Nú er búið að vera ansi kalt á meginlandi Evrópu í bráðum viku. Í raun er ekkert óvenjulegt þarna á ferðinni. Allt að 20 til 25 stiga frost í A-Evrópu er ekki sérstaklega mikill kuldi á þessum slóðum. Sennilega kom hann íbúunum engu að síður í opna skjöldu því það var búið að vera nokkuð milt það sem af er vetri. Það að fólk láti lífið í frostinu er fyrst og fremst samfélagslegt vandamál, það að allir eigi ekki kost á húsaskjóli er vandinn ekki kuldinn. Honum er í siðuðum samfélögum hægt að verjast.
Engin met hafa verið sleginn eftir því sem ég best veit. Háþrýstingur með miðju yfir NV-Rússlandi hefur verið með meira móti og teygt anga sína yfir N-Skandinavíu. Þannig mældist loftvogin 1058 hPa í N-Svíþjóð fyrir skemmstu og ekki verið hærri í 40 ár.
Það sem hefur ef til vill verið óvenjulegast er hvað raunverulega kalt loft hefur náð í ríkum mæli suður á Miðjarðarhaf með tilheyrandi snjókomu þar. Snjókoma er þar fátíð þar sem tiltölulega hár sjávarhitinn kyndir undir. Éljagangur á þessum slóðum verður hins vegar sérstakur og tilkomumikill þegar ískalt meginlandsloftið vellur út yfir heitt hafið. Myndin til vindstri er frá Palma á Mallorka, en MODIS-myndin hér að ofan var tekin í morgun og sýnir fínlega skúra- eða éljagarðanna á Miðjarðarhafinu undan Frönsku Rivierunni og undan Spánarströndum.
Vetrarharðindin verða skammvinn ef spár ganga eftir. Í Vestur-Evrópu og Skandinavíu víkur kuldinn í vikunni að mestu þegar Atlansthafsloftið nær að nýju inn á land í stað þess að beinast norður á bóginn s.s. yfir okkur.
Flokkur: Utan úr heimi | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 3
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788795
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.