Frostmarkshæðin í um 1.000 metra hæð.

Eindregið hlákuveður er nú á landinu, hvergi frost á byggðu bóli.  Á Fjarðarheiðinni yfir á Seyðisfjörð var þriggja stiga hiti nú í morgun, en það er sá fjallvegur sem hæst fer hér á landi í vetrarumferðinni eða í 600 metra yfir sjávarmál.  Í grenndinni er veðurstöð á Gagnheiði við mikilvægan fjarskiptabúnað sem þar er í 950 metra hæð.  Þar var hitinn um frostmark og hávaðarok af SA.  Út frá þessum mælingum og öðrum upplýsingum má segja að frostmarkshæðin sé í um 1.000 metra hæð gróflega séð yfir landinu

Gagnheiði /VÍ Sigvaldi ÁrnasonEkkert óvenjulegt við það og kemur fyrir oft í leysingatíð, jafnvel um hávetur, einkum í seinni tíð.  Ef ástand sem þetta fer að vara meira og minna um nokkurra daga skeið tekur snjó hratt upp í fjöllum og það er einmitt að gerast nú.  Nánast er að verða snjólaust í byggð á landinu og mér er til efst að nokkurs staðar sé að finna alhvíta jörð upp úr miðjum janúar.  Slíkt hlýtur að teljast frekar óvenjulegt svo ekki sé tekið dýpra í árinni.  Fyrstu vikuna í janúar voru komin álveg ágætis snjóalög um norðanvert landið.  Þann snjó hefur að mestu tekið upp utan fyrninga í sköflum hér og þar.

En svo merkilegt sem það kann að hljóma að þá fitna jöklarnir í þessu tíðarfari.  Ákomusvæði stóru jöklanna er nefnilega að mestu ofan 1.000 metra.  Suðaustanlands er mikið vatnsveður í þessum skrifuðu orðum og úrkoma mælist í stóru skömmtunum.  Þó svo að rigni og leysi við skriðjökulsporðana, snjóar einhver lifandis býsn uppi á sjálfum hájöklinum.  Það er kannski ofmælt að segja að jöklarnir fitni mikið við einn atburð að vetri, en fyrir afkomu þeirra er veður sem þetta margfalt hagstæðara en þurr og frostköld norðanáttin. 

Myndin er frá Gagnheiði síðla vetrar, fengin af vef Veðurstofunnar.  Sigvaldi Árnason tók myndina.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst einkennilegt þegar jörð er talin flekkótt af snjó þá er sums staðar jafnvel gefin upp umtalsverð snjódýpt samt sem áður eins og t.d. núna 15 cm á Akureyri. Mér finnst það nánast villandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.1.2010 kl. 10:17

2 identicon

Já eflaust er þetta jákvætt tíðarfar fyrir stóru jökla landsins en það er heldur magurt fyrir smájökla á norðurlandi þessa dagana. Oft háttar þannig til þegar gerir tiltölulega svalar og hvassar sunnan og SV áttir að það éljar talsvert til fjalla á Tröllaskaga og skefur þá yfirleitt mikið ofan af fjöllum skagans niður á jöklana. En lítið hefur borið á því í þessum sunnan hláku kafla þar sem veður hefur ýmist verið of hlýtt til þess og svo kaldari dagarnir úrkomulausir að mestu.

Skafti B (IP-tala skráð) 20.1.2010 kl. 10:37

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Reyndar ekki alveg rétt hjá þér Einar. Fjarðarheiði er í 620 m. hæð en Oddsskarð við jarðgöngin eru í 635 m. hæð. Svo er Hellisheiði Eystri í 665 m. og Möðrudalsfjallgarður í 660m.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.1.2010 kl. 16:49

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Vissulega rétt hjá þér Gunnar, veit vel af Hellisheiði Eystri en hún er ekki eiginlegur vetrarvegur.  Þarna var ég hins vegar að miða við uppgefna hæð á veðurathugunarstöðvunum og réttara hefði verið að taka það fram.  Veðurstöðvarnar eru sjaldnast þar sem fjallvegirnir fara hæst , en ekki munar miklu á Fjarðarheiði. Öllu meiri á veðurstöðvunum bæði á Oddskarði og "Fjöllunum".

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 20.1.2010 kl. 18:53

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Veðurstöð Vegagerðarinnar í Oddsskarði er nánast í sömu hæð og göngin... e.t.v. 10-20 m. neðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.1.2010 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 91
  • Frá upphafi: 1786716

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 83
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband