Hálf öld frá Júlíslysinu 8-9. febrúar 1959

Togarinn Júlí frá HafnarfirðiÍ dag eru 50 ár frá einu hörmulegasta sjóslysi í útgerðarsögu landsins.  Þá fórst togarinn Júlí á Nýfundalandsmiðum og með honum 30 menn í miklu ísingarveðri.  Öðrum íslenskum togurum var mikil hætta búin í þessu veðri á fjarlægri slóð. Þorkell máni úr Reykjavík var nærri því farinn og a.m.k. fjögur önnur skip lentu í vandræðum:  Júní, einnig frá Hafnarfirði sem og Bjarni riddari.  Eins Mars úr Reykjavík og Norðlendingur sem gerður var út frá Ólafsfirði.  Allir voru þetta síðutogarar, svokallaðir Nýsköpunartogarar sem keyptir voru til landsins að lokinni síðari heimstyrjöldinni.  

Ísing skipa /Hjálmar R. Bárðarson

 

Skip sem eru stödd í mjög köldum sjó, yfirborshitinn er þá um eða undir frostmarki og á sama tíma er einnig loftkuldi og særok, fá á sig ísingu á yfirbyggingu skipsins.  Hleðsla ísingar dregur fljótt úr stöðugleika og sjóhæfni. Línuritið sem hér fylgir er notað til að áætla ísingarhættu út frá lofthita, sjávarhita og veðurhæð.  Þarna er miðað við 9-10 vindstig eða um 19 til 28 m/s.  Ætla má að ísing geti orðið mikil í sjó sem er við frostmark þegar lofthitinn er jafnframt um -3°C. 

Togarinn Hallveig FróðadóttirÞó margir Nýsköpunartogaranna hafi verið afar fengsæl fiskiskip þóttu þeir ekki sérlega vel hannaðir og útfærðir með tilliti til ísingarhættu.  Á þeim voru rekkverk, vírar og fleira sem á hlóðst ís í vondum vetrarveðrum.  Myndin sýnir Reykjavíkurtogarann Hallveigu Fróðadóttur nýkomna í höfn og klakabrynjaða, líkast til um 1970 (af bílnum að dæma). 

 

Marteinn Jónasson skipstjóri á Þorkeli mána sagði svo frá í samtali við Morgunblaðið eftir ferðina örlagaríku:   Laugardaginn 7. febrúar höfðu skipverjar fyllt skipið, en þá skall veðrið á mjög snögglega. Er kom fram á laugardagskvöldið herti frostið til muna og skipið yfirísaðist mjög fljótt.  Sjávarhiti var um -2°C og það þurfti að sigla í um 100 sjómílur til að komast í þriggja til fjögurra stiga sjávarhita.  Allir _orkell_M_ni_RE_205z-viskipverjar voru kallaðir út til að hefja klakabarning... Marteinn sagði að alla nóttina hefði skipverjar þrotlaust barið klaka og notað til þess öll tiltæk verkfæri, járnbolta, sleggjur og fleira.  Engar axir hefðu hins vegar verið um borð.  Hvað eftir annað komst halli á skipið... Mesta hættan var á sunnudagskvöldið þegar gera átti tilraun til að slá skipið af og venda.  "Þá kom svo mikill halli á hann að við hættum við tilraunina. Hann lagðist á brúargluggann.  Í vélinni er hallamælir og sögðu vélstjórarnir að skipið hefði fengið 60°halla."  Loftskeytamaðurinn lét vita að Þorkell máni væri í nauðum staddur.  Þrjú nálæg íslensk skip heyrðu kallið, en miklum erfiðleikum var bundið að sigla nær Þorkeli þar sem ekki hefði verið hægt að miða skipið út vegna klaka á loftnetunum.  

Fyrir 10 árum hittust eftirlifendur áhafnar Þorkels mána til að rifja upp þennan atburð og annað markvert af skipinu.  Morgunblaðið ræddi þá við Skúla Ólafsson, sem var 18 ára háseti í sjóferðinni örlagaríku.  Skúli segir svo frá að það hafi verið mögnuð stund þegar Þorkell máni kom í land eftir þessa hættuför, en þá var enn ís á bátþilfarinu. "Við komum um kl. hálfþrjú um nóttina og bryggjan var full af fólki.  Og það ríkti dauðaþögn á bryggjunni og þetta var ótrúleg stemming.  Það var ekki að undra því aða togarinn Júlí hafði farist með allri áhöfn og þá fórust fleiri togarar, en ekki íslenskir á sömu slóðum." 
(Morgunblaðið 27. febrúar 1999.  Börðu ísinn hvíldarlaust í tvo og hálfan sólarhring)

Í nýjustu Skagfirðingabók (2008), riti Sögufélags Skagafjarðar er frásögn Alfreðs Jónssonar frá Reykjarhóli í Fljótum sem hann kallar Mannskaðaveðrið á Nýfundnalandsmiðum 1959.  Alfreð réði sig á Norðlending ÓF-4 um áramótin 1959. Alfreð segir að í hans fyrstu ferð hafi verið siglt á Nýfundalandsmið, svokallaðan Ritubanka sem er 80 sjómílur suður af Nýfundnalandi.  Þar höfðu fundist gjöful karfamið. Skipið var fyllt og landað á Sauðárkróki eftir 18 daga túr.    Á miðin komum við aftur 7.febrúar.  Þá snögglygndi allt í einu, en það var svikalogn og stóð ekki lengi.  eins og hendi væri veifað rauk hann upp í norðanofsa og síðan í norðvestrið með mikli frosti.

Ísinn barinn/ótímasett myndLýsingar Alfreðs á ísbarningnum á Norðlendingi og baráttunni við að halda sjó eru álíka og frá Þorkeli mána. Látin móðir skipstjórans kemur þó við sögu sem birtist honum í draumi og skipaði syni sínum að snúa skipinu undan veðrinu sem og hann gerði. "Ég veit að það sem hefur bjargað því að við fórumst ekki var að ísinn var frosinn í stump í efri lestinni og haggaðist ekki.  Hefði hann farið af stað og kastast til hefði leikslokin orðið önnur (þ.e. lestin fyllst af sjó, mín athugas.) .."Svona gekk þetta í tvo sólarhringa sem veðrið var verst, síðdegis á öðrum sólarhring var farið að hreyfa skrúfu í smástund í einu, og síðan smájókst það þar til hægt var að keyra á hægri ferð með batnandi veðri.  Það var í mestu látunum, eða daginn eftir að veðrið skall á, sem við fréttum að Þorkell máni væri að farast...Ekkert hafði heyrst af togaranum Júlí frá því kvöldinu áður...svo slitnaði loftnetið niður hjá okkur og við vorum sambandslausir Vonuðumst við eftir að þar hefði loftnetið slitnað eins og hjá okkur og togarinn því ekki getað látið vita af sér."

 

7. febrúar 1959 kl. 00Þá er eftir að fjalla um sjálft óveðrið sem þarna gerði.  Aðfararnótt 7. febrúar var í uppsiglingu lægð suðvestur af Nýfundnalandi (sjá efra kortið)  í tengslum við mjög kaldan heimskautaloftmassa í norðvestri yfir meginlandi N-Ameríku og milt Atlantshafsloftið suður undan. Lægð þessi hafði alla burði til að dýpka hratt sem hún og gerði um leið og hún hreyfðist til norðausturs yfir Labradorhaf.  Sólarhring síðar var dýpt í miðju hennar áætluð um 935 hPa. Hún hafði m.o.ö. dýpkað um 65 hPa á sólarhring, sem er því mesta sem verður á 24 stundum.  Gera verður þó þann fyrirvara að lítið var um athuganir og mögulega er skekkja í þessum endurgreindum kortum.  Picture 10En engu að síður brast hann á með N-og síðar NV-ofsa á Nýfundnalandsmiðum eins og frásagnir greina.  Íslensku togararnir voru staddir í köldum sjónum. Hef ekki upplýsingar hvar þeir voru nákvæmlega, en Ritubanki er sagður vera nærri 52N og 51W, eða suðaustur af Labrador í kjarna hins kalda Labradorstraums.  Lítillega er fjallað um karfamiðin á Ritubanka í gömlu riti (tengill) frá Kanadíska sjávarútvegsráðuneytinu. Auðvelt er að hnita þau út á forsíðumyndinni. Að óathuguðu máli hefði ég haldið að þarna væri bullandi hafís í febrúar ! En allaveganna er þarna misræmi við frásögn Alfreðs Jónssonar á Norðlendingi.  Gott væri að fá þetta á hreint. 

Heimskautaloftmassinn sem æddi yfir um leið og lægðin dýpkaði (fjólublái liturinn) er líka í kaldara lagi ef horft er á heildarmyndina. Ég hef reyndar ekki við höndina upplýsingar um hita við yfirborð, en ef að líkum lætur hefur verið a.m.k. 20 stiga frost á Labrador um þetta leyti.  Ekki var að undra að ísing hlóðst hratt á skipin við þessar samverkandi veðuraðstæður í frostköldum sjónum.  Besta ráðið í ísingu er ævinlega að koma sér í hlýrri sjó.  Því var ekki viðkomið eins og áður er greint.

8. febrúar 1959 kl. 00

Febrúar 1959 var mikill sjóslysamánuður. Tíðin á Íslandi var stormasöm og talsvert um slys og óhöpp.  Samgöngutruflanir nokkrar og rafmangsbilanir tíðar. Stormdagar voru margir eins og segir í Veðráttunni. Vitaskipið Hermóður fórst undan Höfnum á Reykjanesi 18. febrúar í stormi og stórsjó.  Með honum öll áhöfn eða 18 manns.  

vef Ólafs Ragnarssonar er að finna flestar þær skipamyndir sem hér eru birtar.)  

 

Viðbót:  Trausti Jónsson benti mér á veðurgagnabanka Kanadísku Veðurstofunnar.  Þar má fletta upp veðurathugunum Picture 12_1frá þessum tíma.  Mikilvægir flugvellir voru og eru enn í Gander á Labrador og við Goosebay á Nýfundnalandi.  Þeir eru merktir inn á kortið hér til hliðar svo og miðin eða Ritubanki með bláu þar sem íslensku togararnir voru að veiðum.  Stígur H. Sturluson á í fórum sínum dagbækur þar sem nákvæm staðarákvörðun er skráð (sjá athugasemd).  Um kl. 18 þann 8. febrúar var frostið 21 stig í Gander og  NNA 21 m/s.  Við Gæsaflóa, -25°C og NNA 15 m/s um svipað leyti.  Algjört manndrápsveður verður að segjast og af veðurkortinu á miðnætti að dæma er veðurhæðin nokkru meiri á miðunum, en frostið kannski ekki jafnhart.  Erfitt er að ímynda sér erfiðari aðstæður og meiri ísingarhættu en þarna í þessu óskaparveðri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri áhugavert að fá nánari staðfestingu á því hvar togararnir voru. Ég held að Ritubanki sé suðaustur af Labrador í kringum 52N, 51V. 

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 12:16

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sigurður !  Ég gerði smá leit að Ritubanka og í riti Kanadíska sjávarútvegsráðuneytisins frá 1962 er hann einmitt sagður vera upp á íslenskan rithátt á 52N og 51V.

Gerði lagfæringar í samræmi við það á textanum og setti inn eina nýja mynd.

ESV 

Einar Sveinbjörnsson, 9.2.2009 kl. 14:14

3 identicon

Hafísinn er á þessum tíma ekki langt undan, en liggur samt eitthvað nær ströndum Labrador og Nýfundnalands. Hér er nýjasta ískortið:

http://ice-glaces.ec.gc.ca/prods/WIS27C/20090121180000_WIS27C_0004180001.gif

Annars má reikna með að norðvestan áttin sé ansi köld þar sem hún kemur beint af þessum mikla og kalda landmassa í Labrador og Quebec.

sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 14:51

4 identicon

Dagbókarfærsla frá 5 jan 1959,voru skipin að veiðum 51*35 N  50*25W á 170 til 180 fm.8jan 51*46N og 51*02 W á svipuðu dýpi

Stígur H Sturluson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 23:00

5 identicon

Þetta var þörf upprifjun og áminning um hvað skammt getur verið milli lífs og dauða þegar sjórinn er sóttur hér við norðanvert Atlantshaf. Ég hef minnst á það áður á þessum vettvangi, að fátt hefur glatt mitt gamla hjarta jafn mikið eins og að síðasta ár fórst enginn íslenskur fiskimaður við störf. Við sem vorum komin til vits og ára þegar Júlíslysið varð munum væntanlega þessa daga, meðan þjóðin beið milli vonar og ótta eftir fregnum um afdrif togarans. Margur sjómaðurinn hefur hlotið vota gröf síðan og því miður má gera ráð fyrir að slys verði í framtíðinni. En það hefur tekist að fækka þeim mikið og einn markverðasti þátturinn í því starfi hefur verið Slysavarnaskóli sjómanna. Þar hefur verið unnið gríðarlega mikilvægt og árangursríkt starf af tiltölulega fáum manneskjum, sem hafa haft nauðsynlegan eldmóð, samhliða kunnáttu og færni, til þess að miðla þekkingunni til sjómanna. Mér þykir ástæða til að þakka því góða fólki fyrir mína hönd og sjálfsagt allra annarra, sem notið hafa fræðslu Slysavarnaskólans fyrir þeirra hlut.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 09:54

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég man mjög vel eftir þessu slysi. Einn bróðir bekkjarsystur minnar í Miðbæjarsbarnaskólanum, sem ég var meira að segja skotinn í, fórst með skipinu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.2.2009 kl. 12:06

7 identicon

Í greininni segir: "Eins Mars úr Reykjavík ...".

Faðir minn, Markús Guðmundsson skipstjóri á Marsinum, hefði örugglega getað svarað fyrir um ferðir skipsins á þessum tíma. Hann lést hins vegar 18. janúar s.l.. Ég minnist þess reyndar ekki að hann hafi nokkurn tímann talað um að skipið væri í hættu - þó svo hafi vel getð verið án þess að ég vissi það. Móðir mín minnist þess reyndar heldur ekki, en telur að skipið gæti hafa verið á heimleið. En þetta er jú langt síðan og ekki gott að segja ...

Markús Sveinn Markússon (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 17:02

8 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Markús !

Blessuð sé minning Markúsar Guðmundssonar skipstjóra.  Í umfjöllun Morgunblaðsins þar sem haft er eftir skipstjóranum á Þorkeli mána að Mars hafi komið Þorkeli mána til aðstoðar og fylgt honum á heimstíminu til Reykjavíkur.  Ekki er þess getið að Mars hafi verið í hættu, en vafalítið hafa öll fiskiskipin sem þarna lent í vandræðum vegna ísingarinnar, mismiklum þó.  Sagt er frá Nýfundlandsslysunum eins og margir hafa kallað þau, allítarlega í tveimur bókum.  Annars vegar í bókaflokknum Þrautgóðir á raunarstund eftir Steinar J Lúðvíksson.  Bindið er frekar aftarlega í röðinni.  Hins vegar í bók eftir Svein Sæmundsson og út kom árið 1966. Mig minnir að hún heiti Úr brimskaflinum eða eitthvað á þá leið. 

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 10.2.2009 kl. 18:04

9 identicon

Takk fyrir, Einar. Ætla að rýna í þessar heimildir ...

Markús Sveinn Markússon (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 22:48

10 identicon

Í jólablaði fiskifrétta 2008 er rætt við Áka Stefánsson skipstjóra á Harðbaki EA um Nýfundnalandsveðrið 1959. Áhugaverð lesning.

Áki Thoroddsen (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 13:42

11 identicon

Minni einnig á annað sjóslys um svipað leyti árs (11. feb. 1973), þegar Sjöstjarnan frá Keflavík fórst með 10 manns suð-austur af landinu.

Eftir einn lengsta hlýindakafla sem ég man eftir, (hlýskeið þetta varaði meira eða minna frá því í snemma í jan. 1972 til ca. 10. feb. 1973), brast á norðanhvellur með hvössum vindum, kuldum og éljagangi.  Þetta veðurlag tel ég að hafi orðið Sjöstjörnunni og áhöfn hennar að fjörtjóni.  Sjöstjarna var á leiðinni frá Færeyjum eftir gagngert viðhald og hreppti þetta norðanbál og mun vindurinn hafa staðið upp á stjórnborðssíðu Sjöstjörnunnar.  Þessu hefur fylgt mikil ísing sem að lokum hefur líklega leitt til þess að Sjöstörnunni mun hafa hvolft og hún hafi sokkið með það sama.

Engin var náttúrlega til frásagnar um þetta því að öll áhöfnin fórst, þar á meðal eiginkona skipstjórans og skyldu þau eftir sig lítil börn, en alls misstu um 15 börn foreldri sitt þarna.  En svona mun þetta líklega hafa átt sér stað, segja mér reyndir sjómenn.

Man einhver eftir þessu slysi?

Og man einhver eftir hlýskeiðinu sem var meira eða minna frá jan. 1972 - ca. 10 feb. 1973 ???  Hvað segir þú, Einar?

Hafliði Svein Þorsteinsson (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 09:21

12 identicon

Ég má til með að biðjast afsökunar. Einn ágætur fyrrum sveitungi minn hafði samband við mig út af því sem ég "kommenteraði" hér dálítið ofar um hvað stuðlað hefði að meira öryggi fiskimanna og annara er "færu á sjótrjám". Hann tók fram að hann væri sama sinnis um Slysavarnaskólann, en okkur, sem létum okkur annt um hag sjómanna mætti ekki gleymast að minnast á stórkostlegar framfarir í veðurþjónustu. Þar kæmi til bæði aukin og bætt tækni, meiri tíðni fregna og betri og viðtækari miðlun þeirra. Af því ég hefði komið fram með þetta í tengslum við bloggsíðu veðurfræðingsins, þá hefði mér borið skylda til að nefna þetta, því þáttur veðurfræðinga og veðurþjónustu væri ómetanlegur. Þetta er auðvitað hárrétt hjá kunningja mínum og vil ég því árétta þetta og biðja Einar og kollega hans afsökunar á því að hafa horft framhjá þeirra þætti.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 94
  • Frá upphafi: 1786700

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband