Eskifjörður 28,0°C

Eskifjörður_9ágúst2012.pngEftir mælingu kl. 15 er hæsta talan 28°C á Eskifirði.  Mælistöðin er sjálfvirk eins og þær flestar á Austurlandi.   Við sjáum línuritið frá VÍ hvernig hiti (og daggarmark) hefur þróast í dag.  Nú eftir hádegi hefur vindur verið hægur þetta 2-3 m/s af V og NV á Eskifirði.

En við spyrjum að leikslokum og laust fyrir kl. 19 ættu stöðvar þar sem lesið er af hámarksmælum að hafa skilað sér.

 


21,8°C á Kollaleiru í Reyðarfirði kl. 07

Þau gerast vart meiri hlýindin á landinu.  Mig rak hreinlega í rogastans að sjá að hitinn á Kollaleiru í botni Reyðarfjarðar var kominn í 21,8°C strax kl. 7 í morgun !

Enginn ástæða er til annars en að ætla að þessi mæling sé rétt enda er 18 til 19 stig á flestum nærliggjandi stöðvum á fjallvegunum s.s. eins á Oddsskarði mældust 18°C.

Þá fór hitinn í 23°C á Dalatanga í snarpri V-golu í stutta stund á á milli kl. tvö og þrjú í nótt.

Á Akureyri sýnist mér að lágmarkshiti næturinnar hefi verið um 17°C !!

Bíðum þó birtingu lágmarksmælingar þaðan eftir kl. 09.

Þetta er eitthvað fyrir veðurmetafræðingana að skoða.  Hver skyldi hann nú vera hæsti mældi  lágmarkshiti dagsins ? 

Uppfært kl. 09:50.  Lægsti hiti á Akureyri (Lögreglustöðinni) reyndist 17,2°C nótt.  Í þessari töflu frá Veðurstofunni má finna töluna 19,5°C sem hæsta lágmarkshita frá Vatnsskarðshólum í hitabylgjunni í ágúst 2004 (11. ág).


Alvöru hiti fyrir austan á morgun og föstudag

ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2012080800_042_1166075.jpgÞrátt fyrir að sumarið hafi verið hlýtt í heildina tekið hafa dagar með alvöru sumarhlýindum látið sig vanta.  Til þessa hefur hæsti mældi hiti á landinu ekki enn náð 25°C.  8. júlí  mældi sjálfvirki mælirinn á Stjórnsarsandi við Klaustur 24,8°C og kvikasilfursmælirinn í þorpinu Á Kirkjubæjarklaustri sýndi sama dag rétt rúmlega 24°C. 

Allar líkur eru hins vegar á því að hitinn nái að rjúfa 25 stiga múrinn á morgun fimmtudag 9. ágúst einhvers staðar um norðaustan- og austanvert landið.

Í fyrsta sinn í sumar virðist þykktin ætla að komast yfir 560 dekametra.  Við sjáum stöðu mála á meðfylgjandi spákorti úr safni Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (sótt í Brunn Veðurstofunnar).  Það gildir kl. 18 á fimmtudag.  Lokaður hringur með þykkt upp á 562 verður þá yfir austanverðu landinu og reyndar annar innri fyrir jafgildisþykkt 564 rétt við Gerpi.

Þetta hlýtt loft, en þykktin er ágætur mælikvarði á hita í lægri hluta veðrahvolfsins, ætti að öðrum skilyrðum uppfylltum að  leiða til á milli 20 og 23 stiga hita almennt um austanvert landið og hámarkshita dagsins á landinu um 25 til 28°C. 

Lituðu fletirnir á kortinu gefa til kynna hita í 850 hPa fletinum sem verður í um 1.450 metra hæð á morgun.  8 til 12°C í þessari hæð er allgott og telst hátt.  Reyndar er fremur fátítt að sjá hita í þessari hæð yfir 11 til 12°C en vel að merkja að þá slík gildi ítrekað sést við Grænland það sem af er sumri.  Nái loft í þessari hæð að streyma niður hlémegin fjalla og hlýna þurrinrænt eins og það er kallað nemur hlýnunin um 0,9 til 1,0°C á hverja 100 metra. 25°C er því ekki óraunhæft við þessar aðstæður.

harmonie_island_mx2t6_2012080800_039.jpgEn hver eru þá þessi önnur skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá væn sumarhlýindi ?  Í fyrsta lagi þarf að vera vindur til staðar til að beina mestu hlýindunum úr hæð og niður  í byggð.  Á morgun verður einmitt ágæt SV-vindröst yfir landinu norðan- og norðvestanverðu.  Hitt skilyrðið er að sólin skíni.  Upphitun hennar er hrein viðbót og bætir við á að giska 2 til 3 °C við þann hita sem kreista má úr sjálfum loftmassanum.

En hvar skyldi nú verða hlýjast ?  Sótti kort einnig af Brunni VÍ.  Það  er spákort úr hinu nýja Harmonie-líkani Veðurstofunnar sem reiknað er í hárri landupplausn. Sjá má að þar koma fram afmörkuð svæði (fjólublá) með hita yfir 20°C . 

Líklegir staðir með hæsta hita dagsins eru m.a. Ásbyrgi, Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði, Hallormsstaður, Seyðisfjörður eða Neskaupsstaður.  Til hliðar hefur til gamans verið sett upp könnun þar sem lesendur geta látið spádómsgáfu sína í ljós. Sjálfur hef ég ákveðinn stað í huga sem ég held að standi upp úr á morgun, en læt ekkert uppi með það að sinni (en færi rök fyrir því vali annað kvöld þegar “tölur” liggja fyrir).

Hitabylgja ?  Já tvímælalaust.  Ég vil fyrir alla muni ekki gengisfella góð og gild hugtök.  En hitabylgja verður það austanlands ef og þegar hiti fer í 25 stig.


Ekki hægviðrasamara í Reykjavík

11473-157-80.jpgÞað þykir hæglátt þegar meðalvindhraði er 3 m/s eða minni  Undanfarin sumur hefur það gerst mánuð og mánuð að meðalvindhraði í Reykjavík hefur verið undir 3 m/s.

En þetta sinstaka sumar það sem af er virðist sem meðalvindur í Reykjavík hafi verið lægri en nokkru sinni áður eða 2,4 m/s.  Í júlí  2007 var gildið 2,5 m/s og sama mánuði 2003 2,6 m/s.

Þó mælingar á vindi með sambærilegum aðferðum nái ekki langt aftur má nánast fullyrða að þetta sé met, en þá verðum við líka að hafa í huga að vindafar á Höfuðborgarsvæðinu hefur smám saman á undanförnum áratugum orðið okkur hagfelldara vegna blómlegrar trjáræktar og aukningar á byggð sem líka dempar vind í lægstu lögum. 

Af handahófi sé ég að meðalvindur var álíka hægur á stöðum eins og í Húsafelli og á Bíldudal, sem er einn blíðasti og skjólsælasti staður landsins í þéttbýli þegar vindur er annars vegar. 

Ljósmyndin er frá Ragnari Th. og tekin í júlí 2012. 

 


Hlýr og sólríkur júlí

Breiðafjörður 9.júlí2012.jpgHún ætlar ekki af okkur að ganga með sumarveðráttuna 2012.  Nýliðinn júlí var bæði hlýr og sólríkur eins og má lesa nánar um í yfirliti Veðurstofunnar.  Þó enga skilgreinda hitabylgju hafi gert í mánuðinum var hann engu að síður allur í hlýrra lagi.  Athyglisverðast er vitanlega jöfnun á meðalhitameti í Vestmannaeyjum en ætlað er að álíka hlýtt hafi verið annálað gæðasumar 1880.

Á meðan við höfum upplifað þessa fínu sumarveðráttu, kvarta Skandinavíar undan ótíð og eins Bretar.  Veðurstofur Noregs og Danmerkur segja þannig báðar að nýliðinn júlí hafi verið bæði markvert undir meðalhita og eins verið mjög vætusamt, einkum á það nú við um Noreg og hafa verður þá í huga að mörg undanfarin sumur hafa verið úrkomusöm í N- og V-Evrópu.

En hvað með sumarið í heild sinni ?  Trausti Jónsson gerir að umtalsefni hve sólríkt hafi verið frá því í maí og sýnir tölulega fram á hve afbriðgilegir þessir þrír mánuðir (maí-júní) eru orðnir í miklu sólskini bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Verður sumarið 2012 eitt af þessum allra bestu sumrum sem við þekkjum m.t.t. hita og sólar síðustu 150 árin eða svo ? Undanfarin ár hefur verið hálfgerð fýla norðaustna- og austanlands að sumrinu , en nú breðgur við að þar er hefur tíðin ekki verið síðri en annars staðar, svona lengst af.  Við erum hálfnuð með sumarið í skilningi veðurfarsins, en það nær frá júní til september.  Sumrin 1939, 2003 og 2010 sem eru með þeim allra, allra bestu einkenndust m.a. af því hversu tíðin hélst góð langt fram í september.  1939 og 2003 gerði ágætar hitabylgjur, þá sérstaklega 1939.  (Ágústsvækjan sem margir minnast var 2004 en ekki 2003 !).  

Þó undanfarin sumur hafi verið frekar þurr, rétt eins og nú hefur einkennt þau að um miðjan ágúst er eins og einhver tegund "monsúns" hellist yfir með rigningartíð fram á haust.  Vitanlega er þetta ekki einhlítt og nú er kannski mesta spennan að sjá hvort hér leggist í rigningar og lægðagang þegar líður á ágúst eða hvort veðrátta 2011 endurtaki sig, en þá hélst þurrviðrið að mestu fram í september á landinu og vestantil enn lengur.  

En það er kannski frekt að biðja um almennilega hitabylgju svo þetta sumarið toppi nú flest það sem við höfum séð hingað til.  Svo má líka rigna aðeins....

(Ljósmyndin er tekin á dæmierðum júlídegi (þ.9) við Breðafjörðinn þar sem lengst af mátti bæði spegla sig í sjónum og gefa að líta allan Snæfellsnesfjallgarðinn)


Helgarspáin

camping.jpgÓhætt er að segja að veðurhorfur nú fyrir verslunarmannahelgina eru með besta móti fyrir landið eins og það leggur sig.  Eins eru reiknaðar langtímaspár sérlega stöðugar þessa dagana og spágetan meiri fram í tímann en alla jafna.

Reiknað er með háum loftþrýsingi sem á rætur að rekja til hæðarhryggs í háloftunum hér vestur undan.  Staðan er farin að verða okkur kunnugleg þetta sumarið og afleiðingin alveg þurrt veður og niðurstreymi lofts sem aftur leiðir til heiðríkju yfir landi. Það sem meira er að loftið yfir landinu verður í hlýrra lagi, en ekkert meira en það. 

Föstudagur 3. ágúst: 

Nokkuð eindreginn SV- og V-vindur.  Allt að því strekkingur á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi, en annars hægur vindur.  Leiðir til þess að hlýja loftið hærra uppi nær að blandast niður, einkum suðaustan- og austanlands.  Þar gæti hiti sums staðar komist í 20 til 25°C.  Annars um 14 til 18 stig.  Þurrt um land allt og léttskýjað, en skýja um tíma norðvestantil. 

Laugardagur 4. ágúst:

Verður komið hægviðri um land allt.  Létt hafgola við strendur yfir daginn.  Léttskýjað eða heiðríkja um nánast allt land.  Hiti 15 til 20 stig og jafnvel hærri þegar best lætur á vænum stöðum til landsins og ekki síður á hálendinu en í byggð. Kólnar nokkuð í húminu yfir nóttina niður í 5 til 9 stig.

Sunnudagur 5. ágúst:

Svipað veður og hægviðrasamt, en þó eru nokkrar líkur til þess að það verði meira skýjað, einkum af háskýjum á landinu sem berast úr vestri og norðri suðaustur yfir landið.  Ekki þó útlit fyrir úrkomu.  Áfram fremur hlýtt í lofti, og allt að 16 til 19 stig og hærri þar sem sólin nær helst að brjótast í gegn, t.a.m. um austanvert landið.Hins vegar er spáð tempraðri næturhita á sunnudag.

Mánudagur 6. ágúst:

Áfram er útlit fyrir sama hægvirðið og úrkomulaust að heita má um allt land.  Óvissa helst um skýjafarið, líklega skýjað vestan- og norðantil, en síður sunnan- og austantil.  Ekkert lát verður hins vegar á ágætum sumarhita um land allt.

 


Óvenjuleg hlýndi í háloftunum valda meiri bráðnun Grænlandsjökuls

greenland_com_2012194.pngÍshvelið á Grænlandi bráðnar nú á stærra svæði og hærra uppi en nokkru sinni áður frá því farið var að fylgjast með jöklinum með hjálp gervihnatta. Frá þessu var greint víða í dag.

Menn hafa einkum staldrað við meðfylgjandi mynd frá NASA sem sýnir þann hluta yfirborðs jökulsins þar sem ís er að bráðna annars vegar 8. júlí og hins vegar 12. júlí.  Réttilega er afar óvenjulegt að leysingasvæðið nái upp á topp í rúmlega 3.000 metra hæð þar sem hiti er undir frostmarki, líka á sumrin.

Séu skoðuð greiningarkort lofthita í 850 hPa þrýstifletinum frá Bandarísku veðurstofunni þessa daga sést vel hvað veldur.  Það til vinstri er frá 8. júlí.  Þá er liggur frosmarkslínan um miðjar hlíðar ef svo má segja eða nærri 1.500 metra hæð.  Fjórum dögum síðar er staðan allt önnur.  Þá er hitinn greindur á milli +5 til +10°C í þessari hæð og svo hlýtt er að frostmarkshæði steig upp í 3.000 til 3.500 metra hæð.  Það er fremur óvenjulegt, líka hér á landi og stendur eins og gefur að skilja yfir í skamma stund.

screen_shot_2012-07-25_at_10_41_01_pm.pngscreen_shot_2012-07-25_at_10_41_30_pm_1164116.pngDanska Veðurstofan gerði það að sérstöku umfjöllunarefni að á stöðinni Summit inn á miðjum ísnum í 3.200 metra hæð hefði hiti náð +2°C  þann 11.  Oftast nær þegar milt loft kemst þetta norðarlega fylgja því raki og ský sem hindrar að veruleg sólgeislun nær til jarðar.   En það átti ekki við þessa dagana.  Fyrirstöðuhæðin af hlýrri rót var lengi yfir Grænlandi og þar ríkti niðurstreymi lofts hið efra og himininn var heiður.  Eins og við munum náði áhrifasvæði hæðarinnar til Íslands, í það minnsta Vesturlands og þessa daga í kringum 10. var mjög sólríkt.  

Það fór því saman að hlýtt loft streymdi um jökulísinn ásamt því á sumarsólin skein látlaust á jökulinn.  Hvort má sín meira hitinn eða geislunin vita menn ekki með vissu, en komið hefur fram að mögulega hafi aska frá síðustu gosum hér á landi minnkað endurkastið.  Það á þó varla við um þessi efstu svæði jökulíssins þar sem svo leysingin er væntanlega aðeins brot af ákomunni og öskugorið sekkur því fljótt ofan í ísinn. 

En hvað um það vatnavextir urðu afar miklir þegar leysingarvatnið steyptist niður af jöklinum.  Greint var frá því að í Syðri Straumsfirði ekki langan veg frá voldugum sporði skriðjökuls hafi brú tekið af.  Fyrir áhugasama er hér myndband af síðu DMI af þeim atgangi. 

Ég veit til þess að einn okkar betri ljósmyndurum náði loftmyndum ofan af Grænlandsjökli þessa daga þar sem sjást mikil lón vegna bráðnunar. Ekki er að ef að þær myndir þegar þær koma fram geta haft talsverða vísindalega þýðingu. 

Þetta ástand þar sem leysti af nær öllu yfirborðinu varði til 15. til 16. júli, en þó tók að kólna um norðurhluta Grænlands.  En hélst þó hlýtt í nokkra daga sunnantil.  Við skulum hafa það hugfast að enn er of snemmt að segja nokkuð til um það að sjálf leysingin sé meiri en menn hafa séð áður fyrr en í sumarlok, þó svo að aldri fyrr hafi menn orðið vitni að því að bráðnunin næði þetta hátt upp.  Leysing jökla ræðst af ákefð bráðnun margfaldað með leysingartímanum eða lengd sumars.  Hér á landi hófst t.a.m. jöklabráðnun seint í ár og enn seinna í fyrra en þá náði hún á móti lengra fram á haustið en "venja" er til.

Mér finnst hins vegar rétt að benda á að veðurspár nú gera ráð fyrir því að fyrirstöðuhæðin byggist upp aftur nú um helgina yfir Grænlandi og með frostmarkshæðinni aftur uppi í himinhæðum.  Því má aftur reikna með miklu leysingarskoti og ekki síst þegar haft er í huga að snælínan hefur færst ofar eða þar sem er að finna hvítan og endurkastandi snjó frá liðnum vetri.  Líklega varir þó ástand albráðnunar jökulhvelsins ekki í nema 1 til 2 sólarhringa að þessu sinni frá komandi laugardegi og fram á sunnudag. 

 

 


Mikið vatnsveður sums staðar norðanlands

Eftir að vindur snerist til N-áttar fór að rigna norðanlands og sums staðar meira en góðu hófi gegnir. Siglufjarðarvegi hefur þannig verið lokað vegna grjóthruns sem ekki er óalgengt þegar mikið rignir á vissum stöðum. Þá hafa skemmdir orðið á Strandavegi norðan Bjarnafjarðar og Árneshreppur því úr vegasambandi þar til þar hefur verið lagað.

Siglufjörður_uppsöfnuð úrkoma_23.júlí 2012 /VÍ.pngÞegar þetta er skrifað upp úr kl. 22 hefur mælirinn á Siglufirði tekið við um 70 mm úrkomu frá því í nótt og mest seinni partinn í dag. Úrkomuákefðin er mikil eða um og yfir 5 mm á klst. Myndin hér ar ef vef Veðurstofunnar og sýnir uppsöfnun úrkomu á stöðinni á Siglufirði. Á Ólafsfirði er magnið lítið eitt minna eða 60 mm.

Um norðanvert landið rignir víðast, en svona mikið magn er mjög staðbundið. Mesta úrkoma kl. 18 eftir daginn á leslista Veðurstofunnar af mönnuðum skeyta stöðvum var ekki nálægt þessum gildum. Utanverður Tröllaskaginn er þekktur við þessar aðstæður, einnig handan Eyjafjarðar í Fjörðum, Flateyjardal og Dalsmynni. Þá benda vegaskemmdir á Ströndum til staðbundinnar stórrigningar á Balafjöllum, við Kaldbak og þar í kring, en engum mælingum er þaðan til að dreifa. Veðurstöðin í Litlu-Ávík mældi hins vegar ekki nema 6-7mm eftir daginn.

Rigna mun í alla nótt og fram á morgundaginn en mér sýnist þó að draga muni talsvert úr ákefðinni upp úr miðnætti. Nokkuð ljóst má vera að yfirleitt á Norðurlandi og Vestfjörðum, jafnvel við Breiðafjörðinn einnig, er úrkoman bara nú með N-áttinni allt að því margföld á við það lítilræði sem komið hafði úr lofti fyrr í sumar.


Af seigu loftþrýstingsmeti

Loftvogin á Stórhöfða í kvöld (22. júlí) sýndi 972,8 hPa.  Það er nýtt met fyrir júlímánuð á Íslandi.  Þetta er eitt af hinum seigu veðurmetum sem eru meira en 100 ára gömul.  Eins og áður hefur komið fram er hið eldra frá 1901, 974,1 hPa í Stykkishólmi. 

 

Í þessum samanburði er eingöngu horft til þeirra veðurstöðva sem búa yfir kvikasilfursloftvog af gömlu gerðinni.  Eyrarbakki er ein þeirra og þar mældust 974,0 hPa nú kl. 21.  Það er ekki það að rafrænir loftvogarnemar á sjálfvirkum stöðum eru mjög góðir séu þér rétt stilltir í upphafi.  En til að gæta sanngirni við samanburðinn við 1901 verður að styðjast við gömlu traustu mælitækin.

Hér er tafla yfir allra mælingar í júlí undir 980 hPa fengin frá Trausta Jónssyni. Sjá má að 11. júlí 1912 er getið um 975,0 hPa í Reykjavík.  Í kvöld var þrýstingurinn lægri þannig að það stöðvarmet Reykjavíkur er líka fallið.

 

Lægsti mældi loftþrýstingur í júlí
ÁrdagurhPaStöð
190118974,1Stykkishólmur
192319974,3Stykkishólmur
191211975,0Reykjavík
19288975,9Akureyri
199426977,4Kirkjubæjarklaustur
194825977,9Reykjavík
19955978,2Stórhöfði
18761978,7Stykkishólmur
19322978,7Stórhöfði
200225979,2Dalatangi
196926979,4Stórhöfði
19727979,4Stórhöfði

 

Loftvogin á eftir á verða heldur fallandi í nótt sýnist mér og eftilæt ég Veðurstofunni um það að skrá endanlega tölu á morgun.  Á Stórhöfða verður að gera vindleiðréttingu til dálítillar hækkunar. Hún verður líkast til afar lítil nú þegar vindur er að detta alveg niður.

 Af seigum metum má lesa í skrá Sigurðar Þórs hér.(Opna skrá neðst í textanum)  Mörg eru þó háþrýstingsmánaðarmetin sem enn standa frá 19. öldinni sérstaklega mánaðar loftþrýstingsmetin.  Einnig má sjá seig met kulda frá þessum löngu liðnum árum sem líkast til verða seint slegin.  Úrkomu- og vindametin eru hins vegar flest nýrri af nálinni.  Mat á þurrðum einstakra mánaða flokkast hins vegar sum hver sem seig met og orðin heldur gömul.


Veðrið í gær fremur afmarkað

Ég fylgdist vel með þegar skilin fóru yfir landið í gær og nótt. SA-strengurinn á undan þeim var líkari því sem gerist í haustlægðum en að sumri. Í um 1.000 til 1.500 metra hæð blés af styrk nærri 20-25 m/s. um sunnan- og suðvestanvert landið og um 20 m/s um norðanvert landið. Veðurathugunarstöðin uppi í Tindfjöllum mældi t.a.m. slíkan vindstyrk, Þverfjall fyrir vestan og þannig mætti áfram telja.

Hins vegar sló vindur sér ekki niður til yfirborðs nema helst þá sunnanlands og á þá aðeins sums staðar. Sagt hefur verið frá mestu vindhviðu upp á um 40 m/s við Hvamm undir Eyjafjöllum og sums staðar á sunnanverðu hálendinu blés hressilega, en óvíða norðan Hvalfjarðar gerði meira en strekkingsvind um 8-12 m/s. Undir Hafnarfjalli náði vindur sér t.d. ekki upp eins og annars hefði mátt vænta á skilum lægðar sem þessarar.

Fjöll hafa oft þau áhirf að draga niður þann vindstyrk sem blæs ofan og við brúnir þeirra. Það fer þó mikið eftir stöðugleika loftsins, þ.e. hitafalli og lagskiptingu í lægri lögum. Vera má, en ég hef ekki kannað í þaula, að aðstæður svona um miðsumar þar sem bæði er tiltölulega hlýtt við yfirborð og mjög hlýtt í miðlægum loftlögum þegar skilin fara yfir, að vindur nái síður að slá sér niður. Vindurinn fljóti með öðrum orðum að mestu yfir landið þegar svona háttar til ? Það skal fúslega viðurkennt að nokkuð vantar í reynslubrunninn þegar veður eins og þetta gerir á miðju sumri, en maður hefur hins vegar séð þau ófá á öðrum árstímum.

hras3_island_10uv_2012072112_10.jpgAnnars var spá Belgings í 3 km upplausn alveg með þetta, sbr. meðfylgjandi spákort sem var reiknað eftir hádegi í gær og gilti kl. 21 í gærkvöldi (af Brunni VÍ). Strengur upp á 16-18 m/s er greinilegur með Suðurströndinni og vindur nær sér sums staðar niður á sunnanverðu hálendinu. Síðan kemur fram á kortinu vindahámark á utanverðu Kjalarnesi, en síður eða alls ekki undir Hafnarfjalli.

Það breytir þó því ekki að lægðin er með þeim allra dýpstu sem sést hafa hér við land í háa herrans tíð í júlí (en þætti hins vegar ekkert merkileg um mánaðarmótin ágúst/september). Afar líklegt má telja að loftþrýstingsmetið frá 1901 falli síðar í dag eða í kvöld. 974,1 hPa mælsist í Stykkishólmi 18. júlí það ár. Sennilega fer þrýsingur niður í 971-972 hPa á Stórhöfða eftir því sem lægðarmiðjan sjálf nálgast, en hún er aðeins farin að grynnast eftir að hafa náð mestu dýpt snemma í morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 68
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband