17. júní 1959 - Bráðabirgðastífla brestur

Morgunblaðið 19. júní 1959Þjóðhátíðardagurinn 1959 leið landsmönnum seint úr minni.  Framkvæmdir stóðu yfir við efsta og síðasta áfanga Sogsvirkjanna, sjálfa Steingrímsstöð, þegar gerði sannkallað norðanáhlaup með þeirri afleiðingu að stífla brast og mesta flóð í Soginu á sögulegum tíma var staðreynd.

Nú þegar hálf öld er liðin frá þessum atburðum er ekki úr vegi að rifja upp hvað þarna gerðist.

sogstöðvar_loftmyndFyrst aðeins að sögulegu samhengi Sogsvirkjanna við raforkuþörf Reykjavíkur. Snemma á öldinni beindist athygli hugsjónamanna hér á landi og erlendra samstarfsaðila þeirra að því að virkja rennsli Sogsins og þá einkum Efra-Sogið, en svo kallast sá hluti árinnar sem rennur milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns. Á milli þessara vatna er um 22 m hæðarmunur og er rennsli Sogsins fremur stöðugt með jafn stórt "uppistöðulón" og Þingvallavatn er. 1923 hófust rannsóknir á virkjun Sogsfossanna og 1928 var Efra-Sog rannsakað sérstaklega og verkið boðið út árið 1930. Ekkert varð þó af framkvæmdum vegna þess að ríkisábyrgð fékkst þá ekki fyrir erlendu lánsfé. Eftir að lög um virkjun Sogsins voru samþykkt árið 1933 var ákveðið að bíða með virkjun Efra-Sogs, en byrja á virkjun Ljósafoss þar eð sú virkjun var minni og hæfði betur raforkuþörf Reykvíkinga. Tók Ljósafossstöð til starfa árið 1937 og hún var síðan stækkuð árið 1944. Á stríðsárunum og árunum þar á eftir tvöfaldaðist íbúafjöldi Reykjavíkur og raforkuþörfin jókst því gífurlega. Rafvæðing í dreifbýli hófst um þessar mundir og því mikil þörf fyrir frekari virkjun Sogsins. Var þá ákveðið að virkja Írafoss og Kistufoss á undan Efra-Sogi vegna meiri orkugetu þar. Írafossstöð tók síðan til starfa árið 1953 og stuttu síðar, eða árið 1957, var hafin bygging virkjunar við Efra-Sog sem tekin var í notkun í árslok 1959 og gefið nafnið Steingrímsstöð. (Halldór Jónatansson í Morgunblaðinu 10. des 1995).  Á þessum tíma voru enn 10 ár í Búrfellsvirkjun og Sogsvirkjanirnar þrjár í eigu Rafmagnsveitu Reykjavíkur voru hryggjarstykkið í raforkuframleiðslu landsmanna. 

Virkjunin gerði ráð fyrir því að vatn yrði leitt um tvenn jarðgöng frá vatninu, beina leið að stöðvarhúsi við Úlfljótsvatn. Gerð var bráðabirgðastífla ofan þeirra, til að varna því að vatn færi færi um göngin á meðan framkvæmdum við virkjunina stæði.  Við hönnun virkjunarinnar var gert ráð fyrir því að fullt rennsli væri til ganganna þó vatnsborð Þingvallavatns lækkaði um heila 2 metra. (miðað við það sem það hafði hæst verið mælt).  Ekki var fríborð þessarar bráðabirgðastíflu mikið og höfðu sumir á orði að ekki myndi það duga ef kæmi til hvassrar norðanáttar með tilheyrandi áhlaðanda.  En þann 17. júní brast á með norðanáhlaupi og hvassvirði sem olli svo miklum öldugangi við stífluna að hún brast.  Áttu menn þar fótum fjör að launa.  Vatnið streymdi með miklum ofsa inn í göngin og ollu þar miklu tjóni. Mikil mildi var að ekki hlutust af alvarlega slys.

Picture 124

 

Á myndinni að ofan úr Morgunblaðinu sést að vatn rennur bæði um skarð stíflunnar og eins um farveg Efra-Sogs niður í gljúfrin handan Dráttarhlíðar. 

Untitled2Fyllt í skarðið í lok júní 1959. Ljósm. Eberg ElefsenSigurjón Rist skrifaði stórmerka skýrslu um atburð þennan, en hann flýtti sér sem mest hann mátti í Grafninginn og að Efra-Sogi frá Illugaveri upp við Hofsjökul þar sem hann var við mælingar. Hann heyrði á tal manna í Selfossradíóinu að morgni 18. júní eitthvað í þá veru að Ölfusá væri í foráttuvexti og svo virtist sem Þingvallavatn allt stefndi til hafs. Eins að síritandi vatnshæðarmælir neðan virkjanna væri horfinn í vatnsflauminn. Sigurjón og samstarfmaður hans Eberg Elefsen (höf. meðfylgjandi myndar, sem birtist í bókinni Þingvallavatn, Undrameimur í mótun, bls. 118) voru ekki komnir á staðinn fyrr en aðfararnótt hins 19.  Þá hafði mikið gengið á, en það fyrsta sem þeir gerðu var að bjarga áðurnefndum vatnshæðarmæli sem reyndist á sínum stað, en undir töluverðu vatni.  Þegar að framkvæmdasvæðinu var komið var fjöldi mann og tiltækar vinnuvélar að gera hvað hægt var í því að stöðva rennslið um skarðið

Það tók allmarga daga að hefta rennslið og þónokkuð verkfræðilegt hugvit sem Sigurjón Rist lýsir í smáatriðum í sinni skýrslu. Ekki fyrr en 1. júlí var rennsli Sogsins orðið eðlilegt og hafði vatnsborð Þingvallavatns þá lækkað um 1,34 m frá því að stíflan brast 17. júní. Stíflurofið orsakaði um 125 Gígalítra vatnstap (plús/mínus 10%)  úr Þingvallavatni samkvæmt útreikningum Sigurjóns  og þá umfram venjulegt rennsli.  Það vatnsmagn samsvarar tæplega 5% alls rúmtaks Þingvallavatns. Vatnsmagnið var við Ljósfoss áætlað mest um 400 rúmmetrar á sekúndu eða um fjórfalt venjulegt rennsli og því skal haldið til haga að vatnsmegin Sogsins er frekar stöðugt, einnig fyrir tíma virkjanna.

En hvað varð til þess að varnargarðurinn frá 17. júní brast ?  Sigurjón segir einfaldlega að garðurinn hafi ekki verið nægilega traustur.  Járnþilið hefði þurft að vera hærra og meira stórgrýti á bak við hann.  Slíkir garðar sem aðeins er ætlað standa í nokkra mánuði er leitast við að hafa eins ódýra og frekast sé unnt að teknu tilliti til krafna um öryggi þeirra.  En í hugleiðingum Sigurjóns kemur líka fram að þegar garðurinn hafi verið byggður sumarið 1958 hafi staða Þingvallavatns verið mjög lá og ekki hafi verið gefin nægjanlegur gaumur að þessari lágstöðu.

Áhyggjur Rafmagnsveitu Reykjavíkur voru eðlilega þó nokkrar eftir þetta óhapp að rennslið mundi ekki duga til að keyra Ljósafoss- og Írafoss-stöðvar á fullum afköstum komandi vetur.  Þær áhyggjur voru óþarfar því sumarið 1959 reyndist eitt það vatnsríkasta sem komið hafði um árabil og í lok ágúst var vatnsstaða Þingvallavatns í sinni venjulegu sumarstöðu eins og ekkert hefði í skorist.

Veðrið 16. til 17. júní

Vissulega gerði alvöru N-hret og vindur var hvass á landinu.  Veðurathuganir voru gerðar á Þingvallabænum á þessum tíma en ekki var það vindur metinn neitt sérlega hvass, í það minnsta ekki af stormstyrk.  Hins vegar þarf maður ekki að horfa lengi á veðurkort að morgni 17. júní þetta ár til að sjá að verulega hvasst var á landinu svona almennt séð.  Í þessari vindátt er ekki skjól að hafa á Þingvöllum. Í allt gáfu 11 veðurstöðvar upp veðurhæð af stormstyrk þennan dag og í Vestmannaeyjum var vindur áætlaður 12 vindstig. Í Morgunblaðinu eftir stíflurofið er eftirfarandi lýsingu að finna: 

Aðfararnótt 17. júní hafði verið versta veður sem komið hefur í Dráttarhlíð síðan vinna hófst þar fyrir tveimur árum.  Léku íbúðarskálarnir á reiðiskjálfi um nóttina.  Við varnargarðinn var haugabrim.  Ofan á stálþilinu framan við varnargarðinn var skjólveggur úr timbri, en í brimrótinu um nóttina og að morgni þjóðhátíðardagsins braut brimið skjólvegginn.....Um kl. 11:30 árdegis brast stálþilið framan við uppfyllinguna og brátt myndaðist 15 metra skarð í varnargarðinn. 

1959-06-17_12Í Veðráttunni er getið um símabilanir norðanlands í þessu veðri , staurar brotnuðu og drógust upp.  Þrír síldarbátar slitnuðu upp í Ólafsfirði og sá fjórði sökk út af Siglufirði (náðist upp síðar).  Fjárskaðar urðu allvíða norðanlands og fuglar drápust unnvörpum. Sigurður Þór segir í yfirliti sínu um júníhret að snjódýpt hafi verið 20 sm á Hólum í Hjaltadal að morgni þjóðhátíðardagsins.  Þá segir áfram að þann 16. hafi dýpkandi lægð verið fyrir austan land og olli hún mjög snörpu N-áhlaupi.  Að kvöldi þ. 16 og þ. 17 var norðan stormur og hríð um norðanvert landið, en þ. 18 gekk veðrið niður.  

Þetta var vissulega slæmt hret og sögulegt að auki. Íslandskortið frá hádegi 17. júní talar sínu máli.   Það sem gerðist var í stuttu máli að sæmilegur góðviðriskafli hafði  verið dagana á undan, háþrýstisvæði fyrir sunnan og suðvestan landið.  Hæðin mjakaðist til vesturs í áttina til Grænlands.  Um leið sköpuðust þá skilyrði til nýmyndunar lægðar austanvert við Grænland og vöxtur hennar á leið sinn til austurs yfir Ísland var upplagður.  Í kjölvatni hennar steyptist síðan yfir landið loft úr norðri.  Ég hef stundum kallað veður sem þetta fasaskipti í loftstraumnum; frá frekar hlýju og rólegu, beina leið yfir í mjög kalda norðanátt.  Um hættu á kólnandi veðri nokkrum dögum eftir háþrýsting var einmitt fjallað um á dögunum.   Veðurkortin hér að neðan sýna hvað um var að vera, það fyrsta er frá 16. júní kl. 00, næsta kl. 12, það þriðja á miðnætti 17. júní og það síðasta á hádegi þann dag.

Hér lýkur þá frásögn þessari af sögulegum og afar köldum þjóðhátíðardegi þegar lýðveldið var 15 ára.  Steingrímsstöð var tekin í notkun undir árslok 1959 og verkfræðingar landsins voru reynslunni ríkari eftir stíflurofið afdrifaríka.

17.júní 1959 kl. 1217. júní 1959 kl. 0016.júní 1959 kl.1216.júní 1959 kl.00


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það segir frá því í Árbók Ferðafélagsins 2003 eftir Þór Vigfússon að vaktmenn hafi bjargað miklu með því að keyra á fleygiferð niður að neðri stíflunum og opna alveg botnlokurnar þar.

Einn sagði mér frá fallegum flúðum sem voru þarna fyrir stíflu. Hann fór þarna framhjá nokkrum sinnum með pabba sínum á hestum.

Pétur Þorleifsson , 17.6.2009 kl. 10:01

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nýja myndin af þér er veðurtöffaraleg!

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.6.2009 kl. 16:48

3 identicon

Fróðleg og skemmtileg upprifjun. Þennan umrædda þjóðhátíðardagsmorgun var ég einmitt staddur í heimsókn hér á Sauðárkróki, en bjó þá í Ólafsvík í foreldrahúsum. Við fórum af stað um hádegisbil héðan og þá var snjór í mjóalegg hér og suður fyrir Reynistað, en minnkaði þar mikið. Snjór var nokkur í Langadal og einnig vestur á Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu.  Á Holtavörðuheiði var orðið bjart, en svalt og skafrenningur. Við vorum á Willy´s jeppa (CJ2A) árg. 1946 eða "47 og þá voru snjódekk ekki til á bíla, reyndar afspyrnu erfitt að fá dekk yfirleitt (!) og því varð að nota keðjur þar sem hált var eða þæfingur. Við ætluðum nú að láta reyna á það að komast keðjulaust yfir heiðina, en nokkru neðan við Miklagil var Chevrolet-fólksbíll í vandræðum og við urðum að keðja til að geta lagt því fólki lið og drógum bíl þennan langleiðina upp að Bláhæð. - Næsta umtalsverða júníhret, sem ég man eftir, var svo um sólstöður árið 1968, en þá varð hér hvítt niður að sjó. Þau árin, þ.e. frá 1965 til og með 1969 eða 1970 var hinsvegar eins og allir vita slæmt kuldaskeið á landinu.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ég kalla þig hafa gott veðurminni Þorkell !!

Einar Sveinbjörnsson, 17.6.2009 kl. 21:17

5 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Var heima á Bakka í Víðidal V.-Hún og man vel eftir veðrinu þennan dag byrjaði seinni part dags 16.júní með norðan hreggi en þann 17.var norðan hríð allan daginn. Fé var löngu komið í úthaga og engin leið að ná því samann, fór aðeins til kinda en sá fljótt að það gerði bara ylt verra þar sem rollurnar hlupu frá lömbunum sem stóðu í skjóli . Nokkur vanhöld urðu á fé en ekki mikil.Svo hlýnaði mjög vel á eftir og sláttur hófst síðustu dagana í júní sem þótti snemmt þá.

Ragnar Gunnlaugsson, 17.6.2009 kl. 22:04

6 identicon

Þetta er nú ekki allt á "harða disknum" Einar "frændi"! Bæði hef ég nú áráttu fyrir að skrifa hluti niður og svo kemur til tengingin við þetta ferðalag.  - BTW; ég tek undir með félaga Sigurði Þór að nýja myndin er "tough"!

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 77
  • Frá upphafi: 1786599

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband