Burðageta lagnaðaríss

Hestar á Tjörninni/mbl.golliHestar á Tjörninni (2)/mbl.golliEðlilega vakti það mikla athygli þegar ísinn á grunnri Reykjavíkurtjörn brast undan þunga gæðinganna.  Margar myndvélar á lofti og atgangur við að ná hrossunum á þurrt.  Ísinn var of veikur, en sjálfur hef ég oft velt fyrir mér hve ís þurfi að vera þykkur til að halda t.d. fullorðnum manni.

Hinn mikli vatnagarpur, Sigurjón Rist fjallaði ásamt Guðmanni Ólafssyni bónda á Skálabrekku í Þingvallasveit, um burðarþol lagnaðaríss Náttúrufræðingnum árið 1986 (Ísar Þingvallavatns).  Þar segir að sé um ósprunginn og heilan ís að ræða, svokallaðan bláís, má taka ísþykktina (sm) í öðru veldi og margfalda með 15 til að finna burðarþolið.  Þannig á 5 sm þykkur ís að halda 375 kg, 10 sm ís 1.500 kg og 15 sm þykkur ís ber 3.375 kg.  Eftir að þykkt íssins nær 20 sm þarf að deila í útkomuna með tveimur eða þremur.  Hér er um að ræða bestu skilyrði, jafnan og ósprunginn ís sem myndast hefur í stillu.  Oftar er hann sprunginn og ójafn  sem dregur mjög úr burðarþolinu.

Reynslan er sú, segja Sigurjón og Guðmann að; 

  • 5 sm ís ber a.m.k. 180 kg í kyrrstöðu.
  • 10 sm ís 700 kg og
  • 15 sm ís 1350 kg 

Á það ber að líta hvernig þunginn dreifist og hvort um er að ræða farartæki (eða hesta) sem er á ferð. 

Ís á vötnum nær að verður allt að 80 sm hér á landi.  Það á a.m.k. við um Þingvallavatn.  Á Þórisvatni var ætlað að taka á ís atriði í kvikmynd í mars 2007 (ef ég man þetta rétt).  Áður voru leiðangur sendur út af örkinni til mælinga á þykkt og ástandi íssins.  Hann reyndist þá vera 70-80 sm þykkur og öllu óhætt fyrir þung farartæki og búnað.  Á síðustu stundu var hins vegar hætt við og atriðið og það tekið annars staðar. 

Myndirnar eru fengnar af mbl.is og ljósm.Golli. 


Góður dagur til tunglmyndatöku

Ég beið nokkuð spenntur að komast yfir myndir sem teknar voru í dag úr gervitunglum.  Bæði var að landið er því sem næst allt hulið snjó og líka var heiðríkja og von til þess að allt landið væri myndahæft.  Það kom líka á daginn og eins og svo oft áður sendi Ingibjörg Jónsdóttir mér góða mynd sem hún hefur rétt af og stækkað.  Að þessu sinni er um ljósmynd að ræða úr einu af NOAA tunglunum sem fara pólbraut um jörðu sem tekin var í dag, 2. feb 2009 kl. 12:58.  Sporbraut NOAA tunglanna er í um 860 km hæð.  Fékk einmitt fyrirspurn við myndina frá því á laugardag um fjarlægð linsunnar frá jörðu.  Ljósmyndir sem teknar eru um hádegisbil þegar sól er lágt á lofti sýna langa skugga frá  hærri fjöllum og gefa þeir myndinni mjög svo aukna dýpt.  Á dögum sem þessum er landið hreint ekkert annað en glæsilegt listaverk.

Island02022009

 

 

Island02022009_SVÁ neðri myndinni hef ég klippt út suðvestanvert landið.  Það sem er þar athyglisvert að vel sést að Þingvallavatn er greinilega að leggja.  Ísinn á vatninu sést, á meðan dekkri vakir eru enn austan- og suðaustantil. Það má þó ver að ský yfir Henglinum og Nesjavöllum rugli aðeins grátóna myndarinnar, en hitamynd í sömu upplausn gæfi skarpari drætti hvað varðar ísinn. Á laugardag var Þingvallavatn hins vegar klárlega alveg íslaust séð úr sömu hæð utan úr geimnum.  Sjálfur hef ég sérstakan áhuga á ísafari Þingvallavatns um þessar mundir enda unnið að dálítilli athugun á Þingvallaísum og varmahag vatnsins, sem kostuð er af orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar.

Hitamælingar á Þingvöllum við þjónustumiðstöðina sýna glögglega að við vatnið var froststilla í nótt og morgun, allt að -16°C um skeið.  Reynslan segir að sé vatnið orðið nægjanlega kalt í heild sinni leggur það á skömmum tíma við þær veðuraðstæður sem nú eru.  Oft gerist það snemma í janúar, sjaldan mikið fyrr, en stundum ekki fyrr en í febrúar líkt og nú.


Og þá koma lopapeysurnar í Bretlandi sér vel...

Björgum BretunumFramtak þeirra Heimis og Kollu á Bylgjunni með lopapeysusöfnuninni hefur vakið óskipta athygli sem náði hámarki þegar þau afhentu peysurnar og annan lopavarning í Hull nú í vikunni.

Svo virðist sem þessi hjálp héðan af Íslandi hafi komið á hárréttum tíma, því nú er spáð miklu vetrarveðri á Bretlandseyjum.  Á síðu Bresku Veðurstofunnar mátti í kvöld sjá svohljóðandi veðurspá í hnotskurn:

Headline:

Very wintry with snow in many places.

Picture 74Ekki nóg með það á morgun mánudag að gripið sé til svo vetrarlegra orða heldur líka það að sé skoðað kort af svæðum þar sem sérstakar viðvaranir eru í gildi (sjá mynd) spá þeir bresku að í Suður- Englandi, á rauðlituðu svæðunum, skulu menn viðhafa alveg sérstaka aðgæslu.  Spáð er á þessum svæðum hálfgerðri hríð og allt að 15 sm snjó í fyrramálið, m.a. í London.  Á Enskan mælikvarða þykir þetta fannfergi mikið með meirháttar umferðartöfum óhöppum og vandræðagangi.  Á BBC er talað um mestu snjókomu á landsvísu í 6 ár.

Annars er spáð frosti í Englandi og Skotlandi á morgun, sums staðar þónokkru.  Austrænt loft sem komið er alla leið frá Rússlandi hefur borist til vesturs síðustu dægrin og á leið sinni m.a. yfir Norðursjó drukkið í sig raka.  Úrkoma fellur síðan á Englandi.  Vari þetta ástand í nokkra daga, sem er reyndar fátítt getur kyngt niður mjög miklum snjó á þessum slóðum eins og gerðist í febrúar 1947 (sjá umfjöllun).

Þeir sem hafa verið í Bretlandi yfir vetrartímann vita hvað híbýli manna eru illa úr garði gerð til að þola kulda.  Að mínu mati jaðrar það við ástand vanþróaðs ríkis hversu hús eru illa einangruð og kynding oft slæm í breskum borgum.  En Bretar eru líka nískir þegar kemur að upphitun húsa sinni og halda sumir að fituríkur morgunverður nægi til að halda á mönnum hita yfir daginn.  

En íslenski lopinn mun klárlega halda á mörgum hita næstu dagana á Humbersvæðinu á meðan kuldakastið gengur yfir.  


Með fallegri tunglmyndum af snæviþöktu landinu

 Þessa glæsilegu mynd sendi Ingibjörg Jónsdóttir mér.  Hún er tekin í hádeginu, nánar tiltekið kl. 12:33.  Nýsnævið sker sig mjög vel frá sjónum og afar skarpir drættir koma fram.  Athyglisvert er að sjá að á láglendi norðaustanlands og á Héraði er jörð alauð á meðan hvítt er ofan í fjöru víðast annars staðar.  Eins og svo oft áður á þessum myndum sést vel hvað almennt virðist snjólétt framantil í Skagafirði.  Takið líka eftir því að Þingvallavatn hefur enn ekki lagt.

 

200901301228_rgb

 

Tunglmyndin er frá móttökustöðinni í Dundee og er samsett úr hitamynd og ljósmynd. Til aðgreiningar er settur í hana örlítill litur.  En þar sem birtan er enn takmörkuð þetta norðarlega gætir áhrifa ljósmyndarinnar lítt fyrir norðan og vestan land.  Meginísjaðarinn er vel greinilegur og langt undan Vestfjörðum, líkast til handan miðlín.  Góð tíðindi að hafísinn skuli vera fjarri.

 


Fremur snjólétt á landinu í það heila tekið

Snjódýptarkort VÍ 29. jan 2008

Í Reykjavík var í morgun mæld snjódýpt 19 sm.  Sjá má á þessu korti að engan veginn getur talist vera snjóþungt á  landinu nú í endaðan janúar.  Af þeim stöðum þar sem er mælt viðist mest vera í Svartárkoti fremst í Bárðardal.  Á næsta bæ, Mýri er líka mælt.  Þar er hins vegar ekki nema 8 sm snjódýpt í dag 29. janúar. 

Í byggð á Austfjörðum er jörð alauð og ekki getur talist vera snjór að ráði í allajafna  snjóþungu byggðunum á utanverðum Tröllaskaga. Svipað er upp á tengingunum á norðanverðum Vestfjörðum.

Geri þó þann fyrirvara við þetta kort að allmargar stöðvar hafa ekki skilað sér með upplýsingar (+) og eins er lítið um mælingar til fjalla, en ég þykist vita að ofan u.þ.b. 200 metra sé talsverður snjór miðað við árstímann. 


Talsvert snjóað í höfuðborginni

Talsvert hefur snjóað á Höfuðborgarsvæðinu í dag í nánast logni.  Snjór er orðinn það mikill að kallast gæti þæfingsfærð inni í hverfum þar sem ekki hefur verið hreinsað.   Byrjaði með sannkallaðri hundslappadrífu í morgun.  Þá birtist á veðurratsjá myndarlegur snjókomubakki úr suðaustri yfir Reykjanesfjallgarðinn. 

Ekkert var þar sem í sjálfu sér kom á óvart.  Aðeins rofaði til um hádegisbil, en aftur tók að snjóa og svo virtist sem bakkinn væri nær kyrrstæður yfir Hellisheiði, Bláfjöllum og við innanverðan Faxaflóann.  Á ratsjánni minnkaði snjókomubakkinn stöðugt, aðeins  mótaði fyrir honum um kl. 15:30 og þá hélt maður nú að nú færi þessu "langa éli" að slota. 

Veðurratsjá VÍ 28.jan kl. 1530

Það gerðist hins vegar ekki því áfram fennti og það þó svo að ratsjáin sýndi engin merki úrkomu í grennd við Reykjavík. (sjá ratsjármynd að neðan).

 

Það merkilega var að nánast ekkert hefur snjóað suður í Keflavík og þar í grenndinni, úrkomusvæðið er hægfara og tiltölulega afmarkaður bakki í stefnu NV-SA.  Síðan er hann líka lítt sýnilegur, toppar hans í um 3 km hæð og á tunglmynd í dag var hann hulinn mun hærri blikuslæðu frá lægðarbólu skammt suðaustur af  landinu.   

Þegar þetta er skrifað laust fyrir kl. 21 snjóar enn og guð má vita vita hvenær þessu "él" slotar !

Veðurratsjá VÍ 28.jan kl. 1900


Spáði Halldór rétt ?

Morgunblaðið/Halldór

 

Halldór teiknari Morgunblaðsins birti þessa skemmtilegu skopmynd í blaði gærdagsins (eða var það í fyrradag ?).

Er ekki óhætt að segja að spá hans frá því í gær hafi ræst nokkuð vel í dag í því pólitíska hreingerningaveðri sem ríkt hefur í dag ?

En er alveg víst að það hafi viðrað til þerris, nú þegar búið er að hengja landið upp á snúru ?

Pólitísk líkindi nú eru mikil með árinu 1979, þegar ríkisstjórn baðst lausnar á miðju kjörtímabili og boðað var  til kosninga líkt og nú.   Þá rétt eins og nú var hver höndin upp á móti annarri og brigslyrðin gengu á víxl.

1979 var ekki aðeins sögulegt í stjórnmálunum hér á landi, það ekki síður veðurfarslega sögulegt sem kaldasta ár 20. aldarinnar.  En mun 2009 feta í fótspor 1979 hvað það varðar.  Þó árið sé rétt nýhafið held ég samt að það gerist varla.  En hver veit svo sem ? 


Japanskt tungl á braut til mælinga á CO2

japan_rocket_Ibuki_23jan_APFyrir helgi var skotið á loft nýju gervitungli á sporbaug um jörð.  Það var geimvísindastofnun Japan, JAXA sem skaut tunglinu frá þeirra Kanavaralhöfða eða Tanegashima sem  í raun er smáeyja  suður undan syðsta hluta Japan.  Skotið tókst vel og Ibuki, eins og tunglið kallast er nú í um 670 km hæð og fer pólhring umhverfis jörðina á 100 mínútum.  

Meginhlutverk Ibuki verður að mæla þéttleika gróðurhúsalofttegundanna koltvísýrings og metans í andrúmslofti á fyrirfram ákveðnum 56.000 punktum yfir jörðu. Í dag eru mælistaðir á jörðu niðri um 280 talsins og ætlunin er að kanna hvort að þessar merkilegu snefillofttegundir hafi ójafnari þéttleika en þær tiltölulega fáu mælingastöðvar hafa  hingað til gefið til kynna.  

Eins og gefur að skilja er JAXA í ágætu samstarfi við systurstofnun sína NASA og sú síðarnefnda mun varðveita gögn Ibuki og dreifa þeim um heimsbyggðina til greiningar og frekari rannsókna m.a. í loftslagmálum. 


Óvenjustillt í Bláfjöllum

Bláfjöll úr safni / Ljósm.ArngrímurÓhætt er að segja að margt hafi verið um manninn í Bláfjöllum í dag og langt síðan ég man eftir öðrum eins fólksfjölda þar uppfrá rennandi sér á skíðum eða brettum, nú eða á gönguskíðum.  Óvenju margt var um manninn í "sporinu" í dag.

Veðrið var gott og sólin skein. Í mínum huga er gott veður í Bláfjöllum hins vegar þegar vindur er ekki til vandræða.  Eftir hádegi var nánast logn eða smá andvari, en slíkt er heldur óvenjulegt á þessum stað í janúar.  Stillu getur maður helst vænst í miklum gaddi um miðjan vetur, en svo var ekki í dag, því hitinn var rétt um frostmark.  Þegar meðalvindhraði á stöðinni Bláfjöll er hvorki meira né minna 9 m/s í janúar er ekki nema von að manni verður hálfpartinn brugðið við blíðuna sem gerði í dag 25. janúar.

Fjöldinn sem lagði leið sína í Bláfjöll sýnir vel að það er greinileg skíðavakning í gangi á höfuðborgarsvæðinu.

Myndin er ekki alveg ný og fengin af ljósmyndavef Arngríms.


Fjarkönnun upp á sitt besta

 22jan2009_Dundee

 

 

Þessi tunglmynd var tekin í dag, 22, jan. kl. 13:30.  Hún er upp á sitt besta og ótal margt að sjá. 

Fyrir það fyrsta má nánast staðsetja lægðarmiðjuna djúpu fyrir miðju skýjasnúðsins neðst til hægri. Í öðru lagi er ísjaðarinn langt undan Vestfjörjum austur undir Grænlandi afar greinilegur.  Að síðustu eru það þessi lóðbeinu strik sem sjá má geinilega á Faxaflóa og fyrir suðvestan landið.  Þetta eru vitanlega flugvélaslóðar.  Þeir virðast "lifa" lengur á himni en alla jafna annars.

Síðan eru það allt hitt það skemmtilega á myndinni, m.a. bylgjumyndunin norðan Vatnajökuls eða göndull og fleira.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1790869

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband