Tunglið og Titanic

titanic.jpgÍ dag eru 100 ár frá því að Titanic sigldi utan í borgarís suður af Nýfundnalandi.  Margt er rifjað upp af því tilefni og bendi ég áhugasömum sérstaklega á nýja ritgerð Örnólfs Thorlaciusar sem Pétur Halldórsson las upp í Tilraunaglasi Rásar 1 í gær.  Ég sperrti eyrun sérstaklega þegar talið barst að óvenjulegri ísútbreiðslu veturinn og vorið 1912 og mögulegt orsakasamhengi við afstöðu jarðar og tunglsins fyrr um veturinn.

map.jpgHópur vísindamanna vestur í Texas með Donald nokkurn Olson í fararbroddi hefur upp á síðkastið verið að setja fram athyglisverða kenningu.  Þeir staldra við þá staðreynd að á fullu tungli 4. janúar 1912 hafi tunglið verið nær jörðu en verið hafði í um 1.400 ára skeið.  Jafnframt benda þeir á að einmitt þennan almanaksdag er jörðin á braut sinni nálægust sólu. (Svipað í dag  og er 5. janúar í ár! ).  Saman hafa þessir kraftar eins og kunnugt er áhrif á sjávarföllin og stórstraumsflóðið hefur því orðið sérlega mikið þessa daga í byrjun ársins. Síðan aftur, en þó lítið eitt minna um 28 dögum síðar á næsta fulla tungli.

En hvað hefur þetta með borgarísinn frá Grænlandi að gera og útbreiðslu hans á suðlægari slóðum, vitandi það að sjávarfallabylgjan er ekki þess megnug að flytja nokkurn skapaðan hlut ?

Til að skilja orsakasamhengið verður maður að þekkja hegðan íssins á þessum slóðum.  Það er alls ekki nýtt að var löngu þekkt að stórir borgarísjakar geta á þessum slóðum borist langt til suðurs undan austurströnd Ameríku þar til til bráðna í heitari sjó. Skýringarmyndin sem fengin er af undirsíðu NASA (Texas State University) og sýnir m.a. hafstraumakerfi undan vestur Grænlandi og afstöðu til ísins sem grandaði Titanic.

Þegar jökull kelfir í sjó fram brotna stór stykki sem berast út haf.  Straumakerfið er veikt og sjórinn kaldur.  Því getur borgarís verið að lóna lengi á Baffinsflóa og Davissundi gjarnan samfrosta við hefðbundinn hafís, þar til sterkur Labradorstraumurinn fangar ísinn og ber hann til suðurs með strönd Labrador og í áttina til Nýfundalands.  Á þeirri vegferð er algengara en hitt að stærri borgarbrotin strandi á grynningum norður af Nýfundalandi.  Á endanum, stundum að nokkrum árum liðnum, losnar þó um þau og rekur þá áfram til suðurs og út á Miklabanka og þess vegna á þær slóðir þar sem Titanic var í sinni fyrstu áætlunarferð vestur um haf.

Kenning þeirra Olson og félaga gengur sem sagt út á það að há sjávarstaða við stjarnfræðilega atburðinn  4. janúar hafi losað um fjölda strandaðra borgarísjaka, sem síðan á næstu þremur  mánuðum hafi borist með Labradorstraumnum inn á hefðbundnar siglingarleiðir.

20120414000000_nais65_0006393738.gifHvað sem því líður er vitað að óvenju mikið var um ís þetta vor suður af Nýfundnalandi og í áðurnefndri ritgerð Örnólfs er talað um mesta ís í 60 ár á þessum slóðum. Dæmi voru um það að sjóför hefðu þurft að slá af og bíða átekta vegna mikils íss um svipað leyti og Titanic var á ferðinni.  Mest hefur það verið hefðbundinn rekís með borgarbrotum af ýmsum stæðrum og gerðum.  

Útbreiðsla íss er háð mörgum þáttum, ísflæði, vindafari, hafstraumum, hita og seltu sjávar og við Nýfundnland að auki strand jakanna.  Ef til vill á þessi kenning við rök að styðjast, en við skulum líka hafa það hugfast að mögulega hefur óvenjuleg ísútbreiðsla vorið 1912 allt eins getað verið tilviljun.

Talað hefur verið um að hiti sjávar hafi verið um eða undir 0°C þar sem Titanic sökk og fólkið sem svamlaðið  í sjónum ofkælst undir eins. Miklum og bráðnandi ís fylgir kaldur sjór.  Á slóðum slyssins eru ein skörpustu hitaskil í sjónum sem um getur, þar sem svallkaldur Labradorsjórinn kemur í veg fyrir heitan Golfstrauminn (N-Atlantshafsstrauminn). Staðsetning þessara skila sveiflast til og þannig er sjórinn í dag (skv sjávarhitakorti) um 6-8°C, en stutt bæði um mun kaldari sjó norðurundan og að sama skapi eru 16-18°C nokkru sunnar.  Labradorstraumurinn, breytileiki hans og framburður á lítt söltum og köldum sjó suður á bóginn og blöndun við þann heitari, er ein af stóru gátum haffræðinnar og langt í land að menn skilji sveiflur hans til fulls.  

Í dag er fylgst mjög náið með borgarís og birti hér til gamans kort dagsins af opinberum vef Kanada, þar sem brotin eru talin í fyrirfram skilgreindum reitum.  Titanic hefði í dag hæglega komist í leiðar sinnar enda allur ís langt norðan siglingarleiðar skipsins í ferðinni örlagaríku fyrir 100 árum. 

Frekari umfjöllum NASA er hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góðan dag Einar.

Fyrirsögnin gæti kannski hafa verið "Sólin og Titanic" miðað við þennan greinarstúf á vefsíðu NOAA: http://www.oar.noaa.gov/spotlite/archive/spot_sunclimate.html

Hér er kort sem sýnir að árekstrar skipa við ísjaka hafa verið algengir á þessum slóðum: http://drtimball.com/2012/titanic-unusual-climate-extreme-ice-conditions-result-tragic-accident/

Sjá einnig: http://www.athropolis.com/arctic-facts/fact-iceberg-alley.htm

Með kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 14.4.2012 kl. 10:06

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þakka kærlega þessa tengla Ágúst !

Góður fengur í frásögn Tim Ball (tegill nr. 2) um afbrigðilega vetrarkulda við austurströnd Bandaríkjanna þennan vetur.  Þá er greinileg tölfræðileg fylgni á meðallöngum tímakvarða á sólvirkni og ísútbreiðslu þarna vesturfrá. Fróðlegt væri að sjá svipaða greiningu ef til er  fyrir ísinn á okkar slóðum, þ.e. suður með A-Grænlandi.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 14.4.2012 kl. 11:23

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gátu tungl og stjörnuspekingar þessara tíma ekki séð fyrir örlög skipsins?!

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.4.2012 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 1786630

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband