Leysingin væg - ekki asahláka

screen_shot_2012-01-06_at_8_13_44_am.pngSkilin með úrkomu sem gengu yfir suðvestanvert landið í nótt ollu talsverðri ófærð í efri byggðum á Höfuðborgarsvæðinu eins og það er kallað.  Talsverð hríð var því laust fyrir kl. 11 í gærkvöldi fram undir kl. 04 að það hlánaði og fór í slyddu og rigningu þær u.þ.b. eina til tvær klukkustundir áður en veðraskilin fóru hjá.  Þetta má sjá á meðfylgjandi línuriti sjálfvirku stöðvarinnar í Reykjavík (við Veðurstofunnna).  Efra ritið sýnir hita (neðri línan - daggarmark).  Við sjáum að hitinn er rétt um frostmark frá því í gærkvöldi og þar til upp úr kl. 04 að það tekur að hlýna nægjanlega til að fá bleytu í úrkomuna.  Neðra ritið sýnir uppsafnaða úrkomu.  Sjá má að upp úr kl. 05 stytti upp. (Myndin er af vef VÍ)

Meginhluti úrkomunnar féll því sem snjókoma, en minnihluti sem slydda eða rigning. Blotinn telst því vægur, en ég heyri í fréttum RÚV að nú sá komin asahláka. Fleiri sá eg að voru að tala um veðrið á þessum nótum í gær.  Ég hef áður bent á og fjallað um varasemi þess að gengisfella lýsandi hugtök sem mikilvægt er að geta  gripið til þegar á þarf að halda.

Dæmi:  Hitabylgja, ofsaveður, hörkugaddur, stórhríð, steypiregn og asahláka.  

Í stuttu máli má segja að asahláka sé ákveðið leysingarveður þar sem saman fer talsverð  rigning í hita a.m.k. 4°C, saman með hvassviðri ofan í snjó sem fyrir er. Í nótt féll meginhluti úrkomunnar sem nýr snjór og hláka með rigningu sem orð var á gerandi kom aðeins rétt í lokin.  

Það er síðan annað mál að við megum ekki við neinu vatni sem heitið getur eftir þessa tíð.  Klakinn sem fyrir drekkur ekki í sig vætunna eins og nýrri snjór gerir og er ekki  ummyndaður eða harðpakkaður.  Vatnið rennur á klakanum, sem aftur stíflar niðurföll og aðra vatnsfarvegi.

Síðan þarf ekki nema mjög vægan blota til að framkalla flughálku á vegum.  Væga leysingin er í því tilliti bara verri, af því að asahláka væri líklegri til að leysa burtu klakabrynjuna sem víða hefur safnast á vegi landsins.   

Næsta lægð sem væntanleg er á sunnudag gæti hins vegar borið með sér heldur meiri hlýindi og stærri hluta úrkomunnar sem rigningu. 


Mikið tjón í Skotlandi

Glasgow_3jan_2011_BBC_Kym_Wallace.pngBreskir og skoskir fréttamiðlar greina frá miklu eignatjóni þegar óveðrið sem kennt er við Emil fór yfir fyrr í dag.  Tveir hafa látist. Þessa mynd fann ég á vef BBC og var send inn af vegfarandanum Kym Wallace.  Hún er frá Glasgow og sýnir okkur að veðrið var umfangsmikið og olli ekki síður tjóni í stóru bæjunum en við sjávarsíðuna.  Sýnist þetta vera þak í heilu lagi ásamt einhverju fleiru sem hrúgast hefur upp að íbúðarblokkinni.

Sé á síðu bresku veðurstofunnar að mesta mælda hviða í dag er skráð 46 m/s (102 mph).  Sú mæling var ekki upp á háu fjalli eða í þröngum firði hlémegin vindsins, heldur í Edinborg.  Nánar tiltekið á Blacward Hill um 3 km suður af miðborginni.  Þar í um 170 metra hæð er veðurmælistöð eða Royal Observatory eins og það er kallað.

Ég hef líka séð myndir þar sem flutningabílar hafa fokið út af í sterkum hliðarvindi, líkast til  snörpum vindhviðum.  Það er því víðar en hér á landi þar sem hviðurnar geta verið skeinuhættar umferðinni.


Fallegur er hann Emil, en skelfilegur samt

Óveðurslægðin sem gengið hefur yfir Bretlandseyjar, Norðursjó og Danmörku í dag fékk hjá norsku Veðurstofunni heitið Emil.  Áður hafa verið nefndar Berit (aðfangadagslægðin hér) og Dagmar (jóladagur).

Emil_Metno_3jan2012.jpgEmil er alvörulægð.  Á hádegi var þrýstingur í miðju áætlaður 953 hPa.  Hún sver sig í ætt fyrirrennara sinna að vera hraðfara og kröpp.  Önnur tegund óveðurslægða eru þær sem eru enn dýpri, meira hægfara og víðáttumiklar.  Sú gerðin sem verið hefur ríkjandi síðustu vikurnar er sennilega skeinuhættari hvað tjón áhrærir.  Sérstaklega sunnan miðjunnar þar sem V- og SV-áttin leggst með hraða lægðarinnar og veðurhæð verður umtalsvert meiri fyrir vikið. 

 

Þær sem eru víðáttumeiri og hægfara eru líklegri til að ná upp stormi af SA-, NA- og út í N-átt hér á landi.  Þær eru þegar öllu er á botninn hvolft verri hér hjá okkur en þessar sem nú æða austur um.  Við finnum vart fyrir nokkru af þeirra völdum, jafnvel þó loftþrýstingur sé tiltölulega lágur.  Þessa hraði á lægðakerfunum nú skrifast einkum á reikning þess hvað stutt er í mjög hlýtt loft suður á Atlandshafi og háloftaröstin meiri fyrir vikið.  En vitanlega er kalt loft líka til staðar á okkar slóðum og einkum hér norðvestur og vestur undan. Annars dýpkuðu engar lægðir.  Þegar kuldinn í háloftunum á mestan þátt í dýpkun lægðanna verða þær frekar víðáttumiklar og hægfara (og oftast verri á okar slóðum).  Nú er þvi sem sagt öfugt farið á meðan hlýtt og rakt Atlantshafsloftið í aðalhlutverk.


Helstu veðurminni ársins 2011

2011 var ár sem einkenndist af miklum sveiflum í veðurfari og einkar skýrum straumhvörfum í veðráttunni.  Hita- og úrkomulega séð var árið öfgafullt þó svo að meðaltölur ársins í heild séu fæstar í þá áttina.  Þá urðu mikil umskipti í loftþrýstingi frá fyrra ári 2010 þegar meðalloftþrýstingur var með allra hæsta móti sem um getur, en í september- desember 2011 hefur meðalloftþrýstingur hins vegar aldrei orðið jafnlágur í Reykjavík.  Meðalvindhraði var mikill, en þó engin tiltakanleg illviðri.  Þetta var enn eitt árið í syrpu sem spannar orðið á annan áratug sem hiti var ofan meðallags á landinu.

Hér fara á eftir eitthvað sem kalla má 10 eftirminnilegustu veðurminni ársins 2011 að mínu mati.

 

  • Straumhvörf urðu í vetrarveðráttunni með þrettándahvellinum.  Slæmt N-kast og var brennum frestað, ófærð og samgöngutruflanir.  Tjón þó lítið þrátt fyrir allt.
  • Veturinn var hlýr (eftir þrettándann) í janúar og febrúar.  Rigningarsamt á láglendi og almennt séð fremur snjólétt.
  • Önnur straumhvörf urðu fyrstu dagana í mars og  varð þá  umhleypingasamt og víða með nokkrum snjó út mánuðinn.
  •  Vorveðráttan var einkennileg svo ekki sé dýpra í árina tekið.   Apríl þótti óvenjuhlýr og sá hlýjasti austanlands frá upphafi mælinga eða um 4 gráðum yfir meðallagi.  Án efa athyglisverðasta veðurmet ársins.  Hæstur komst hitinn í 20,2°C á Skjaldþingsstöðum á Vopnafirði. (þ. 9. Apríl). Það er þó ekki hámarksmet fyrir mánuðinn. Ýmsir fjallvegir austanlands voru opnaðir fyrir páska og þótti með miklum ólíkindum, enda veðráttan á köflum sem á sumri væri.
  •  Mjög úrkomusamt var suðvestanlands í apríl og aðeins einn þurr dagur í Reykjavík.  Aðeins einu sinni áður hefur mælst meiri úrkoma í Reykjavík.
  •   Enn ein skörp hvörf í tíðinni urðu upp úr miðjum maí þegar gerði hálfgerða vetrarveðráttu um svipað leyti og Grímsvötn rumskuðu.  Snjóþyngsli voru tilfinnanleg og óvenjuleg svo seint í maí austan- og norðaustanlands. Sem dæmi um andstæðurnar má nefna að hitinn fór í 17°C á Vopnafirði 2. maí, en upp úr 20. var snjódýptin viðvarandi 10-20 sm.
  •  Kuldinn hélst áfram í júní.  Sérlega kalt var norðaustanlands og þarf að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna ámóta kaldan júnímánuð.  Sífelldar N-áttir og þá var líka sérlega þurrt um meginhluta landsins og háði það gróðurframvindu verulega.
  •  Raunverulegt sumar hófst ekki fyrr en um mánaðarmótin júní/júlí þegar það urðu enn ein straumhvörfin í veðrinu.  Hagstæð sumarveðrátta eftir það og fremur hlýtt í það heila tekið.  Ekki sólríkara sumar í Reykjavík frá 1929.  Raunverulegar hitabylgjur létu þó á sér standa og hæsti hiti sumarsins á veðurathugunarstöð á landinu náði hvergi 25 stigum sem út af fyrir sig er athyglisvert.
  •  Fremur hlýtt og úrkomusamt haust, en um 20. september skipti um tíðarfar úr sumri yfir í eindregnar haustrigningar,  allt þar til seint í nóvember og með litlum hléum.  Þetta reyndist úrkomusamasti október s.s. í Æðey, Hrauni á Skaga og Grímsstöðum á Fjöllum, en mælingar hafa verið gerðar í áratugi á þessum stöðum.
  • Snjóþyngslin sunnanlands í desember komast í sögubækurnar, sérstaklega á Suðurnesjum og með suðurströndinni.  Ekki hefur mælst meiri snjódýpt í Reykjavík í desember, en þeir 33 sm sem mældust að morgni þ. 29.  Ekki heldur fleiri alhvítir dagar í Reykjavík og á Akureyri var alhvítt allan mánuðinn.  Slíkt er ekki einsdæmi en fremur fátítt.

 

Heimildir:  Fréttir af vef Veðurstofu Íslands, gagngrunnur Veðurstofunnar og bloggið mitt á; esv.blog.is.  (Í umfjöllun um þessi sömu mál í þættinum Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 fyrr í dag (2. jan) gleymdist hjá mér að geta heimilda og biðst ég forláts á því. )


Samanburður í snjóþyngslum í Reykjavík

snjo_769_vi_769_sitala.pngVandinn við að bera saman snjó á milli ára felst í því að bæði verður að taka tillit til þess hve alhvítir dagar eru margir og snjódýptin á hverjum tíma.

Hér er skilgreind einskonar snjóvísitala.  Hún er í raun einfalt mælitæki og er fundin þannig að meðalsnjódýpt alhvítra daga er margfölduð með fjölda alhvítra daga.  Sama niðurstaða fæst líka með því einfaldlega að leggja snjódýptina saman fyrir tiltekið tímabil. Því má líka kalla vísitöluna snjósummu.

Ef mánuður sem telur 31 dag er alvítur upp á hvern einasta dag, en snjódýptin þó aldrei meiri en 1 sm væri summan eða vísitalan 31.  Sama gildi fengist ef aðeins einn dagur er með snjó með  snjódýpt upp á 31 sm.

Þessi mælikvarði er ágætur til að meta snjóþyngsli einstakra mánaða eða vetrarins í heild sinni.  Fyrir desembermánuði frá 1961 í Reykjavík sjáum við að 1984 og 2011 skera sig úr.  Fyrir yfirstandandi mánuð vantar síðasta daginn. Þá verða að mælast 40 sm til að jafn töluna frá 1984.  Afar ólíklegt er að það náist.  Við sjáum líka að í desember  1987  hefur vísitalan gildið 0 og eins 2002.


33 sm snjódýpt í Reykjavík í morgun

Svo ótrúlegt sem það kann nú að hljóma að þá hefur ekki mælst meiri snjódýpt í Reykjavík frá því í febrúar 1984 svo fremi að sú viðmiðunartafla sem ég hef undir höndum er rétt.  33 sm las mælingamaður Veðurstofunnar af mælistikunni rétt fyrir kl. 09.  Henni er stungið niður á 10 stöðum þar sem snjór liggur nokkuð jafnfallinn í mælireitnum við Bústaðveg. Snjódýptin er síðan meðaltal þessara 10 álestra.  

Þetta telst því vera óvenjulega mikið fannfergi á Höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. í seinni tíð og enn bætir á snjóinn.

Víðar á landinu er talsverður snjór og mæld snjódýpt mun meiri en í Reykjavík.  Þannig töldust vera 63 sm í Ólafsfirði í morgun. 48 sm á Klaustri og 55 á Hólum í Dýrafirði.  


Ekki meira fannfergi í Reykjavík í rúman áratug

snjomokstur_1.jpgÞessi kafli með samfelldum snjó suðvestanlands er þegar orðinn allóvenjulegur. Það tók upp á aðfangadag (þá voru reyndar talsverð svellalög). Annars hefur jörð verið talin snævi þakin frá 25. nóvember. 

Segja má með nokkurri vissu að ekki hafi verið svo snjóþungt í Höfuðborginni í rúman áratug, en veturinn 1999-2000 þótti snjór með meira móti.  Þá var alhvítt 6.febrúar til 17. mars og snjódýptin var þá mest 28 sm (27. febrúar). Í desember þann vetur var snjór yfir lengst af nema í um vikutíma um jólin. 

Nú er hins vegar mun meiri snjór en var þá og leita þarf aftur til ársins 1984 til að finna álíka snjóþungan desember og nú.  Samanburður í þessum efnum er ekki auðveldur og ég kynni til sögunnar síðar í dag nokkurskonar snjóvísitölu sem tekur bæði mið af fjölda alhvítra daga og mældri snjódýpt.

Segja má að undanfarna vetur hafa verið óvenju snjólétta á þessum slóðum.  Hins vegar hafa komið stuttir kaflar einkum fyrir norðan og austan með nokkru fannfergi og í því efni skemmst að minnast ófærðar samfara því sem snjó kyngdi niður á Akureyri um þetta leiti vetrar fyrir tveimur árum (snjódýpt 76 sm, 29. des 2009). Vestur á fjörðum hefur hins vegar vart komið snjór sem nokkru nemur í fleiri ár. 

Suðvestanlands er óhæt að fullyrða að eldri ökumenn eru komnir úr allri æfingu við akstur í þeirri ófærð sem nú er.  Yngri ökumenn þekkja aðstæðurnar illa eða alls ekki.  Eftir hagfellda vetrartíð suðvestanlands  í allmörg ár eru líka fleiri ökutæki vanbúin til að komast í gegn um þæfinginn heldur en var hér fyrir 20 til 30 árum þegar fjórhjóladrifsbíll þótti sjálfsagður fyrir búsetu í Árbænum eða í Breiðholti sem þá voru efstu byggðir Höfuðborgarsvæðisins. Þetta var gullaldartími Lödu Sport jeppanna og fjórhlóladrifinna Subaru-jálkanna árunum upp úr 1980.   

(myndin er fengin af ruv.is)

 

 


Hrímþoka á Sandskeiði í morgun

Sandskeið_28des2011_esv.jpgStóðst ekki mátið á leið í Bláfjöll um kl. 10:30 í morgun að smella af mynd af dúlúðlegri hrímþoku sem lá þá yfir Sandskeiði. 

Spurning er þessi hvaðan berst rakinn sem veldur þessari staðbundnu þoku ?  Þrír möguleikar eru hér gefnir:

1.   Úr jarðveginum eða öllu heldur úr snjónum.

2.   Frá Hellisheiðarvirkjun.

3.  Rakinn er í loftinu.

Hugleiðið endilega valmöguleikana, áður en lesið er áfram !

Hvað fyrsta möguleikann varðar að þá er uppgufun afar lítil úr snjónum.  Hún er þó alltaf einhver og þó ótrúlegt sem það kann að hljóma að ís og snjór gufar beint upp í frosti og þegar loft er þurrt.  Ef þessi möguleiki væri réttur hefða þoka legið nánast um allt. 

Loftinu berst viðbótarraki frá gufuveri OR, þ.e. Hellisheiðarvirkjun þarna skammt í austri.  Í hægum vindi stígur gufurbólsturinn til himins og rakinn þynnist þar út við blöndun lofts.  Sést í baksýn þar sem bólsturinn frá Hellisheiðarvirkjun er skýrt afmarkaður.  Hann á því engan hlut að máli.

Þriðji möguleikinn, þ.e. að rakinn sé einfaldlega í loftinu, hann er réttur. Nú vantar veðurmælingar á Sandskeiði. Vegagerðin mun þó brátt endurnýja fyrri veðurstöð sína sem þarna var (var fjarlægð við tvöföldun vegarins).  Á Hólmsheiði, heldur nær Höfuðborginni var 7 stiga frost um þetta leyti í morgun og hægviðri.  Lofti var hins vegar rakt á mælikvarða rakastig sem var 96%. Þýðir að daggarmark þess var um -7,5°C eða því sem næst.  Í lægðinni við Sandskeið hefur einfaldlega verið ívið kaldara og loftið náð að mettast af raka. 

Hrímþoka, frostþoka eða héluþoka eru góð og gild heiti á þessari gerð þoku sem oft má sjá staðbundið í kyrrviðri á veturna.  Oftar þó til landsins eða á fjöllum, heldur en við sjávarsíðuna.  Og hvernig skyldi nú standa á því ??

 

 


Tími glitskýjanna

Þorlákur Sigurbjörnsson sem býr í Langhúsum í Fljótum sendi mér þessa mynd sem hann tók við birtingu í gærmorgun, þrjðja jóladag.

Fljótamenn eru ekki óvanir glitskýjum en hann sagði með sendingunni; "Þá logaði bókstaflega austurhimininn af glitskýjum, þau voru fleiri en ég hef nokkru sinni séð."

glitsky_769_27_12_2011_001.jpgMesta von til þess að sjá glitský er frá því upp úr 5 til 10. desember og fram í janúar.  Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu (um eða undir -70 til -90 °C). Þau eru mynduð  úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum. 

Um þessar mundir eru meiri líkur en oft áður til að sjá glitský.  Bæði hefur verið nú að undanförnu óvenju kalt í heiðhvolfingu og síðan hjálpar það til að dagar með hreinviðri eru algengir í tíðinni nú þegar fremur kalt er og lítið um lægri ský sem kunna að byrgja sýn.  Síðustu daga hefur mestur kuldinn í heiðhvolfinu verið fyrir norðan og norðvestan landið.  Einnig í dag, en síðan hlýnar nokkuð þarna uppi á okkar slóðum í bili a.m.k.

Heilmikinn fróðleik um glitský er að finna í fróðleikshorni Veðurstofunnar sem vísða er til hér.   


Illviðratími

screen_shot_2011-12-26_at_10_18_59_am.pngVið heyrum nú fréttir af tjóni í Skandinavíu af völdum tveggja lægða.  Sú fyrri sem Norðmenn kalla Cato er sú sama og fór hér yfir land á aðfangadag og olli jólapakkahvellnum austanlands. Sá hvellur var með þeim hætti að full þörf er á því að skoða veðrið nánar fyrir austan.  Vindhviðurnar mældust mjög víða ansi miklar í skamma stund. 

Á meðfylgjandi tunglmynd frá móttökustöðinni í Dundee frá því um kl. 04:30 á jóladagsmorgun er sú lægðarmiðja merkt með bókstafnum c.

Sú sem meiri óskunda gerði og kom strax á eftir hinni, reyndar hér suður af landi fékk hjá norsku veðurstofunni heitið Dagmar.  Hún var um þetta leyti í gær í miklum dýpkunarfasa suður af Reykjanesi og illúðleg að sjá á tunglmyndum.  Við sluppum alveg við veður af hennar völdum, nema að hún gaf sunnlendingum dálítnn jólasnjó.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að veður af völdum Dagmarar verði þegar allt kemur til alls líklega eitt af  5 þeim verstu á síðari árum þar í landi.  Einkum varð óveðrið mikið þar sem SV- og V-áttin skall á ströndinni skammt sunnan lægðarmiðjunnar seint í gærkvöldi frá Þrándheim suður um í Sognsfylki.  Þannig þoldi raforkuflutningskerfið vindinn illa og þúsundir heimila urðu rafmagnsleysinu að bráð.  Handan landamæranna í Svíþjóð er talað um að 170.000 manns hefi verið án rafmagns nú í morgun. Slembilukka að allir hefi komist sæmilega heilir, en ekki öll kurl komin til grafar enn. 

Þessi illviðratími þar sem hverja djúpu lægðina rekur aðra er vissulega nokkuð óvenjulegur, en ekki einsdæmi. Kaflinn hófst nokkrum dögum fyrir vetrarsólhvörf eða um 19 til 20. des þegar mikil háloftavindröst náði að byggjast upp á Atlantshafi. Til þess að svo verði þarf að vera einkar hlýtt loft yfir V-Evrópu miðað við árstíma og líka verður kuldahvirfillinn sem gjarnar er við Grænland og Baffinsland um þetta leiti að vera mikill um sig og teygja anga sína suður á Atlantshaf. Þegar þetta gerist samtímis fá vetrarlægðirnar óvenjugott fóður eins og Trausti Jónsson kallar það gjarnan.  Skotvindurinn í háloftunun tryggir það síðan að þær fara hratt yfir. 

Frá því seint á aðfangadag höfum við á Íslandi verið alfarið á áhrifasvæði kuldahvirfilsins í vestri með tilheyrandi éljalofti og vetrarlegri tíð.  Ekkert bendir til þess að þessi meginstaða veðurkerfanna sé að láta undan og krappar og djúpar lægðir verða því enn um sinn á ferðinini a.m.k. eitthvað fram á nýárið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband