Við utanvert Ísafjarðardjúp hefur meira og minna snjóað nú frá því seint á mánudagskvöld (2. mars) eða á þriðja sólarhring. Þegar þetta er skrifað er einn lítilsháttar snjókoma í Bolungarvík, en mikið hefur lægt frá því í gærdag.
Í Bolungarvík er uppsöfnuð úrkoma samkvæmt úrkomumælingum um 45 mm frá því að ofanhríðin hófst. Í Súðavík er hún álíka en hún dreifist með öðrum hætti á tímabilið. Það er alþekkt að snjókoma mælist illa þegar blæs að ráði og aðeins hluti hennar hafnar í mælinum. Lengst af mánudagsins var vindur hægur og nánast logndrífa. Svo virðist að á meðan hvað hvassast var upp úr miðjum degi í gær, í NA-áttinni, hafi minna mælst sem sést ágætlega á minni bratta línu uppsafnaðrar úrkomu í Bolungarvík. Í Súðavík var hins vegar meiri úrkomuákefð á sama tíma (ekki sýnt) og þó svo að hvasst hafi verið þar var veðurhæð ekki jafn mikil og í Bolungarvík. Við skulum líka hafa það hugfast að snjó getur líka skafið í mælana. En það var klárlega líka úrkoma í öllu snjókófinu sem gerði á meðan NA-áttin var hvað hvössust í gær. Við þau skilyrði sér jafnvel ekki á milli húsa og skyggni gefið upp sem minna en 100 metrar í veðurathugun.
Mælingar á snjódýpt getur þá verið óbeinn mælikvarði á úrkomumagn, þ.e. hve mikið bætir á. Í greinargerð Kristjáns Jónassonar og Trausta Jónssonar (Veðurstofa Íslands, 1997) um 50 ára snjódýpt segir m.a. "Mælingar á snjódýpt eru ýmsum vandkvæðum bundnar á Íslandi. Hér er vindasamt og snjór er mikið á hreyfingu eftir að hann fellur....Alvanalegt er að snjódýpt minnki eftir óveður og skafrenning."
Það var einmitt það sem gerðist í Bolungarvík. Í gærmorgun var snjódýpt áætluð í mælingu 40 sm, en eftir skafrenninginn í gær minnkar hún og er 35 sm í morgun. Engu skiptir þó snjóað hafi meira og minna allan tímann ! Snjódýptarmælingar sem eiga að gefa raunsanna mynd af snjóalögum eru því vandkvæðum háðar þegar fönnin fýkur svona stöðugt í skafla.
En það breytir ekki því að mikið hefur snjóað fyrir vestan og snjóflóð verið að falla úr þekktum farvegum, t.d. við vegin um Súðarvíkurhlíð og á Hvilftarströnd út á Flateyri.
Ljósmyndin er úr Bolungarvík og fengin af vefnum vikari.is. Tekið er fram að hún sé úr safni.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:31 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.10.): 13
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 84
- Frá upphafi: 1788586
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 73
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.