðið í framtíðinni, miðað við ákveðna hlýnun.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.11.2009 kl. 18:28

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nú samt enginn smáræðis hiti á jörðinni um þessar mundir miðað við meðaltal síðustu aldar. Aukning gróðurhúsalofttegunda á hverju ári er þó svo lítil að náttúrulegar sveiflur fara létt með að hafa áhrif á þá hlýnun sem við skulum segja að sé í gangi af völdum CO2. Þess vegna getum við ekki farið fram á að það hlýni á hverju ári eða áratug þó að til lengri tíma liggi leiðin upp á við. Úthöfin hef ég síðan aðallega grunuð um að valda þessum sveiflum.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.11.2009 kl. 18:42

14 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Síðustu athugasemd minni var eiginlega beint til Sigurðar. En í sambandi við hvaða ár var heitast á jörðinni þá er árið 2005 talið vera það heitasta samkvæmt NASA–GISS en ekki 1998 eins og hjá öðrum. NASA–GISS eru þeir einu sem taka heimskautin sérstaklega með í reikningin og þar með alla jörðina.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.11.2009 kl. 18:54

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Smá villa hjá mér í athugasemd 12, þar á að standa:

PS. Einar Þór, í grafinu sem ég set inn í athugasemd 8 (en ekki 3)

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.11.2009 kl. 19:20

16 identicon

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 20:31

17 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Já varðandi náttúrulegar sveiflur og svo gróðurhúsaáhrifin, þá benti einhver (einhverstaðar, einhverntíman man ekki hver, hvar né hvenær) á það að hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa er kannski 0,2°C á áratug. Þar sagði einnig að náttúrulegar sveiflur geti hæglega verið 0,2°C á áratug (bæði til hlýnunar og kólnunar) og því getur komið áratugur sem hlýnar ekki jafn afgerandi eins og aðrir. Að sama skapi skal bent á það að ef áframhaldandi uppsveifla af völdum gróðurhúsalofttegunda lendir á ári þegar náttúrulegir ferlar eru í uppsveiflu- þá verður óvenjuleg hlýnun , eins og gerðist t.d. árið 1998 með sterkum El Nino. 

Höskuldur Búi Jónsson, 22.11.2009 kl. 21:20

18 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Oftrú manna á gömul ófullkomin módel sem eiga sýna fram á að co2 af mannavöldum, valdi X mikilli hlýnun á ári, er sem betur fer á undanhaldi. þessi módel skipta samt miklu máli varðandi framhaldið og eiga að hjálpa okkur að drag vitrænar ályktanir til dæmis með því að setja raungögn í þau.

Í þeim módellum sem spárnar byggja á er GHG látið aukast í einhverjum fasa með útblæstri co2, það er þar sem módellin klikka einna helst.

Magn co2 er greinilega ekki að aukast jafn mikið og spárnar gerðu ráð fyrir og sé co2 fært niður að rauntölum verða hitaspár módellana réttari. Með þetta í huga er ljóst að eftiráskíringar um að varmarýmd í hafi eða að þarna sé áratuga sveifla sem rúmast innan módelsins bara til að reyna að halda í trú á módellin, standast enga skoðun. Það er risastór augljós villa í vexti co2 í módellunum sjálfum, það er eitthvað, til dæmis vanmat á aukinni ljóstillifun vegna hækkunar hita, sem kemur í vega fyrir að co2 útblástur af mannvöldum komist upp í GHG lögin í því magni sem módelin gera ráð fyrir í spánum.

Þessi módel eru því bara ófullkomin eins og svo mörg mannanna verk og ekkert meir um það að segja.

Guðmundur Jónsson, 23.11.2009 kl. 11:04

19 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Hugsanlega "geymir" hafið þá hlýnun sem aukning gróðurhúsalofttegunda  síðustu árin veldur.

Einar, þetta segir þú að ofan í þínu bloggi. Sýndu mér fram á að það hafi einhver, eða einhverjir vísindamenn, sannað að aukning gróðurhúsaloftegunda hafi hin minnst áhrif á loftslag í heiminum.

Ég sendi öldnum heiðursmanni smá pistil í Morgunblaðinu þar sem ég tók svo til orða að ef við hugsum okkur gufuhvolfið sem 1 millj. kúlur í kassa þá er CO2 385 kúlur en allt annað 999.615 kúlur.

Ég segi en og aftur;það fær mig enginn til að trúa því að þessar 385 kúlur hefi nein áhrif á loftslag og hitastig á jörðinni.

Mér þótti skandallinn og fölsun Michael Mann þegar hann setti fram línuritið sem kallast Hokkýstafurinn sýna nægilega að þeir sem stýra umræðunni um loftslagsmál (IPCC) svífast einskis. En nú er komin í ljós mikill skandali og falsanir hjá Hadley í Englandi, samráð og breytingar á staðreyndum til að láta þær falla að kenningunni. Allar fréttastofur og stærstu fjölmiðlar heimsins ræða þessar blekkingar og komin er fram í Bretlandi krafa um opinbera rannsókn. Enginn fjölmiðill á Íslandi minnist á þetta nema DV.

Ætlarr þú Einar að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekkert hafi gerst?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 23.11.2009 kl. 23:38

20 identicon

Fyrir þá sem skilja sænsku væri kannski ágætt að lesa smávegis í sögu:
http://www.popularhistoria.se/o.o.i.s?id=43&vid=225

Gulli (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 08:35

21 identicon

Gleymdi að gera slóðina virka sem link:
http://www.popularhistoria.se/o.o.i.s?id=43&vid=225

Gulli (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 08:37

22 identicon

Eitthvað er þetta að virka bjálfalega hjá blog.is núna:

Klimatets roll i historien

Gulli (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband